Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 04. mars 1997, kl. 15:33:13 (4181)

1997-03-04 15:33:13# 121. lþ. 83.6 fundur 253. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur barna) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur

[15:33]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem ég flyt ásamt hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, Bryndísi Hlöðversdóttur og Rannveigu Guðmundsdóttur.

Frv. felur í sér að einstæðum foreldrum sem hafa á framfæri sínu barn á aldrinum 16--19 ára verður heimilt að nýta 80% af óráðstöfuðum persónuafslætti barna með sama hætti og gildir um persónuafslátt hjóna eða sambýlisfólks en samkvæmt skattalögum er heimilt að nýta 80% af óráðstöfuðum persónuafslætti þess sem lægri hefur tekjurnar. Ég tel að hér sé mikið réttlætismál á ferðinni og það sé mikil ósanngirni í því fólgin þegar einstæðir foreldrar eiga hlut að máli, að geta ekki nýtt sér ónýttan persónuafslátt barna sinna.

Frá því að þetta fyrirkomulag var ákveðið í skattalögum hafa orðið miklar breytingar í þjóðfélaginu sem felast m.a. í auknum menntunarkröfum og lengri skólagöngu barna. Atvinnuleysi hefur aukist verulega, t.d. hefur það tífaldast hjá ungmennum 15--19 ára á árunum 1987--1994. Börn dveljast lengur í foreldrahúsum og þurfa lengur á framfærslu foreldra sinna að halda og þá ekki síst til að geta menntað sig en það er talið að um 80--90% ungmenna á aldrinum 16--18 ára búi í foreldrahúsum. Það er alveg ljóst að framfærslukostnaður einstæðra foreldra er mjög mikill, ekki síst þegar um er að ræða menntun barnanna. Félag einstæðra foreldra lét gera könnun á framfærslukostnaði 1991 vegna 13--15 ára barna. Niðurstaðan í þeirri könnun varð sú að árlegur framfærslukostnaður 13--15 ára barna væri um 500 þús. kr. og það sjá náttúrlega allir að einstæðir foreldrar sem eru kannski ekki með mikið meira en lágmarkslaun eiga í miklum erfiðleikum með að standa undir slíku þegar framfærslukostnaður vegna barnanna slagar langt upp í lágmarkslaunin.

Það má líka vísa til neyslukönnunar sem gerð var árið 1991. Hún sýnir mjög mikil útgjöld hjá einstæðum foreldrum. Þau voru áætluð 1.945 þús. kr. á núgildandi verðlagi. Einstæðir foreldrar með eitt barn eru áætlaðir undir fátæktarmörkum samkvæmt þeirri skilgreiningu sem menn leggja í það mál, þ.e. að þeir séu undir fátæktarmörkum sem hafa tekjur undir 66 þús. kr. eða 792 þús. kr. á ári. Það þurfa nú töluvert margir einstæðir foreldrar að lifa af þessum tekjum sem eru tæplega 800 þús. kr. á ári en neyslukönnunin sýnir að framfærslukostnaðurinn er meiri en helmingi hærri eða um 1.945 þús. kr. Til þess að standa undir þessum útgjöldum þyrftu samkvæmt könnuninni tekjur þeirra einstæðra foreldra sem eru 66 þús. kr. að hækka um 100 þús. kr. á mánuði og fara í 162 þús. til þess að eiga fyrir framfærslunni. Það er alveg ljóst að tekjur þeirra standa nú vart undir brýnustu matarinnkaupum eða lágmarkshúsnæðiskostnaði og eru þá aðrar nauðþurftir undanskildar. Það er því ljóst að það er ekkert réttlæti fólgið í því að leyfa einstæðum foreldrum ekki að fara sömu leið varðandi ónýttan persónuafslátt eins og hjón eða sambúðarfólk gerir.

Í greinargerðinni koma fram upplýsingar um mjög laka fjárhagsaðstöðu einstæðra foreldra, líka þó litið sé til ráðstöfunartekna, en samkvæmt niðurstöðu Þjóðhagsstofnunar eru meðaltekjur einstæðra foreldra þrefalt lægri en meðaltekjur hjóna.

Í úttekt Félagsvísindastofnunar sem gerð var í mars 1995 undir heitinu Skuldastaða heimilanna, kemur fram að einstæðir foreldrar skulda einna mest, mest allra eða um 4,5 millj. kr. og þeir greiða einna mest í afborganir eða um 35% tekna. Þar kemur einnig fram að einstæðir foreldrar og fólk með heimilistekjur undir 70 þús. kr. á mánuði greiða hlutfallslega hæstu mánaðargreiðslur vegna húsnæðiskaupa. Húsnæðiskannanir sýna að möguleikar einstæðra foreldra til að eignast eigið húsnæði eru miklu minni en þar sem tveir sjá um framfærsluna. Um 84% Íslendinga á aldrinum 25--75 ára búa í eigin húsnæði en um 60% einstæðra foreldra. Samkvæmt upplýsingum Félagsmálastofnunar Reykjavíkur eru einstæðir foreldrar stærstur hluti þeirra húsaleigubótaþega sem eiga börn undir 18 ára aldri eða 58%.

Einnig er ljóst og liggur fyrir að konur eru með forsjá barna sinna þegar um er að ræða skilnað í um 90% tilvika og allir þekkja meðlögin, þau rétt hrökkva fyrir leikskólaplássi þannig að hvernig sem litið er á þetta, virðulegi forseti, hvort sem litið er á tekjurnar, hvort sem það eru beinar launatekjur, ráðstöfunartekjur, félagslegar aðstæður, húsnæðisaðstæður eða menntunarmöguleikar barna einstæðra foreldra, öll þessi rök segja okkur að frv. sem hér er mælt fyrir um að einstæðir foreldrar geti nýtt ónýttan persónuafslátt barna sinna, á fyllilega rétt á sér og mundi gjörbreyta, virðulegi forseti, aðstöðu einstæðra foreldra og afkomumöguleikum þeirra. Þetta hefur verið mikið baráttumál Félags einstæðra foreldra. Ef ég man rétt var forsrh., eða ég man nú ekki hvaða ráðherra það var, fyrir einu eða tveimur árum afhent fjöldinn allur af undirskriftum frá Félagi einstæðra foreldra sem settu þetta baráttumál mjög á oddinn. En það hefur ekkert heyrst að ríkisstjórnin sé neitt að vinna að framgangi þessa mikla réttlætismáls. Því er gerð tilraun til þess, virðulegi forseti, í þriðja eða fjórða sinn að hreyfa þessu máli á hv. Alþingi.

Samkvæmt upplýsingum úr álagningargögnum fyrir árið 1996 vegna tekna á árinu 1995 er ónýttur skattafsláttur þeirra sem fæddir eru á árunum 1976--1979 að báðum árum meðtöldum um 2,3 milljarðar kr. og þeir eru 13.994 talsins. Aðeins um 30% barna 16--19 ára hafa verið á vinnumarkaði undanfarið ár og þess vegna er hann mjög hár þessi ónýtti persónuafsláttur.

Ég ítreka, virðulegi forseti, mikilvægi þessa máls og vona að það fari ekki fyrir því eins og mörgum öðrum frv. frá þingmönnum að þau fái litla eða enga efnislega umfjöllun í þingnefndum sem er orðið mjög alvarlegt. Mér finnst, virðulegi forseti, að hæstv. forsn. ætti sérstaklega að fara ofan í þau mál vegna þess að það er algjörlega undir hælinn lagt hvort þau fái efnislega umfjöllun og ef hún er þá er hún mjög lítil. Frv. þingmanna eru sjaldnast afgreidd inn í þingið þannig að þingheimur fær ekki einu sinni að taka afstöðu til þessara mála. Þeim sem stýra nefndunum þykir það bara mjög gott ef málin eru send til umsagnar og síðan er ekkert gert með málin frekar. Þetta er algengt varðandi þingmannamál. Það er mjög erfitt við þetta að búa. Þó að ég viti að stjórnarandstaðan hafi ekki sama rétt varðandi afgreiðslu á málum eða getu eða afl til að koma þeim fram eins og meiri hlutinn þá er það lágmark, virðulegi forseti, að stjórnarandstöðunni sé sýnd sú kurteisi að málin verði tekin til efnislegrar umfjöllunar í nefndum og afgreidd inn í þingið og þá til lýðræðislegrar atkvæðagreiðslu. Það er orðið stórt vandamál hér í þinginu hvernig með þessi mál er farið. Við vorum áðan að ræða frv. um starfsemi stjórnmálaflokkanna sem búið er að flytja þrisvar. Og af því að þar er einhver vinna í gangi í forsrn., en er nú upplýst að viðkomandi nefnd hefur ekki komið saman í hálft ár, þá neitar meiri hluti nefndarinnar að taka málið til efnislegrar umfjöllunar. Ég beini því til virðulegs forseta að hv. forsn. skoði þessi mál af alvöru.

Ég vil freista þess, virðulegi forseti, þó ég viti ekki hve mikinn tilgang það hefur, að vísa málinu til 2. umr. og til umfjöllunar í hv. allshn.