1997-03-04 13:54:51# 121. lþ. 83.95 fundur 229#B stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og breytingar á eignaraðild að henni# (umræður utan dagskrár), Flm. GE
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[13:54]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég verð nú að lýsa því yfir að mér þykir leitt að þingmenn skuli ekki vilja taka þátt í þessari umræðu sem ég tel vera ákaflega mikilsverða. En ég vil þakka þeim sem tóku þátt í umræðunni samt sem áður og vona að hæstv. ráðherra nái að klára svörin á eftir.

Alþingi tók ákvörðun um það á sínum tíma að íslenska ríkið ætti að eiga meiri hluta í járnblendifélaginu. Það er mín krafa að fram fari pólitísk umræða um hversu mikilvægt er að atvinnufyrirtæki séu undir íslensku forræði. Samningsdrögin sem voru kynnt starfsmönnum járnblendifélagsins vöktu mikinn óróa. Starfsmenn hafa verið ánægðir að vinna fyrir íslenska ríkið og í raun og voru þeir tilbúnir að fórna miklu fyrir áframhaldandi rekstur á sínum tíma. Það er auðvitað hægt að setja sig í spor þeirra sem óttast að Elkem, sem stjórnandi, leggi áherslu á fækkun starfsfólks í Noregi og slíkt hefur valdið þar óróa.

Norðmenn hafa sótt þekkingu um rekstur á járnblendiverksmiðju til Íslands. Það segir töluvert um hæfni starfsmanna og stjórnenda.

Herra forseti. Hagnaður af rekstri Íslenska járnblendifélagsins 1997 er áætlaður 450 millj. kr. Hagnaðurinn var 610 millj. kr. á síðasta ári. Hann var 520 millj. kr. 1995. Það er upplýst að verksmiðjan á Grundartanga er með lægsta framleiðslukostnað í núverandi mynd í Evrópu. Það er ástæða til að spyrja tveggja spurninga til viðbótar: Er rétt út frá þeim upplýsingum, út frá verðmætamati Salomon Brothers sem metið var út frá management worst case, að taka einhliða ákvörðun um byggingu þriðja ofnsins? Hann kostar án fylgihluta 2,7 milljarða kr. á sama tíma og fyrirtækið með tvo ofna fyrir og allar byggingar er metið á 2 milljarða. Er ástæða til að draga verðmætamat Salomon Brothers í efa út frá því (Forseti hringir.) að matið breytist um 400 millj. ísl. kr. við hvert prósent sem afurðirnar hækka eða lækka í verði?