Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 13:37:25 (4246)

1997-03-11 13:37:25# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[13:37]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir hv. alþingismenn votta aðstandendum þeirra sem látist hafa í sjóslysum samúð mína eins og þingheimur gerir raunar allur. Ég vil og þakka þeim sem stóðu að hinum erfiðu björgunaraðgerðum sem sýndu eins og oft áður að vilji manna og hreysti til að standa í slíkum aðgerðum er með ólíkindum hjá okkur Íslendingum, þeim sem að slíku koma, er nú kannski rétt fyrir mig að bæta við.

Vegna þeirra umræðna sem hér fara fram vil ég aðeins taka fram að Siglingamálastofnun hlýtur auðvitað og sömuleiðis samgrn. að taka til nýrrar athugunar öryggi sjófarenda og skipa sem sigla með ströndum landsins. Og vegna fyrirspurnar Margrétar Frímannsdóttur um hugsanlegar breytingar á siglingarlögum til að auka völd Landhelgisgæslunnar til að grípa inn í þegar hættuástand skapast þá skal ég ekki útiloka að um sérstök hættutilvik geti verið að ræða þar sem rétt sé að gera ráð fyrir slíku, en ég hygg að það verði að taka það til athugunar með hliðsjón af alþjóðlegum skuldbindingum og með öðrum þeim hætti sem rétt er að koma að svo flóknum málum. Ég vil ekki á þessari stundu fara nánar út í þá sálma. Ég vil á hinn bóginn leggja áherslu á að ég hef ákveðið að kveðja til sérfræðinga og hagsmunaaðila til að draga lærdóm af þeim atburðum sem hér hafa orðið og leggja fram tillögur um öryggi flutningaskipa við strendur landsins bæði með hliðsjón af öryggi sjófarenda og auðvitað vegna hættu á umhverfisslysum.