Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 19:07:24 (4316)

1997-03-11 19:07:24# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[19:07]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kann því ákaflega illa að út úr orðum mínum sé snúið. Ég sagði aldrei að sparisjóðir á Íslandi væru hlægileg fyrirbrigði. Ég sagði heldur aldrei að tryggingamál þar væru hlægileg. Ég sagði hins vegar að það væri hlægilegt það framlag sem ábyrgðarmenn í undarlegu ábyrgðarmannakerfi sparisjóðanna legðu þar undir. Það voru mín orð og á þau skal hv. þm. hlusta og ég stend auðvitað við þau.

Vitaskuld veit ég eins og hv. þm. að sparisjóðir víða um land hafa gegnt mikilvægu hlutverki í þjónustu við einstaklinga og jafnvel atvinnufyrirtæki. Auðvitað þarf ekki að segja mér neitt um það. En ábyrgðarmannakerfið, sem þó hefur verið endurbætt á síðari árum, er auðvitað fullkomlega hlægilegt. Það veit hv. þm. Ég kann nú ekki þá sögu hvort hann sé hluti af því en ég þekki það í mörgum bæjarfélögum hvernig það hefur gengið í erfðir og í minni heimabyggð var það lengi vel þannig að af 35 eða 36 ábyrgðarmönnum þar á bæ voru þeir einhverra hluta vegna nærri því allir í sama flokki og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, hver einn og einasti. Ég sat í stjórn þess sjóðs um nokkurra ára bil sem sveitarstjórnarmaður, sem fulltrúi bæjarfélagsins, þannig að hann þarf ekki að segja mér neitt um það.

Að ég eigi sérstaklega að fagna þeim frumvörpum sem hér eru fram komin. Það get ég auðvitað ekki gert því að þau eru mikil að umbúnaði en lítil að innihaldi. Og ég spyr hv. þm.: Er honum séstakur fögnuður í brjósti yfir því að fjölga ríkisbönkum á Íslandi? Er hann sérstakur ákafur talsmaður þess og stuðningsmaður þess að stofna nýjan banka, enn einn banka til viðbótar við það sem til staðar er? Er hann sérstakur og ákafur talsmaður þess og mun hann koma hér á fimmtudaginn og mæla því alveg sérstaklega bót?

Ég spyr líka af því að hann þekkir dálítið til þar á bæ: Hefur hann engar áhyggjur af því hvaða menn það eru sem ætla að koma með peningana og kaupa þessi 35% inn og út um gluggann? Hann þekkir þá.