Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 19:05:19 (4315)

1997-03-11 19:05:19# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[19:05]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég undra mig á því að jafnfrjálslyndur þingmaður og síðasti ræðumaður komi ekki hér upp og lýsi yfir fögnuði sínum yfir því að nú skuli þó loksins vera búið að flytja þetta frv. sem hreyfir þessar steinrunnu stofnanir. Þó að kannski sé það lítið sem á að fara í fyrsta áfanga, hvernig stendur þá á því að hann fagnar ekki tilkomu þessa frv.? Ég reyndi að hlusta á hann eins vel og ég gat og ég gat ekki annað merkt á allri hans ræðu en hann væri svona hálffúll og ergilegur yfir þessu öllu saman án þess þó að gera annað en slá úr og í um hvað ætti að gera.

Það sem hneykslar mig, herra forseti, er að hv. þm. heldur því fram hér í ræðu sinni að sparisjóðir landsins sem skipta tugum séu með hlægilegar tryggingar. Menn geta ekki komið hér og talað af slíku ábyrgðarleysi. Tryggingarsjóðir sparisjóðanna eru mjög traustir. Hann getur kynnt sér þetta hjá bankaeftirliti Seðlabankans. Það er enginn einasti sparisjóður sem er ekki mjög vel tryggður. Þetta er sameiginleg ábyrgð og þeir hafa mjög sterkan sjóð og standa mjög vel í samkeppninni. Þó að sparisjóður á Norðurlöndum sé sannarlega heldur ódýrari í rekstri heldur en sparisjóður á Íslandi, þá eru þó íslensku sparisjóðirnir skástir peningastofnana íslenskra, þeir eru skástir, þeir eru ekki góðir, það er engin ástæða til að verðlauna þá. En þeir eru þó skástir. Og stofnanir starfa um land allt tugum saman og hafa verið atvinnulífinu og fólkinu í landinu ákaflega mikilvægar áratugum saman alla þessa öld og svo kemur hér hv. þm. og talar um sparisjóðina eins og hlægileg fyrirbrigði, fyrirbrigði þar sem menn geta ekki treyst viðskiptunum. Þetta er ámælisvert, herra forseti.