Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 13:28:08 (4244)

1997-03-11 13:28:08# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[13:28]

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að opna þessa umræðu og hæstv. forsrh. fyrir svör hans sem ég heyrði þó ekki fyllilega. Ég tel þó nauðsynlegt með tilliti til umfangs þessa máls og alvöru þess að ekki verði látið við þessa umræðu sitja heldur verði tekin saman skýrsla um málið og unnið að úrbótum á grundvelli hennar.

Margar spurningar hafa vaknað við atburði síðustu daga en hugurinn er vitanlega fyrst og fremst hjá þeim sem eiga um sárt að binda vegna missis ástvina, svo og hjá þeim sem hafa lagt líf sitt í hættu við björgunarstörf. Ég mun hins vegar í máli mínu eingöngu fjalla um þann þátt sem snýr að umhverfismálum. Þar er augljóslega pottur brotinn og þörf úrbóta.

Ég átti þess kost í gær að skoða aðstæður á vettvangi og það var vægast sagt ömurleg reynsla fyrir skilningarvitin. Ömurlegast er þó að ýmislegt hefði getað farið öðruvísi og betur ef rétt hefði verið brugðist við aðstæðum. Það er gjörsamlega óviðunandi ástand að viðbrögð og aðgerðir dragist von úr viti vegna skorts á heimildum til aðgerða og reglum um greiðslu kostnaðar eins og raunin hefur verið í sambandi við strand Víkartinds.

Ég minni á að fyrir tæpum sex árum varð vart við mikla mengun á Ströndum sem kom mönnum í opna skjöldu og leiddi í ljós hversu vanbúin stjórnvöld eru til að taka á slíkum málum. Og í framhaldi af því var skipuð sú nefnd sem hv. síðasti ræðumaður minnti á. Þessi nefnd átti að taka á þessum málum. Hún átti að meta mengunarhættu, skipuleggja rannsóknir, leiðbeina um viðbrögð og samræma aðgerðir einstakra stofnana og gera tillögur til ráðherra um úrbætur. Og þessi viðbrögð þáv. ráðherra voru í sjálfu sér hárrétt en hafa augljóslega ekki skilað tilætluðum árangri.

[13:30]

Fyrir rúmum tveimur árum varð annað mengunarslys þegar flutningaskip með svartolíufarm innanborðs steytti á skeri út af Seltjarnarnesi. Aðeins örlítið brot af olíunni fór þá í sjóinn en nógu mikið til að valda umtalsverðri mengun og fyrirhöfn við hreinsun. Aftur voru menn þar með minntir á nauðsyn þess að samhæfa viðbrögð og hafa áætlanir að styðjast við. Þetta eru ekki einu dæmin á undanförnum árum og þetta verða ekki einu dæmin um mengunarslys við strendur landsins, því miður. Þau eru óhjákvæmilegt þótt allt þurfi auðvitað að gera til að koma í veg fyrir þau. En hvað hefur verið gert? Hvers vegna allt þetta ráðleysi í sambandi við strand Víkartinds? Hvernig ætla menn að bregðast við ef mörg þúsund lesta olíuflutningaskipi hlekkist á svo að um meiri háttar olíumengun verður að ræða? Það yrði stóráfall og er geysilega mikilvægt að vita nákvæmlega hvernig bregðast skuli við.

Nú er það svo að lögum samkvæmt eiga sveitarfélög að hafa tiltæka áætlun um viðbrögð en svo virðist sem mikil brotalöm sé á þeim þætti. Það verður að kanna og sjá til að lögum verði framfylgt að þessu leyti. Ríkisvaldið verður að hafa frumkvæði að því. Það verður augljóslega að gera stórátak í þessu efni. Það þarf að vera fullkomlega ljóst hverjum ber að hafa stjórnun aðgerða á hendi, hverjir eigi að framkvæma aðgerðir og hverjir beri fjárhagslega ábyrgð. Það gengur einfaldlega ekki að nauðsynlegar aðgerðir tefjist vegna óvissu um þessa þætti. Sofandaháttur stjórnvalda í þessum málum er í raun stærsti umhverfisvandinn og þau geta ekki skákað í því skjólinu að hafa ekki verið minnt á nauðsyn þess að taka á málum. Þau hafa ítrekað verið minnt á ábyrgð sína og strand Víkartinds og afleiðingar þess verða að vera sá lærdómur sem dugir til að móta raunhæfa áætlun um viðbrögð.