Starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 16:22:08 (4540)

1997-03-17 16:22:08# 121. lþ. 91.95 fundur 246#B starfsaðferðir fíknefnalögreglunnar# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[16:22]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær undirtektir sem hér hafa komið fram hjá hv. þingmönnum um mikilvægi þess að þetta mál verði hreinsað. Ég lýsti því hér yfir að ég hefði það og ráðuneytið til alvarlegrar skoðunar að fela ríkissaksóknara að rannsaka það frekar. Ég fékk í morgun svör lögreglustjórans í Reykjavík og það er mjög eðlilegt að ég taki mér svo sem eins og einn sólarhring til að taka endanlega ákvörðun um hvernig við verður brugðist en ég hef ekki séð aðrar leiðir en að gera þetta með þessum hætti. Ég mun að sjálfsögðu gera ríkisstjórninni grein fyrir málinu áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

Vegna þeirrar spurningar sem hér kom fram um það hvort ríkissaksóknari væri rétti aðilinn til að standa að slíkri rannsókn þá lúta þær ásakanir sem bornar hafa verið fram að athöfnun sem varða við hegningarlög og það er enginn annar aðili lögum samkvæmt sem getur farið með rannsókn slíkra mála en ríkissaksóknari. Hann starfar algjörlega sjálfstætt, óháð framkvæmdarvaldinu og þess vegna eru að mínu mati engar aðrar lagalegar forsendur fyrir rannsókn sem telst vera fullnægjandi en þessi. Hvers konar nefndarskipanir sem menn gætu hugsað sér gætu aðeins leitt til könnunar en slíkar nefndir gætu ekki lögum samkvæmt haft neitt rannsóknarvald. Því tel ég að það sé ekki um annan farveg að ræða en þennan. En það er mjög mikilvægt eins og hér hefur komið fram að lögreglan njóti trausts. Ég er ekki að óska eftir þessari rannsókn vegna þess að ég hafi ástæðu til að ætla að lögreglumenn hafi misfarið með vald sitt. En það er nauðsynlegt að hreinsa málið og upplýsa það. Það verður að mínu mati ekki gert með öðrum hætti en þessum.