Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Þriðjudaginn 11. mars 1997, kl. 19:11:51 (4318)

1997-03-11 19:11:51# 121. lþ. 87.5 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur

[19:11]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað hefur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson verulegar áhyggjur af því hverjir koma til með að kaupa þessa banka. Hann talar hér auðvitað þvert um hug sér. Ég þykist nú vita að réttsýnn og frjálslyndur maður eins og hann vilji auðvitað ekki sjá neina fákeppni og einokun á íslenskum fjármagnsmarkaði, hann vill ekkert sjá það. Ég hef stundum sagt hér áður í svipuðum orðræðum við hann að það er kannski versta form rekstrar þegar peningamenn hafa einokun eða of mikil völd á þröngum markaði. Það er jafnvel verra heldur en að stjórnmálamenn séu að sýsla með þá hluti.

Ég rakti hér dæmið um það hvernig menn áttu til að mynda ekki að standa að því að einkavæða hluti, þó að flokksbróðir minn hafi þar átt í hlut, þegar menn fóru í breytingar á Bifreiðaskoðun ríkisins og létu einkaaðilana annast eina um þann markað og gátu ráðið þar verðlagspólitík eins og þeir vildu. Það er auðvitað lítið dæmi í þessu stóra sem hér um ræðir. En til þess að svara spurningum hans um hvert mitt viðhorf er í þessum málum. Ég vil samkeppnisvæða í raun og sanni. Það er lykilorðið því að fyrr sjáum við ekki lækkaðan kostnað fyrir viðskiptamenn þessara banka og raunverulega einhvers konar skilvirka endurskoðun á innviðum þeirra.

En þetta frv., virðulegi þm., segir mér bara nákvæmlega ekkert um það. Engar slíkar tryggingar er að finna að sú lína sem hér er lögð tryggi það eða treysti á nokkurn hátt að vextir lækki, að rekstrarkostnaður lækki, töpin minnki o.s.frv. Jafnvel tryggir það ekki og segir mér ekkert um það hvort bankastjóralaunin hækki ekki, af því að menn hafa haft svo miklar áhyggjur af þeim. Það getur alveg eins farið svo að þau hækki. Þannig að þetta frv., því verr og miður, svarar mér ekki þeim lykilspurningum og þess vegna er ég eilítið tvístígandi og lái mér hver sem vill.