Breytingar í lífeyrismálum

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 15:20:13 (4505)

1997-03-17 15:20:13# 121. lþ. 91.1 fundur 247#B breytingar í lífeyrismálum# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[15:20]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Haustið 1995 skipaði ég nefnd sem átti að endurskoða lög um lífeyrissjóði og setja ný lagaákvæði sem ekki hafa verið í gildi fyrr. Sú nefnd skilaði ágætu verki um fjárreiður sjóðanna og skyldutrygginguna á sl. hausti og í framhaldi af því var tveimur nefndarmönnum falið að leita að samkomulagi milli ólíkra sjónarmiða og þeir hafa unnið að því verki síðan. Nefndin hefur hins vegar ekki komið saman frá því í september eða október á sl. ári trúi ég.

Ég vil í tilefni af þessu segja að frv. um þetta efni hefur ekki verið lagt fyrir ríkisstjórnina heldur er það unnin innan ráðuneytisins. Hugmyndin var að kynna þetta frv. aðilum á vinnumarkaði og halda fundi í nefndinni í framhaldi af því. Það hefur komið fram af minni hálfu og forsrh. að hugmyndin er að slíkir fundir með aðilum á vinnumarkaði verði haldnir og því hefur verið lýst yfir að sjálfsforræði sjóðanna sé tryggt og að ætlunin sé að 10% gangi til þeirra. Ágreiningurinn sem uppi var í þessu máli er ósköp einfaldlega sá að það var sjónarmið þeirra sem unnu að frumvarpsdrögunum að eftir að búið væri að tryggja samtryggingarhlutann að ákveðinni upphæð þá væri einstaklingum sem í sjóðunum eru og ber að greiða í þá samkvæmt lögum heimilt að stýra hluta af fjármagninu til svokallaðra séreignasjóða. Ég minni á að séreignasjóðirnir eru gildir lífeyrissjóðir og í vissum tilvikum geta menn uppfyllt lagaskylduna með því að greiða beint í þá. Að allra síðustu minni ég á að það liggja fyrir beiðnir í ráðuneytinu þess efnis að sjóðir fái að velja fyllilega milli þess hvort allt framlagið eigi að fara til séreignasjóða eða til samtryggingasjóða.

Varðandi opinberu sjóðina skal það sagt, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að ef þetta nær fram að ganga, þá mun það að sjálfsögðu eiga við þar eins og annars staðar að einstaklingar munu þegar ákveðnu marki er náð geta stýrt sínum fjármunum, en það er ekki verið að breyta lögum í því starfi sem þarna á sér stað. Og eins og ég hef hér sagt, þá verður haft samráð við aðila á vinnumarkaði um málið.