Vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 16:07:47 (4374)

1997-03-12 16:07:47# 121. lþ. 89.95 fundur 240#B vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[16:07]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það er ljóst að þetta mál er allt eitt hreinasta klúður. Kannski er skýringin sú sem fram kom í máli hv. þm. Sturlu Böðvarssonar, varaformanns fjárln., að hæstv. ráðherra hefur misskilið þetta allt því engin ákvörðun var í raun tekin eftir því sem ég skildi best um þennan 60 millj. kr. niðurskurð. Málið er því bara allt saman hreinn og klár misskilningur. (Gripið fram í.) Þess vegar er kannski ráð fyrir hæstv. ráðherra að stokka spilin upp á nýtt og byrja á nýjan leik því málið er komið í hreint óefni.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar og get tekið undir með hæstv. ráðherra að það er mikilvægt að fara yfir hlutverk landsbyggðarsjúkrahúsa og heilbrigðisþjónustustofnana vítt og breitt um landið. Það á hins vegar ekki að gera undir þeim formerkjum að hræða menn til samstarfs. Það gengur ekki. Reynslan sýnir okkur það og við eigum að læra af henni. Það er hins vegar athyglivert í þessu sambandi að öll grunnvinna er mjög broguð og illa unnin.

Ég spurðist eftir því hér í þinginu fyrir 17 virkum dögum síðan hver væri hlutdeild þessara sjúkrastofnana vítt og breitt um landið í atvinnulífi viðkomandi byggðarlaga. Það svar hefur mér ekki borist enn þá og mér skilst að það gangi hægt og bítandi að fá þær upplýsingar frá sjúkrastofnunum um landið. Ef menn horfa nú á hlutina eins og þeir eru þá er hér ekki eingöngu um heilbrigðismál að ræða heldur og ekki síður atvinnulegt spursmál. Og það að menn viti ekki, þegar af stað er farið við vinnu af þessum toga hversu miklu eða litlu hlutverki sjúkrastofnanir gegna í atvinnulífi í hinum dreifðari byggðum landsins er algjörlega fráleitt. Ég held að það væri hyggilegt að menn a.m.k. vissu það áður en af stað væri farið, þó ég segi nú ekki meira um aðra nauðsynlega grunnvinnu. Þannig er málið allt hreint og klárt klúður. Auðvitað er best að hætta leik þá hæst stendur og byrja á nýjan leik og gera þetta eins og menn.