Arnarholt

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 15:45:54 (4523)

1997-03-17 15:45:54# 121. lþ. 91.1 fundur 251#B Arnarholt# (óundirbúin fsp.), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[15:45]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það er ýmsum minnisstætt að geðsviði Sjúkrahúss Reykjavíkur var á sl. ári gert að spara 2 millj. kr. og í því skyni var lokað þar, að því er sagt var tímabundið, deild fyrir langveika geðsjúklinga. Það blasti á þeim tíma við hverjum þeim sem kynnti sér þessar ráðstafanir að sparnaður af þeim yrði enginn því að til að vista hluta af þeim sjúklingum sem þarna voru fyrir á deild sem var rekin með lágmarkskostnaði þurfti margfalt dýrari úrræði eða allt að tíu sinnum dýrari en eru í Arnarholti og þannig var allur sparnaður fyrir bí og vel það. En allt þetta fólk missti þarna heimili sitt og mörgum hefur liðið afskaplega illa síðan. Menn hafa bundið miklar vonir við að deildin yrði opnuð nú eftir áramót en hver dagsetningin eftir aðra sem hefur verið gefin upp hefur brugðist. Síðast kom skrifleg beiðni frá yfirlækni geðsviðs og hjúkrunarforstjóra fyrir fund en afgreiðslu hennar var frestað.

Því vil ég spyrja hæstv. heilbrrh.: Er fyrirhugað að opna umrædda deild í Arnarholti eða er meiningin að ,,spara`` meira á þessum sjúklingum? Ef á að opna deildina, þá hvenær?