Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 18:25:14 (4442)

1997-03-13 18:25:14# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[18:25]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að veita andsvar við ræðunni heldur taka undir sjónarmið hv. þm. Aðra eins útreið og ríkisstjórnarstefnan fékk í þessari ræðu man ég ekki eftir að hafa heyrt frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum fyrir um það bil tveimur árum. Hann gerði upp við ríkisstjórnina á efnahagssviðinu.

Hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson er ekki bara einhver þingmaður stjórnarliðsins, hann er sérfræðingur og sérmenntaður á sviði viðskipta, hann hefur starfað við það. Hann er annar fulltrúi Framsfl. í efh.- og viðskn. Hann var sérstakur trúnaðarmaður hæstv. viðskrh. og vann ýmsa undirbúningsvinnu í sambandi við öll þessi mál. Hér var alvörumaður að tala, herra forseti. Hann lagðist gegn þessu, flutti sterk rök fyrir máli sínu, hans meginniðurstaða var sú sama og ég flutti áðan um að hér er verið að leggja inn á mikla villubraut, stökk 15 ár aftur í tímann eins og hann orðaði það. Hann talaði um mjólkurbúðafyrirkomulag og fleira þess háttar og að þetta væri tóm vitleysa fyrir utan að rekstrardæmið gengi ekki upp sem er alveg rétt eins og hann lagði það upp hér sem var viðbótarinnlegg í stöðuna.

Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann sé einn um þessa skoðun í þingflokki sjálfstæðismanna því hér er stjórnarþingmaður að tala. Veit hann um aðra þingmenn í Sjálfstfl., sem eru líka stjórnarþingmenn? Við höfum ekki heyrt í sjálfstæðisþingmönnum í þessari umræðu. Það er enginn hér í þingsalnum fyrir utan hv. þm. Pétur H. Blöndal, hann talar ekki fyrir hönd Sjálfstfl. í þessu máli. Það er matsatriði, herra forseti, hvort við verðum að kalla til ábyrgari menn. En ég óska eftir að hv. þm. upplýsi um stöðu mála eftir því sem hann þekkir hjá einstökum þingmönnum ef hann getur tjáð okkur það.