Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 03. mars 1997, kl. 19:07:31 (4156)

1997-03-03 19:07:31# 121. lþ. 82.13 fundur 219. mál: #A stjórn fiskveiða# (kvótaleiga) frv., 263. mál: #A stjórn fiskveiða# (undirmálsfiskur) frv., 341. mál: #A Stjórn fiskveiða# (veiðiskylda) frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur

[19:07]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt að rifja það upp vegna fyrirspurnar hv. 6. þm. Norðurl. e. að umgengnisnefndin svokallaða skilaði ítarlegum tillögum á sínum tíma og núgildandi lög um umgengni um fiskstofna eru afrakstur af starfi nefndarinnar.

Önnur tillaga sem nefndin gerði og fól í sér breytingu á reglugerð en ekki lögum var sú að afnema með öllu þær heimildir sem voru í reglugerð um að koma með hluta af afla með undirmálsfiski utan kvóta. Það þótti ekki gefa góða raun og nefndin tók það til endurskoðunar og kom með nýjar tillögur. Þær eru í gildi núna og ég hefði talið að það væri eðlilegt að framkvæmd þeirra fengi eðlilegan umþóttunartíma.

Ég hef hins vegar nýlega átt tal við forustumenn nefndarinnar um að taka þær hugmyndir sem fram hafa komið, ekki bara um undirmálsfisk heldur allan aukfisk, til heildarskoðunar. Það eru mjög skiptar skoðanir um það hvort þær leiðir sem hafa komið fram í ýmsum tillögum séu í raun til þess fallnar að draga úr því að fiski sé hent og samræma um leið að við höldum okkur auðvitað við þau heildarmarkmið um fiskveiðistjórn sem að er stefnt. Um þetta eru mjög skiptar skoðanir.

Eins og fram kom af hálfu sjútvn. árið 1988, þá taldi hún þá að það ætti alfarið að hverfa frá þessu og það hafa verið efasemdir um þetta af hálfu forustu sjómanna og útvegsmanna. En nefndin ætlar sem sagt að taka þetta mál í heild sinni til skoðunar. Auðvitað mun það taka nokkurn tíma að fara yfir röksemdir og mótrök, með reynsluna af því fyrirkomulagi sem er núna um að undirmálsfiskur geti að ákveðnum hluta verið utan kvóta. En það þarf að ég hygg nokkuð lengri tíma til þess að meta þá reynslu. Þessar tillögur eru sem sagt ekki að koma heldur er nefndin að undirbúa það að taka málið til heildarskoðunar að nýju.