Vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. mars 1997, kl. 16:14:36 (4377)

1997-03-12 16:14:36# 121. lþ. 89.95 fundur 240#B vinnubrögð við niðurskurð í rekstri sjúkrahúsa á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur

[16:14]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Í þessu stóra máli má segja að byrjað sé á öfugum enda. Það var tilkynnt með framlagningu fjárlagafrv. í haust að spara ætti 160 millj. kr. Þetta hleypti auðvitað illu blóði og tortryggni í þetta mál allt saman þó síðan væri undið ofan af því með eftirrekstri stjórnarandstöðu og atfylgi stjórnarliða sem þekkja til málsins eins og hv. formaður fjárln. og varaformaður fjárln. hafa vitnað um.

Ég tel að það sé geysilega mikilvægt að menn vandi sig við þetta. Það gengur ekki að setja sér markmið af þessum toga án þess að menn hafi áttað sig á því hvað er mögulegt í þessu máli. Hér tekur einn eftir öðrum, það má ekki skerða þjónustustig, það stendur ekki til. En það er alveg ljóst hvað lá í hugmyndunum um allt að 160 millj. kr. sparnað. Það hafa lengi verið allt of veik tök á skipulagi heilbrigðismála í landinu. Það var samþykkt þáltill. árið 1990 um að reyna að styrkja svæðisbundin tök með því að setja upp skrifstofur heilbrigðismála í kjördæmum landsins. Það hefur því miður ekkert verið gert með þessa samþykkt. Við stæðum í öðrum sporum ef það hefði verið gert og reynt hefði verið að laða saman samstarf þar sem það er hægt á annað borð með tilliti til landfræðilegra aðstæðna. Ég treysti því, virðulegur forseti, að staðið verði við það sem stjórnarliðar segja, að ekki verði um skert þjónustustig að ræða. Það er ekki hægt að spara með því að vísa sjúklingum frá. Það er enginn þjóðhagslegur sparnaður í því að færa til þjónustuna. Ef hægt er að sinna henni á heimasvæði þá á að sjálfsögðu að gera það.