Dómur Hæstaréttar um jafnrétti til launa

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 15:36:11 (4515)

1997-03-17 15:36:11# 121. lþ. 91.1 fundur 249#B dómur Hæstaréttar um jafnrétti til launa# (óundirbúin fsp.), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[15:36]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Sl. fimmtudag féll merkilegur dómur í Hæstarétti þess efnis að óheimilt sé að greiða mismunandi grunnlaun fyrir sömu vinnu þótt greitt sé eftir samningum óskyldra stéttarfélaga. Þar með hefur Hæstiréttur kveðið upp dóm sem styrkir jafnréttislögin verulega og gerir vinnuveitendum vonandi ómögulegt að leika þann leik að greiða körlum mun hærri laun en konum á grundvelli þess að um mismunandi stéttarfélög sé að ræða, en oftast eru það konurnar sem eru á lægri launum.

Að mínum dómi er hér um sigur að ræða í baráttu kvenna fyrir launajafnrétti sem á eflaust eftir að hafa mikil áhrif. Það er ánægjuefni að dómstólar fara að nýtast í jafnréttisbaráttu hér á landi eins og raunin hefur verið í öðrum löndum, eins og t.d. Bandaríkjunum þar sem dómstólar hafa leikið stór hlutverk í að fylgja lögum eftir og beitt háum sektum gegn þeim sem gerast brotlegir en það er reyndar ekki gert í því tilviki sem hér um ræðir. Dómurinn segir einfaldlega: ,,Það ber að greiða sömu laun fyrir sömu vinnu``, eins og reyndar hefur verið kveðið á um í lögum hér á landi frá 1961, en verið freklega brotið.

Nú er það spurning mín til hæstv. fjmrh.: Hvernig hyggst hann bregðast við þessum dómi og hefur verið kannað innan fjmrn. hvaða áhrif hann hefur á ríkiskerfið?