1997-03-04 13:38:17# 121. lþ. 83.95 fundur 229#B stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og breytingar á eignaraðild að henni# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[13:38]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. iðnrh. og spyr um málefni Íslenska járnblendifélags. Landsmönnum er kunnugt að líkur voru á stækkun verksmiðjunnar um einn ofn ef samningar næðust um það milli meiri hluta eignaraðila, annaðhvort milli Sumitomo og Íslands eða Elkem og íslenska ríkisins. Þær upplýsingar liggja fyrir að verði ekki um stækkun verksmiðjunnar að ræða þá er staða fyrirtækisins hæpin ef verðfall verður á markaði líkt og á árinu 1993.

Ríkisstjórnin stóð í samningum við Elkem um að Elkem yfirtæki meiri hluta Íslenska járnblendifélagsins hf. Elkem setti það sem skilyrði fyrir því að samþykkja að þriðji ofninn yrði byggður á Grundartanga. Í samningsdrögunum var gert ráð fyrir að hlutur Elkem í Íslenska járnblendifélaginu færi strax úr 30% í 45%. Það fé sem Elkem greiddi færi til fjárfestingar við þriðja ofninn, þ.e. um 750 millj. kr. Eftir þrjú ár átti Elkem síðan að yfirtaka meiri hluta í fyrirtækinu og fá 6% hlut frá íslenska ríkinu. Járnblendifélagið með tveimur ofnum og allri verksmiðjunni var metið á lægra verði en áætlaður byggingakostnaður fyrir ein strípaðan ofn, en verðmætamat hans er um það bil 2,7 milljarðar kr.

Það sem málið snýst um er að tryggja rekstrargrundvöll Íslenska járnblendifélagsins, fjölgun starfa í fyrirtækinu, stóraukna raforkusölu og þar með gífurlega eflingu raforkuframleiðslu. Þær upplýsingar liggja fyrir að eignarhluti íslenska ríkisins er metinn á aðeins u.þ.b. 1,5 milljarða kr. Það er líka ljóst að ríkið hefur lagt u.þ.b. 4 milljarða kr. í þetta fyrirtæki á 20 árum. Beinn kostnaður fyrir ríkið er því 2,5 milljarðar miðað við verðmætamat Salomon Brothers, hvort sem það er rétt eða rangt. Það er dýrt að eiga meiri hluta í fyrirtæki þegar staðan er slík. Það má auðvitað segja það sama um hina eignaraðilana, þ.e. Sumitomo og Elkem, nema að til íslenska ríkisins hafa komið skattar af atvinnutekjum starfsmanna og verktaka sem eru reyndar mikils virði.

Herra forseti. Mér virðist best að ríkið dragi sig almennt út úr fyrirtækjarekstri ef unnt er. Mér virðist einnig vera ljóst að best hefði verið að láta Elkem eftir að stækka verksmiðjuna á sinn kostnað í þá stærð að þeir verði að kappkosta að halda henni gangandi. En óneitanlega er núverandi staða mörgum mikil vonbrigði og ótti er um að illa geti farið á næstu árum ef ekki verður um stækkun að ræða. Því vil ég beina eftirfarandi spurningum, herra forseti, til hæstv. iðnrh. Ég vil geta þess að ég kom þessum spurningum til hæstv. iðnrh. í gær þannig að honum mætti ljóst vera um hvað væri spurt hér í dag.

1. Er það rétt sem fram hefur komið í fréttamiðlum að Íslendingar hafi slitið viðræðum þegar um 100--140 millj. kr. bar í milli þjóðanna um verðmæti fyrirtækisins?

2. Hver hefði orðið ávinningur íslenska ríkisins af stækkun fyrirtækisins um í fyrsta lagi einn ofn og í öðru lagi um tvo ofna?

3. Eru möguleikar á því að sameignaraðilar okkar vilji ganga til samninga um stækkun fyrirtækisins með enn auknum eignarhlut íslenska ríkisins?

4. Hverjir eru möguleikar okkar á að selja Norðmönnum okkar hlutafé og kemur það til greina af okkar hálfu?

5. Frestur til að gefa Landsvirkjun svar um raforkukaup til Íslenska járnblendifélagsins rennur út nk. laugardag. Er möguleiki á því að ná fram nýrri stöðu í málinu á þeim dögum sem enn eru til þeirra tímamarka?