Umhverfismat fyrir Fljótsdalsvirkjun

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 15:53:35 (4530)

1997-03-17 15:53:35# 121. lþ. 91.1 fundur 252#B umhverfismat fyrir Fljótsdalsvirkjun# (óundirbúin fsp.), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[15:53]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það var spurt um vilja minn til þess eða skoðun á því hvort ég teldi að það væri æskilegt að þessi virkjun færi undir mat á umhverfisáhrifum. Ég get lýst því yfir að ég teldi að það væri æskilegt vegna þess að ég tel að það sé æskilegt með allar stórframkvæmdir af þessu tagi og eins t.d. með þessa virkjun. Þess vegna eru lögin um mat á umhverfisáhrifum sett til þess að geta tekið framkvæmdir af þessu tagi til svokallaðs umhverfismats og auðvitað ætti það við um þetta. En hér ræður löggjafinn eða hann hefur sett sér leikreglur hvað þetta varðar bæði fyrir þann sem framkvæmdaleyfið hefur og gagnvart eldri lögum. Þegar lögin um mat á umhverfisáhrifum voru sett þá tóku þau það beinlínis fram að heimildir sem áður höfðu verið gefnar út skyldu standa þannig að ég held að þá yrði löggjafinn að taka málið upp, ef hann vildi gera það, og þá hygg ég að lög um Fljótsdalsvirkjun heyri undir iðnrh. en ekki umhvrh. ef ganga ætti svo langt og ef það yrði niðurstaða löggjafans að grípa þannig inn í málið.