Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Fimmtudaginn 13. mars 1997, kl. 22:02:17 (4477)

1997-03-13 22:02:17# 121. lþ. 90.3 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins# frv., 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur

[22:02]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég hef áhyggjur af í þessu sambandi er ekki afstaða hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar til þessa máls. Ég hef þá trú að þegar að því kemur að hann kynni sér málið betur þá muni honum snúast hugur vegna þess að þarna er um skynsamlega leið að ræða sem valin hefur verið. Ég hef hins vegar áhyggjur af því hvað hv. þm. stjórnarandstöðunnar gera orðið lítið af því að rifja upp kosningaloforð Framsfl. frá síðustu kosningum. Og ég leita eftir því að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar verði nú vakandi í þeim efnum, og nefni dæmi eins og atvinnutækifærin, hagvöxtinn, fjárlagahallann og þar fram eftir götunum (SvG: Og lánasjóðinn.) og lánasjóðinn þegar að því kemur, hv. þm. (SvG: En ekki strax?) Herra forseti. Það má hvenær sem er fara í þá vinnu. En ég heyri að með þessu vek ég hv. þm. stjórnarandstöðunnar til umhugsunar og bið þá að melta þetta nú með sér og minna okkur á kosningaloforðin því að það er mjög hollt en þau eru flestöll að komast í framkvæmd.