Vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 16:01:09 (4371)

1997-03-12 16:01:09# 121. lþ. 89.95 fundur 240#B vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), StB
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[16:01]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu mál sem hefur nokkuð verið til meðferðar að undanförnu og fer ekki hjá því að við þingmenn höfum orðið varir við miklar áhyggjur víða á landsbyggðinni, bæði sveitarstjórnarmanna og þeirra sem hafa með rekstur sjúkrastofnana á landsbyggðinni að gera og einnig hjá almenningi. Ég vil af þessu tilefni vekja athygli á því sem stundum hefur verið rætt og þrástagast á, að búið væri að samþykkja niðurskurð upp á 160 millj. kr. eða þá að búið væri að afgreiða og samþykkja niðurskurð upp á 60 millj. kr. Hvort tveggja er rangt. Það voru tillögur í fjárlagafrv. fyrir þetta ár um að skera niður á landsbyggðarsjúkrahúsunum um 160 millj. kr. en það verður að segjast eins og er að það náðist ekki niðurstaða í þá vinnu vegna þess að þetta er miklu erfiðara og vandasamara viðfangsefni en menn höfðu e.t.v gert sér í hugarlund til að byrja með. Þess vegna var farin sú leið sem ég mælti með, að setja þessa lækkunarhugmynd upp á 60 millj. kr. inn á hagræðingarlið þannig að heilbrrn. gæfist lengri tími til þess að vinna að þessum sparnaði. Auðvitað þurfum við að reyna að ná hagræðingu og sparnaði hvarvetna, alls staðar. Hins vegar er ekki sama hvernig að þessu er staðið og það þarf að vinna að því í samráði og í samstarfi við heimamenn. Ég hef lagt á það áherslu en því miður hafa þessar tillögur vakið upp mikla ólgu og ég tel að það sé höfuðnauðsyn að eiga samráð við heimamenn, fá tillögur frá þeim. En jafnframt liggur alveg ljóst fyrir að sem betur fer eru sjúkrastofnanir úti á landi sem hafa tekið til í sínum ranni, gert tillögur, gengið fram í sparnaði og hafa nú þegar náð þeim árangri sem ætlast var til í sparnaði. Því er ekki raunhæft að gera frekari kröfur um sparnað.