Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 13:46:52 (4249)

1997-03-11 13:46:52# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[13:46]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Um leið og þjóðin gleðst yfir afrekum Landhelgisgæslunnar þá lýsir hún hryggð og samúð með þeim sem hafa misst ástvini sína.

Ég flutti þáltill. um slysabætur til handa sjómönnum sem var samþykkt 1994. Sú þáltill. var um að samgrh. skipaði nefnd um endurskoðun slysabóta sjómanna en fébætur til barnlausrar ekkju sjómanns er nú um 1.300 þús. kr. og þarf vissulega endurskoðunar við og vona ég að eitthvað verði gert í þessu máli nú, þ.e. að nefndin fari að skila af sér.

Herra forseti. Ég tek undir það sem kom fram áðan að þetta er nokkuð merkileg umræða vegna þess að að sjóprófum loknum hefur hið sanna og rétta komið í ljós og þá er kannski ástæða fyrir þingheim að taka þetta mál til umræðu. Ég vil, virðulegi forseti, úr þessum stól taka fram og óska eftir því að mér verði veitt heimild til að hafa hér utandagskrárumræðu um öryggismál sjómanna að loknu sjóprófi vegna Dísarfells.

Menn hafa verið að tala um það og verið í nokkrum vafa um hversu langt ætti að ganga varðandi ábyrgð skipstjóra. En ef grannt er skoðað í siglingalögunum núna, þá er ábyrgð skipstjóra ekki mikil eða réttara sagt útgerðar og farmflytjanda ef skipstjóri hefur ekki haldið á stjórn skips eins og góðum skipstjóra sæmir. Í 16. gr. siglingalaga frá 1985 segir m.a., með leyfi forseta:

,,Tjón það, sem skipstjóri veldur útgerðarmanni, farmeigendum eða öðrum með yfirsjónum eða vanrækslu við störf sín er honum skylt að bæta. Dómstólar geta þá lækkað bótafjárhæð með tilliti til þess hve mikil sökin var og tjónið til efnahags skipstjóra og annarra atvika.``

Í 68. gr. segir: ,,Farmflytjandi er ekki ábyrgur þegar hann getur sýnt fram á að tjónið stafi af yfirsjónum eða vanrækslu við stjórntök eða meðferð skips sem skipstjóra hefur orðið á.``

Ég held, herra forseti, að í ljósi þessa sé mjög mikil og brýn nauðsyn á að endurskoða siglingalögin með tilliti til þess að ábyrgð skipstjóra er eins og hér er getið.