Strand flutningaskipsins Víkartinds

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 14:05:57 (4257)

1997-03-11 14:05:57# 121. lþ. 87.95 fundur 234#B strand flutningaskipsins Víkartinds# (umræður utan dagskrár), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[14:05]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Menn hafa aðallega lýst yfir áhyggjum sínum af því sem snýr að foki á ströndinni og því rusli sem er vissulega að berast um svæðið núna og að ekki skuli hafa verið brugðist við fyrr og kannski strax í upphafi. Ég skal ekki leggja dóm á að ekki hefði mátt standa eitthvað öðruvísi að því máli, en ég hygg að ástæðan fyrir því hafi þó fyrst og fremst verið sú að þeir sem þarna hafa einkum stjórnað aðgerðum og framvindu mála hafi reynt að leita allra leiða til þess að verjast stærri óhöppum og áföllum eins og ég gat um hér áðan, þ.e. olíumengun og mengun frá hættulegri efnum en þeim sem þarna fjúka aftur og fram. Þó að það sé vissulega alvarleg sjónmengun sem af því verður og rusl sem getur verið lengi að þvælast fyrir því það grefst í sand og kemur síðan upp aftur og veldur í það minnsta angri og óþrifum veldur það þó kannski ekki slysum eða alvarlegri hættu eins og olían getur gert og önnur hættulegri efni.

Auðvitað má segja að það hefði þurft að gerast fyrr en í gær var haldinn fundur með þeim aðilum sem þarna eiga hlut að máli um hin hættulegri efni. Í dag er verið að fjalla um þetta rusl sem nú berst um ströndina og hvernig að hreinsun verði staðið og ég geri ráð fyrir að á því finnist ásættanleg niðurstaða hvernig þar verði staðið að málum og kostnaðargreiðslu við þá hreinsun.

Svo aðeins, hæstv. forseti, út af þessum atriðum með nefndina sem hér hefur verið vitnað til og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir las upp úr svari hæstv. fyrrv. umhvrh. Það er ljóst að nefndinni er fyrst og fremst ætlað að fjalla um mengunaróhöpp, þ.e. það sem við mundum telja stærri slys eins og með olíuna og slíka hluti en á að koma saman, eins og hér kom rétt fram í tilvitnun hv. þm. í svar hæstv. fyrrv. ráðherra, þegar hætta er á slíkri mengun. Ég vil láta það koma fram að það hefur verið samráð á milli nefndarmanna. Davíð Egilsson, sem er forustumaður mengunarvarna sjávar hjá Hollustuvernd ríkisins, hefur átt viðræður við formann þessarar margumræddu nefndar um hvernig hún kom að málinu. Þar sem talið var að málin væru undir handleiðslu og eðlilegri stjórn Hollustuverndarinnar var ekki talin ástæða að nefndin yrði kölluð saman af hálfu formannsins og deildarstjóra mengunarvarnar sjávar hjá Hollustuverndinni, en hún mun að sjálfsögðu fylgjast með málinu og veita upplýsingar um það hvernig við verður brugðist eftir því sem framvindan verður eins og gert er ráð fyrir í hennar skipunarbréfi.