Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 17:24:53 (4439)

1997-03-13 17:24:53# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[17:24]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þau tvö frumvörp sem við erum hér að fjalla um ber vitaskuld að skoða saman en einnig það frv. sem við vorum að ræða áðan, þ.e. breytingu ríkisviðskiptabankanna í hlutafélög og ákvæði því tengdu. Fjórða frv. verður rætt hér á eftir sem er stofnun sérstaks Lánasjóðs landbúnaðarins.

Varðandi þessi tvö frumvörp ber að hafa í huga að það er löngu tímabært að stokka upp hið staðnaða fjárfestingarlánasjóðakerfi atvinnulífsins, þ.e. þessa þrjá sjóði, Iðnþróunarsjóð, Iðnlánasjóð og Fiskveiðisjóð, þessa atvinnutengdu sjóði, svo og reyndar Stofnlánadeild landbúnaðarins. Ágreiningurinn um þetta efni hefur einkum verið tvíþættur. Annars vegar hafa menn deilt nokkuð lengi um eignarhald í sjóðunum og þá fyrst og fremst vegna greiðslu frá atvinnuvegunum inn í sjóðina án þess að það lægi skýrt fyrir hvort og í hvaða mæli menn eignuðust hlut í viðkomandi sjóðum. Þetta hefur tafið fyrir uppstokkun í sjóðakerfinu um nokkurn tíma. Hitt atriðið er hvað á að gera með þessa sjóði, hvernig uppstokkun ætti að eiga sér stað ef menn eru sammála um það meginatriði að sératvinnutengdir fjárfestingarlánasjóðir séu arfur frá fortíðinni. Ég er þeirrar skoðunar að slík aðgreining atvinnuvega eins og verið hefur í íslenska stofnlánakerfinu eða fjárfestingarlánakerfinu hafi verið gagnslítil og beinlínis til tjóns hin síðustu ár.

Hins vegar er sú aðferðafræði sem lagt er upp með í þessum frumvörpum um hvernig uppstokkunin eigi að ganga fyrir sig kolröng. Í stað þess að taka þessa sjóði, eins og gert er ráð fyrir í þessum frumvörpum sem hæstv. ráðherra talaði fyrir, og búa til einn fjárfestingarbanka, einn ríkisbankann í viðbót, hefði átt að fara aðra leið. Það hefði átt að taka þessa þrjá sjóði og færa þá inn í ríkisviðskiptabankakerfið. Það hefði verið skynsamleg leið varðandi þá uppstokkun sem er nauðsynleg á þessu sviði.

Það eru nokkur rök fyrir þessu. Þau eru m.a. að íslenskir bankar, ríkisviðskiptabankar, eru fjárhagslega mjög veikir eins og við ræddum í sambandi við fyrra þingmálið. Fram kom að eigið fé bæði Landsbanka og Búnaðarbanka er ekki nema 10 milljarðar, þannig að ekki hefði veitt af styrkingu upp á þessa um það bil 7--8 milljarða sem hefðu getað komið inn í bankakerfið, þessa tvo ríkisviðskiptabanka, með því að fara ekki þá leið að setja á stofn nýjan ríkisbanka.

Það eru hins vegar önnur rök fyrir þessu. Það hefur nefnilega átt sér stað mjög ör þróun á þessu sviði undanfarin ár vegna þess að menn hafa oft rætt --- nú spyr ég herra forseti, ég geri ráð fyrir að hæstv. viðskrh. sé einhvers staðar mjög nálægt. Við gerðum um það samkomulag að ræða þessi mál saman og á einföldum umræðutíma og þá er mjög bagalegt ef ráðherra er ...

(Forseti (GÁ): Ég geri ráðstafanir. Ég býst við að ráðherra sé alveg á næstu grösum og tek undir með þingmanninum.)

Það hafa nefnilega átt sér stað mjög verulegar breytingar í umhverfi fjárfestingarlánasjóða á undanförnum árum. Það sem var e.t.v. góð og gild skoðun hér fyrir nokkrum árum að það bæri að steypa þessum sjóðum saman í einn sjóð á ekki lengur við og það er meira að segja rökstutt í frv. hæstv. ríkisstjórnar. Þar er vitnað í álitsgerð J.P. Morgan sem er sérfræðingar á þessu sviði. Þar segir, með leyfi forseta:

,,... að viðskiptabankar í Evrópu bjóði svipaða þjónustu og fjárfestingarlánasjóðirnir þrír, en sú þróun sé þó ný af nálinni á Norðurlöndunum. Fjárfestingarlánasjóðir, sem reistir voru á svipuðum forsendum og hérlendir sjóðir, hafi þróast í mismunandi áttir og brugðist með mismunandi hætti við breytingum á starfsumhverfi sínu.``

Hér, ásamt öðrum heimildum sem ég get vitnað til, er hægt að færa full rök fyrir því að þróunin í Evrópu hefur orðið sú að fjárfestingarlán hafa miklu frekar farið í gegnum hefðbundið viðskiptabankaumhverfi en í sérstökum fjárfestingarbönkum eða fjárfestingarsjóðum. Í þessari greinargerð eru tvær röksemdir færðar fyrir því að fara þessa leið þrátt fyrir það að þetta sé gegn þróuninni. Og þá skulum við líta á þessar röksemdir. Það er sagt:

[17:30]

,,Annars vegar eru möguleikar sjóðanna til að viðhalda og þróa áfram náin tengsl sín við atvinnulífið sem leiði til bættrar þjónustu á þessu sviði.``

Það er einmitt þetta sem er og á að vera í viðskiptabankaumhverfinu. Þessi nánu tengsl við atvinnulífið eru fyrir hendi og þau hefðu fullkomlega verið fyrir hendi ef þessir sjóðir hefðu verið felldir inn í ríkisbankaumhverfið. Þessi röksemd fellur því um sjálfa sig vegna þess að hún kæmi raunverulega miklu meira að gagni með því að fjárfestingarlánasjóðirnir væru hluti af viðskiptabankaumhverfinu.

Hin röksemdin sem er færð fram vegna þessarar útfærslu er svo, með leyfi forseta:

,,Hins vegar geta fjárfestingarlánasjóðirnir áfram veitt langtímalán á mjög hagstæðum kjörum vegna góðrar stöðu á lánamarkaði og lágs rekstrarkostnaðar.``

Þessi röksemd á enn frekar við ef við hefðum fært fjárfestingarlánasjóðina inn í bankana einfaldlega vegna þess að við hefðum styrkt bankana. Þeir hefðu getað náð hagstæðum kjörum í útlöndum. Það er hægðarleikur. Það fer eftir efnahagslegri stöðu þeirra. Það er hvort sem er ekki ríkisábyrgð fyrirhuguð á neinum af þessum bönkum og vitaskuld, og það þarf ekki að hafa um það mörg orð, hefði hagræðing sú sem hefði skapast í íslenska bankakerfinu við það að taka þessa sjóði og fella þá inn í ríkisbankana og styrkja þar með bankana, verið alveg ótvíræð því að það er ein af röksemdunum hér með því að fella saman þessa þrjá sjóði að menn séu að spara eitthvað í rekstri, en það er lítilvægt hjá því sem menn hefðu sparað ef þeir hefðu tekið þessa þrjá sjóði og fellt þá inn í viðskiptabankakerfið.

Það sem menn verða að átta sig á er að umhverfið er að breytast. Samkeppnin kemur meira að utan, bankaviðskipti hafa breyst, stór fyrirtæki hér hafa reynt að leita meira í bankaviðskipti við erlenda banka, hlutabréfamarkaðurinn hefur tekið hér á síðustu árum við mikilvægu hlutverki sem bankastofnanirnar voru með áður og einnig má benda á að bankaheimurinn er að breytast í þeirri mynd að tryggingafélög eru að fara miklu meira inn á hefðbundinn viðskiptabankamarkað heldur en var hér áður. Allt þetta kallar á að það á ekki að hugsa út frá aðferðafræði fortíðarinnar og það er, herra forseti, það sem gert er í þessu frv. Ég veit að það er góður vilji á bak við þetta og þetta er í sjálfu sér engin ný hugmynd sem hér kemur fram en hugmyndafræðin er því miður gamladags. Þessi útfærsla hefði gengið fyrir svona fimm til sex árum. Þá hefðu menn sagt: ,,Ja, þetta gæti nú verið skynsamlegt skref í uppstokkun``, og ég hefði sennilega fallist á það þá af því að það er alla vega nokkuð til bóta að stokka upp þetta kerfi. En þessi útfærsla er einfaldlega orðin gamaldags vegna þess að þetta verkefni í fjárfestingarlánum á núna miklu betur heima í viðskiptabönkum sem hafa til þess faglega þekkingu og styrkleika að veita lán á þeim mælikvarða sem þarf til, því að vitaskuld er styrkleiki þessa nýja fjárfestingarbanka ekkert meiri en styrkleiki viðskiptabankanna. En eigið fé fjárfestingarbankans er mikið og það hefði komið sér mjög vel fyrir ríkisviðskiptabankana og gert þá mun öflugri ef það hefði komið þar inn og þeir þá starfað eins og alvöruviðskiptabankar með fjárfestingarlánasjóð eins og reyndar viðskiptabankarnir eru með. Því miður er Stofnlánadeildin tekin út úr þessari hugmyndafræði. Það verður rætt hér á eftir og er mál sem er verst fyrir landbúnaðinn. Ég harma það að menn skuli eina ferðina enn taka landbúnaðinn sem á það ekki skilið og búa til sérstaka umgjörð um hann. Ég er þess fullviss að landbúnaðurinn hefði ekki bara þolað það mjög vel að vera þátttakandi með öðrum atvinnuvegum í fjárfestingarlánasjóði eða í viðskiptabankaumhverfi. En þessi hugsun að slá skjaldborg til verndar landbúnaðinum hefur orðið honum til meira tjóns en margt margt annað.

Eins og kemur fram hér í frv. er lýsingin á verkefnum bankans í engu frábrugðin venjulegu hlutverki viðskiptabankanna eins og menn skilja hlutverk þeirra nú til dags. Hagræðingin hefði verið augljós og það hefði styrkt þá til átaka burt séð frá því hvað menn hefðu svo gert við ríkisviðskiptabankana. Hvernig skiptingin hefði orðið, skiptir ekki öllu máli og í hvaða form menn hefðu síðan sett þetta, þ.e. hvort menn hefðu einkavætt eða ekki.

En það er ekki það sem málið snýst um. Málið snýst um það sama og var í frv. um hlutafjárvæðinguna, þ.e. að tryggja áfram óbreytt kerfi, óbreytta hugsun, en fyrst og fremst helmingaskipti milli þessara tveggja stjórnmálaflokka. Það er meginatriðið. Það eina sem er ítarlega frá gengið í þessu frv., herra forseti, er hvernig eigi að skipa stjórnir og hvernig eigi að semja milli viðskrh. og sjútvrh. og hverjir eigi að koma að stjórnum nýja bankans og Nýsköpunarsjóðsins. Þar eru ákvæðin skýr. Þar eru helmingaskiptin augljós vegna þess að þar á að koma einn frá hvorum ráðherra og síðan eiga tveir að koma eftir tilnefningum og það er athyglisvert hverjir eiga að tilnefna. Það er einn fulltrúi sem er tilnefndur frá Samtökum iðnaðarins og síðan er annar fulltrúi, fulltrúi sjútvrh., tilnefndur af Landssambandi ísl. útvegsmanna og Samtökum fiskvinnslustöðva. Hvað eru þessi samtök? Eru þetta fagsamtök á viðkomandi sviði? Nei, svo er ekki. Þetta eru vinnuveitendafélög atvinnugreinanna. Þetta eru ekki fagsamtök á sviði sjávarútvegs eða iðnaðar heldur er starfsemi þeirra fyrst og fremst að vera samningsaðili um kaup og kjör. Sennilega þekki ég þessi samtök best af öllum þeim 63 þingmönnum sem hér eru einfaldlega vegna þess að ég var varaformaður Samtaka fiskvinnslustöðvanna um árabil og starfaði á árum áður innan Landssambands ísl. útvegsmanna og þekki Samtök iðnaðarins. Ég þekki þessi samtök ágætlega.

Það sem hér er hins vegar verið að gera, og það bið ég menn að íhuga, er að hér er verið að taka fulltrúa atvinnulífsins, þ.e. vinnuveitendamegin úr tveimur atvinnugreinum og setja þá inn í þessa stjórn. Hér er verið að búa til vettvang fyrir annars vegar Kristján Ragnarsson og hins vegar fyrir Harald Sumarliðason sem eru formenn þessara tveggja samtaka. Ef til vill verður það Arnar Sigurmundsson í stað Kristjáns Ragnarssonar sem líklega má telja vegna þess að Kristján situr þegar í Íslandsbanka. Hér sjá menn alveg hvað skrifað er á vegginn. Hér er verið að tryggja hina pólitísku hagsmuni. Hér eru enn og aftur sömu mennirnir og við sjáum á landsfundum stjórnmálaflokkanna. Og hvernig var svo reynt að mæta því gagnvart framsóknarmönnunum? Jú, það liggur víst fyrir að bankastjórinn í nýja Fjárfestingarbankanum verður með flokksskírteini Framsfl. Þetta eru kaupin. Þetta eru samningarnir. Öll þessi fjögur frv. ganga ekki út á neitt annað, herra forseti, en að tryggja hið pólitíska vald áfram í viðskiptaumhverfinu þegar breytingar eru gerðar bæði á bönkum og sjóðum. Launafólk, starfsmenn fá enga aðild að þessum sjóð, Fjárfestingarbankanum. Fulltrúar launþega fá engan, hvað þá önnur atvinnulífssamtök, því að það eru ekki allir í sjávarútvegi í Samtökum fiskvinnslustöðvanna eða Landssambandi ísl. útvegsmanna. Því fer fjarri. Það eru ekki öll iðnaðarfyrirtæki í Samtökum iðnaðarins. Því fer fjarri. Og hafa þó greitt inn í þessa sjóði. Þeir fá hins vegar engan fulltrúa. Hér er verið að ganga erinda valdakerfisins í atvinnulífinu. Það á að selja 49% strax. Það eru engar takmarkanir á hámarkskaupum, engar útlistanir um dreifða eignaraðild og ég boða enn og aftur: Við munum flytja breytingartillögur um þennan þátt.

Hvað varðar Nýsköpunarsjóðinn þá getur það verið gott mál. Nýsköpun, er það ekki fallegt og gott og í sjálfu sér mundi ég styðja það. Við styðjum að sérstakan sjóð til að vinna að nýsköpun, í þróunarstarfsemi og öðru slíku í atvinnulífinu. Ekki veitir af því. En hvers konar sjóður er þetta? Þetta er ekki sjóður sem á raunverulega að stunda nýsköpun, þróun og fóstra hugmyndir. Það er meira að segja rakið í frv. sjálfu. Það er sagt að hægt sé að skipta þessu þróunarfjármagni eða hugmyndafé í þrjá flokka. Það er fjármagn til rannsóknar og þróunar á vöru- og viðskiptahugmynd. Síðan er annað stigið: Byrjunarfjármagn eða upphafsfé, þ.e. að taka við þróunarfjármagni og fullgera og hefja markaðsstarfsemi. Síðan er þriðja stigið sem er fjármagn til vaxtar eða vaxtafé og það er einmitt þar sem Nýsköpunarsjóðurinn á að koma inn. Hann á ekki að koma inn þar sem kannski mest nauðsyn er, þ.e. á frumstigi, að þróa fjármagn til rannsókna og þróunar, en við erum aftur einna öftust af öllum þjóðum í Evrópu á sviði rannsókna og þróunar. Það er ekkert gert með það. Nei, hér á að setja upp gamaldags byggðasjóð með öllu því sem honum fygir.

Og ekki nóg með það, herra forseti. Það sem er nú athyglisverðast við þennan blessaða Nýsköpunarsjóð er hverjir eiga að stjórna honum. Hverjir skyldu það nú vera? Það má ekki gleyma því hver á alla þessa sjóði. Það er fólkið í landinu. Ríkisvaldið fer með umsjón allra þessara sjóða fyrir hönd almennings. En hverjir eiga nú að stjórna Nýsköpunarsjóðnum sem á að byrja með 4 milljarða? (Gripið fram í: Gamla gengið.) Akkúrat. Gamla gengið. Þrír af fimm stjórnarmönnum, hvaðan skyldu þeir nú koma? Jú, einn er tilnefndur af Landssambandi ísl. útvegsmanna og Samtökum fiskvinnslustöðvanna. Það verður þá annaðhvort Kristján Ragnarsson eða Arnar Sigurmundsson ef þeir finna þá einhvern annan. Síðan er einn frá Samtökum iðnaðarins, hvort það verður Haraldur Sumarliðason eða Sveinn Hannesson veit ég ekki. Þriðji aðilinn er frá Alþýðusambandinu. Þar tókst þeim að loka hringnum, kippa launþegahreyfingunni inn og þá spyr ég: Af hverju Alþýðusambandinu? Ég hef ekkert á móti Alþýðusambandinu, síður en svo. Hvað með aðra launþega? Hvað með opinbera starfsmenn? Hvað með þá sem eru ekki í Alþýðusambandinu? Af hverju á Alþýðusambandið sérstaklega að koma að Nýsköpunarsjóði? Af hverju eiga fulltrúar vinnuveitenda, félög sjávarútvegs og iðnaðar, en meginverkefni þeirra er að vera samningsaðilar, að koma sérstaklega að nýsköpun? Af hverju þá ekki að setja inn tölvumenn, ef það væri nýsköpun? Af hverju ekki að taka Jón Braga Bjarnason prófessor eða Kára Stefánsson prófessor og gera hann að stjórnarmanni? Nei, það er ekki gert ráð fyrir því. Þetta á að vera fast í höndunum á gömlu hagsmunagæsluklíkunum. Og það sem er athyglisvert er að þessir hópar, eðlilega því að þetta eru aðilar vinnumarkaðarins, eru sömu aðilarnir og stjórna lífeyriskerfinu hér á landi. Það er ekki nóg með að við búum við það kerfi að samtök vinnuveitenda og samtök launafólks ráði yfir á þriðja hundrað milljörðum sem er fjármagnið í lífeyrissjóðunum --- það er ekkert nema gott um það að segja --- heldur eiga þessir aðilar í viðbót að taka við þessu verkefni sem er að þróa nýjar hugmyndir sem eiga að vera til framdráttar.

Herra forseti. Þetta er gamaldags hugsun og þetta er vond hugsun gagnvart nýsköpun, uppstokkun, framþróun og hagræðingu. Það er svo grátlegt að viðskrh. sem hefur stundum komið með ferskar hugmyndir skuli bera fram frv. fortíðarinnar með þessum hætti. En það er samhengi í þessu. Öll þessi frv. ganga út á það að tryggja valdastöðu þessara tveggja stjórnarflokka, Sjálfstfl. og Framsfl., hvort sem er í ríkisstjórn eða flokksapparatinu, hvort sem er í bankaheiminum eða í sjóðakerfinu eða í hagsmunahópunum sem tengjast svo vinnumarkaði. Það er samhengi, herra forseti í öllum þessum frv. Þetta gengur eins og rauður þráður í gegnum öll þessi frv. og það er m.a. þess vegna sem við leggjumst gegn þessu. Við teljum að útfærslan á þessum fjárfestingarbanka, nýja ríkisbanka með samansúrruðu valdi gömlu hagsmunahópanna og þessi illa útfærði nýsköpunarsjóður sé slæm þótt hugmyndin gæti verið góð. Þess vegna, herra forseti, leggjumst við gegn þessu. Þessi útfærsla gerir ekkert annað en að tryggja óbreytt ástand og horfir á engan hátt til bættrar framtíðar.