Flugskóli Íslands hf.

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 16:32:01 (4543)

1997-03-17 16:32:01# 121. lþ. 91.6 fundur 152. mál: #A Flugskóli Íslands hf.# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[16:32]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kem hingað til þess að andmæla frv. og vara við því að það verði samþykkt. Ég held að menn ættu að staldra aðeins við og reyna að átta sig á því út í hvaða fen þeir eru að fara áður en þeir vaða fram með svona hugmyndir.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég batt vonir við að þetta frv. kæmi aldrei, a.m.k. ekki í óbreyttri eða lítt breyttri mynd frá hv. nefnd, auk þess sem það hefði auðvitað átt að fara til menntmn. til skoðunar sem hluti af skipulagi menntamála í landinu ef út í það væri farið. Ég held að það sé að vísu hægt að viðurkenna, herra forseti, að saga flugnámsins eða flugskólans hefur verið hálfgerð hrakfallasaga. Það hefur ekki gengið nógu vel eða tekist nógu hönduglega að koma því fyrir en það eru engin rök eða engin réttlæting fyrir því að fara að brydda upp á þeim ósköpum sem hér eru á dagskrá, að stofna hlutafélag um rekstur eins tiltekins faggreinarskóla í landinu. Út á hvaða braut eru menn þá að halda og hvar endar það og hvaðan koma mönnum rök fyrir því að þetta sé farsæl niðurstaða, t.d. hvað varðar samskipti atvinnugreinar og ríkis á sviði menntunar og starfsfræðslu á einu sviði, að fara út í það fyrirkomulag að stofna hlutafélag, selja helstu viðtakendum þeirra sem þarna stunda nám hlut í félaginu með þeim rökum að þeir þurfi að geta haft nógu mikil áhrif á framgang mála?

Ég held að hér sé að mörgu að hyggja, herra forseti, sem ekki hafi verið gert nægilega vel. Mér finnast þessi nefndarálit heldur ræfilsleg og það á við þau bæði, ekki síður minni hlutans, það skal tekið fram. Ef minni hlutinn er á móti þessu máli þá hefði hann vel mátt hafa fyrir því að rökstyðja það aðeins betur.

Herra forseti. Þessi röksemdafærsla, þ.e. ástæða þess að slíkt rekstrarform er valið eins og segir í nefndaráliti meiri hlutans, er sú að með því er aðilum sem hagsmuna eiga að gæta varðandi rekstur skólans gefinn kostur á að gerast eignaraðilar að honum og hafa þannig áhrif á stefnu hans og viðgang.

Bíðum nú við. Hverjir eiga hagsmuna að gæta hér? Eru það ekki m.a. nemendur? Er það ekki m.a. þjóðfélagið allt og er þetta ekki hluti af menntastefnunni í landinu? (Gripið fram í: Bornir og óbornir.) Bornir og óbornir um ókomin ár. En hér er auðvitað átt við tiltekna aðila sem eru greinilega í miklu uppáhaldi hjá þeim sem þarna stýra penna eða ráða hugsun, þ.e. hagsmunaaðilar í skilningnum: flugrekendurnir, eða kannski í eintölu með ákveðnum greini sem tekur við obbanum af þeim mönnum sem þarna ljúka námi. En hver á að borga reikninginn? Ríkið. Ríkið á að borga reikninginn. Það er tekið skýrt fram og reyndar mjög sérkennilegt satt best að segja því að það jaðrar við að það sé lagt til hér í 5. gr. frv. að taka fjárveitingavaldið af Alþingi og framselja það í hendur ráðherra sem gerir samning um rekstur skólans og síðan skuli Alþingi veskú borga það sem í þeim samningi stendur ár eftir ár. Það er ekki mikið minnst á nemendur hér eða aðra slíka, að þeir skuli geta haft áhrif á framgang mála. Er það nú virkilega svo að eina aðferðin í nútímanum til þess að atvinnugrein, fagaðilar, geti haft áhrif á mótun náms, námskröfur og uppbyggingu, sé að þeir gerist hluthafar í hlutafélagi um viðkomandi rekstur? Verður þá sjávarútvegurinn að gerast hluthafi í Háskólanum á Akureyri ef hann vill hafa áhrif á það hvernig námið er í sjávarútvegsfræðunum o.s.frv.? Hvers konar della er þetta? (Samgrh.: Maður spyr nú sjálfan sig.) Hvers konar della er þetta, herra forseti?

Auðvitað er ekkert því til fyrirstöðu að setja skýr ákvæði um skólastjórn, fagráð eða aðra slíka hluti sem menn vilja hafa þarna til að tryggja að atvinnugreinin, flugrekendur, geti haft áhrif, að sjálfsögðu, að svo miklu leyti sem menn telja að þeir eigi að hafa áhrif því að við skulum ekki gleyma því að þeir eru ekki endilega hlutlausir aðilar í stöðunni. Þeir eiga mikilla hagsmuna að gæta og það er líka vandasamt að draga þá mörk um það að hve miklu leyti þeirra áhrif eiga að vera þarna á ferðinni. Þetta má ekki þróast í þá veru að þeir geti sent ríkinu reikninginn fyrir að þjálfa kannski sína tilvonadi starfsmenn í mjög ríkum mæli umfram það sem eðlilegt má teljast og kallast má grunnám. Hafa menn hugað að því? Við skulum segja að það sé einn einasti aðili í landinu, flugrekandi með stórum staf og ákveðnum greini, sem taki við 70--80% af öllum þeim sem þarna útskrifast og ljúka námi. Á hann þá ekki talsverðra hagsmuna að gæta? Gæti það ekki verið freistandi fyrir hann, ef hann getur í gegnum eignaraðild að skólanum sem ríkið borgar hins vegar, stýrt námskránni þannig að flugmennirnir komi út úr náminu meira og minna þjálfaðir á tilteknar flugvélagerðir og guð má vita hvað, sérstaklega undir það búnir að starfa við tiltekna þætti í flugrekstri? Ég held að þetta sé afar lítið hugsað, herra forseti.

Síðan á að tryggja þarna einhverja eignaraðild, að vísu með því að enginn megi eiga meira en 25% hlutafjár. Er þá átt við hvern einstakan flugrekanda, hvert einstakt flugrekstrarleyfi eða yrði það samstæða? Mættu mismunandi fyrirtæki í samstæðu eiga hver sín 25%? Þetta er praktísk spurning. Við þekkjum eignatengsl stórra aðila á þessu sviði í flugrekstrinum.

Hvaðan koma mönnum þau rök að betra sé að gera þetta svona heldur en t.d. með því að vista þennan skóla hjá einhverjum traustum framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu eða standa einhvern veginn öðruvísi að því? Ef menn vilja hafa þetta nær háskólastiginu getur hann verið við Tækniskólann. Til eru ótal möguleikar á að búa þessu fagnámi stöðu þannig að það sé sambærilega sett og annað og því sé fullur sómi sýndur án þess að fara að lögfesta þessi afbrigðilegheit hér. Með leyfi forseta. Ég hlýt að nota það orð. Það eru afbrigðilegheit að vera að lögfesta þennan hlutafélagabastarð um þennan skóla. Það eru nú meiri ósköpin verð ég að segja.

Ég vil aðeins staldra, herra forseti, við ákvæði í 4. gr. Þar kemur að þessu sem er aðalrökstuðningurinn samkvæmt nefndarálitinu fyrir því að einkavæða þennan skóla. Það er að vísu annar rökstuðningur en kemur fram í greinargerð með frv. á bls. 3, þ.e. upphaflega textanum sem fylgdi frv. í fyrra því að þar segir ósköp einfaldlega, með leyfi forseta:

,,Ráðuneytið er þeirrar skoðunar að kostir hlutafélagsformsins séu verulegir umfram ríkisrekstur á þessu sviði.``

Rökstuðningur fyrir málinu eins og það kom upphaflega hér inn, herra forseti, var að það var skoðun ráðuneytisins. Ráðuneytið hefur skoðun. Það telur að einkarekstur sé betri en almennir skólar (Samgrh.: Skoðun ráðuneytisins er skoðun ráðherrans.) og þar með er það ákveðið. Það þarf ekki frekari vitna við. Það þarf ekki frekari rökstuðnings við. Ráðuneytið er þeirrar skoðunar. Ráðuneytið telur, ráðuneytið ímyndar sér, ráðuneytið heldur, ráðuneytið vill, þetta er sem sé sá rökstuðningur sem Alþingi á að láta sér nægja í þessum efnum. (Gripið fram í: Ráðuneytið yrkir.) Því sem ráðuneytinu dettur í hug að yrkja í þessum efnum skulu vera hér lög. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að þetta er stórbrotið. En mér finnst lakara í sjálfu sér að meiri hlutinn í hv. samgn. skyldi ekki ramba á að hafa sama rökstuðning fyrir málinu og hæstv. ráðherrann. Auðvitað átti bara meiri hluti samgn. að vitna í skoðun ráðuneytisins og láta það nægja. Það væri í samræmi við framlagningu málsins.

Herra forseti. Í 4. gr. kemur að því að búa um það sem er notað hér sem rökstuðningur, þ.e. að flugrekendurnir geti með eignaraðild sinni haft áhrif á stefnu skólans og viðgang eins og stendur í nefndarálitinu. Það á að gerast þannig að þriggja manna stjórn er kosin á aðalfundi skólans. Nú heldur hlutafélagið aðalfund, hlutafélagið Skólinn hf., og kýs þriggja manna stjórn og það er stjórn hlutafélagsins sem á að hafa þarna áhrif. Þetta hlýtur að vera hlutafélag sem lýtur hlutafélagalögum. Annaðhvort er þetta einkahlutafélag eða almenningshlutafélag. Það eru ekki til önnur form hlutafélaga í landinu og mér sýnist nú miðað við að eignaraðilarnir verði kannski ekki mjög margir, það er ekki sérákvæði um það í lögunum, að þetta muni þá verða einkahlutafélag og fer vel á því auðvitað. Ráðherrann og Flugleiðir koma til með að eiga þetta saman og einhverjir einn til tveir litlir aðilar kannski í viðbót svona til þess að passa upp á fjölbreytnina. Það er stjórn þessa hlutafélags sem á síðan að verða einhvers konar skólastjórn. Þetta er afar sérkennilegt, herra forseti, verð ég að segja. Með öðrum orðum: Þetta er ekki skólastjórn. Þetta lýtur ekki lögum eins og um skóla væri að ræða. Nemendur koma þarna ekkert til sögu. Það er ekkert nemendaráð. Þetta kemur hvergi við menntamálalöggjöf í landinu. Það er hlutafélagalöggjöfin sem á að gilda um þennan skóla. Er það ekki? Og það verður þá væntanlega að fara eftir hlutafélagalögum um gerð ársreikninga og endurskoðun og annað því um líkt fyrir þennan skóla. Þetta er rekstur sem á að lúta lögum um samkeppnisfyrirtæki í atvinnulífinu þó að þessi skóli sé einn í landinu og hafi auðvitað einokun ef út í það er farið. Þetta er mjög sérkennilegt svo ekki sé meira sagt, herra forseti.

Er nú alveg tryggt að þessir snillingar sem ná kosningu á aðalfundinum verði mjög vel að sér um kennslumál, gerð námskrár, tilhögun kennslu, námskeið, stundaskrá og námsefni? Allt þetta er talið upp og stjórn hlutafélagsins á að gerast sérfróð í þessu.

Síðan kemur 5. gr., herra forseti. Hún er alveg stórbrotin:

,,Samgönguráðherra skal beita sér fyrir gerð samnings milli ríkisins og hins nýja félags [þ.e. hlutafélags] þar sem nánar skal kveðið á um það skólahald sem félagið á að sinna og hvernig greiðslum af hálfu ríkisins skuli háttað. Á fjárlögum hverju sinni skal síðan veita fé til að fullnægja skuldbindingum ríkisins samkvæmt samningnum.``

Með öðrum orðum: Samningaumboðið er framselt til ráðherrans. Hann gerir samning. Í honum getur staðið hvað sem er þess vegna og Alþingi skal veskú við fjárlagaafgreiðsluna hverju sinni borga, setja inn fullnægjandi fjárveitingar til að efna samninginn. Þetta er afar opið svo ekki sé meira sagt. Er þá ekki fyrst rétt að bera fram umboðið og kanna vilja Alþingis til að slíkt samningsumboð sé afhent og hefur nefndin farið yfir það, rætt það við fjárln., efh.- og viðskn. hvort hér sé eðlilega að málum staðið? Ég hefði fyrst talið að það ætti að veita ráðherra umboð í ákvæði til bráðabirgða til að leita eftir gerð slíks samnings við félagið og svo ætti að láta á það reyna hvort þingið vildi efna hann með fjárveitingum, en því væri ekki stillt upp við vegg þegar þar að kemur á grundvelli samnings sem gerður væri með þessum hætti og eigi þá engan annan kost en að borga því að þetta verður að sjálfsögðu löggjörningur. Þetta verður löggjörningur sem þingið verður bundið af, ef svona verður gengið frá málinu, skaðabótaskylt ella. Það er alveg ljóst. En þetta er alveg ótrúleg röð á hlutunum sem hér er sett upp og ég spyr, herra forseti: Hvaða snillingar sömdu þetta? Hvaða snillingar gengu svona frá þessu? Þetta er mjög óvenjulegur umbúnaður svo ekki sé meira sagt.

Ég hef komið að því hér fyrr á öldinni, eins og stundum er sagt, að gera býsna stóra samninga fyrir hönd ríkisins við aðila. Þá reyndu menn auðvitað að fara í þetta í réttri röð og bera fyrst upp í þinginu heimild til þess að leita eftir samningunum og hafa hana í lögum. Þegar hún var komin í lög, þá var farið í samningagerðina. Þegar samningarnir lágu fyrir, þá var vilji Alþingis til að hefja framkvæmd samninganna kannaður og svo voru sett lög um þann umbúnað á eftir vegna þess að menn vildu ekki koma að Alþingi þannig að það stæði upp við vegg, búið að framselja frá sér samningsvald til þess að skuldbinda ríkið með löggjörningum án þess að nokkurt þak eða nokkur takmörk væru á upphæðinni. Hvað segja þessir miklu snillingar í fjárln. sem spretta hér upp stundum þegar það á við og mótmæla því að fjárveitingavaldið sé framselt? Hvar eru þeir núna? Var enginn þeirra í samgn. eða á maður að trúa því að samgn. hafi ekkert velt þessum hluta málsins fyrir sér? Þetta er afar sérkennilegur og óvenjulegur frágangur á máli, herra forseti.

[16:45]

Að vísu skal það tekið fram að í 3. mgr. 5. gr. er sleginn sá varnagli að félagið, hlutafélagið, einkahlutfélagið þeirra kumpánanna samgrh. og kó, á ekki að vera gróðafyrirtæki, ekki í hefðbundnum skilningi þess orðs, þ.e. það er ekki reiknað með því að eigendurnir taki arð eins og er þó mjög í tísku núna. Og reynslan sýnir að menn geta hvenær sem er hrokkið í gang með eitthvert ferli, skírt sjálfa sig eigendur að einhverjum svona fyrirbærum og farið að heimta arð. Dæmi: Landsvirkjun. En það er nú samt sagt hér í 3. mgr. 5. gr., með leyfi forseta:

,,Tilgangur félagsins er ekki að afla hluthöfum fjárhagslegs ávinnings, heldur skal rekstrarafgangi varið til frekari uppbyggingar skólastarfsins og skulu samþykktir félagsins innihalda ákvæði þess efnis.``

Gott og vel, þetta er þá orðin einhvers konar NGO-stofnun eins og stundum er sagt á erlendri tungu, einhvers konar hálfgert líknafélag eða sjálfseignarstofnun í reynd í þeim skilningi að hún á að vaxa af sjálfri sér en það á ekki að draga arð út úr starfseminni. Það er gott og vel. En þar með er þó a.m.k. ljóst að stofnunin getur látið það eftir sér sem henni sýnist. Hún getur lagt fjármuni í uppbyggingu sína samkvæmt þessu eins og hún kýs og, og hvað? Sent ríkissjóði reikninginn. Hún getur ákveðið að búa sig svo vel af tækjum sem fara gerir, hafi hún til þess svigrúm innan samningsins. Hún getur látið ýmislegt eftir sér, sýnist mér, og reikningurinn fer til ríkissjóðs ef þannig bæri nú undir að einhvern tímann á góðri stund þá næðu þeir svo vel saman, hæstv. samgrh., hver sem það nú yrði eða verður sem færi með samningsumboðið, og hinir. Þetta finnst mér satt best að segja mjög skrýtið, herra forseti, svo ekki sé meira sagt.

Ég vek athygli á því að stjórn skólans, stjórn hlutafélagsins, á að semja námskrána og ákveða tilhögun námskrár, stundaskrár, námskeiða og annað því um líkt. Hún er líka viðsemjandinn, auðvitað. Það hlýtur að vera þannig því að samgrh. skal beita sér fyrir gerð samnings milli ríkisins og hins nýja félags. Hverjir stjórna því? Stjórn hlutafélagsins sem jafnframt er skólastjórn og semur námskröfurnar og verður tilnefnd af helstu hagsmunaaðilum í fluginu. Þannig er það. Þetta, herra forseti, er afar sérkennilegt, svo ekki sé meira sagt.

Flugleiðir benda í umsögn sinni við frv. eins og það kom í fyrra réttilega á að íslenska ríkið stendur yfirleitt straum af kostnaði við grunnmenntun langflestra starfsstétta í landinu og þannig á það að vera. Hvers vegna á þá að vera að undanskilja bóklegt nám atvinnuflugmanna? Af hverju er farin þessi afbrigðilega leið við að koma því fyrir í menntakerfi landsins? Hver eru rökin önnur en einhver svona, að ráðuneytið hafi þá skoðun eða að þetta sé aðferð til þess að láta flugrekendur hafa áhrif á uppbyggingu námsins? Það er bara ekki nokkurt minnsta vandamál að gera það á mikið einfaldari og eðlilegri hátt en hér er lagt til og forðast að lenda út í þeim ógöngum að fara að reka skóla af þessu tagi, sem er eini fagskólinn á heilu sviði í landinu, sem hlutafélag.

Herra forseti. Er ekki reynslan líka dálítið blendin af þessu fíneríi þegar menn draga hagsmunaaðilana inn að borðinu með sér og afhenda þeim hluti af þessu tagi? Hvernig er reynslan af Bifreiðaskoðun Íslands hf., blessaðri? Það var nú fína útkoman á því dæmi fyrstu árin eða hitt þó heldur. Skoðunargjöldin hækkuðu um mörg hundruð prósent og þjónustan stórversnaði. Það vantaði nú ekki að hagsmunaaðilarnir gætu aldeilis farið að hafa áhrif þar.

Nei, ég er ekki viss um, herra forseti, að þetta sé mjög skynsamlegt og reyndar alveg sannfærður um hið gagnstæða. Þetta er ákaflega vanhugsað. Ég vil fá einhver meiri rök en koma fram í þessum pappírum hér, greinargerð með frv., sem er nú að mestu leyti hrá frá því í fyrra og hafði ekki fram að færa merkilegri rökstuðning en þetta, að ráðuneytið væri þeirrar skoðunar að kostir hlutafélaga væru ótvíræðir. Síðan eru gerðar minni háttar lagfæringar á frv. og í raun og veru ekki fjallað um neitt annað í nál. á þskj. 754. Ég vara mjög við því, herra forseti, að fara út á þessa braut. Ég held að þetta sé algjörlega vanhugsað. Skynsamlegast væri að menn sameinuðust um það hér að láta málið liggja, bara hætta því þar sem það er statt núna og minnast ekkert á það meir. Reyna svo að koma með einhverja vitlega, vel rökstudda og útfærða tilhögun á þessu í frumvarpsformi t.d. næsta haust.

Ég spyr að lokum, herra forseti: Hefur hæstv. menntmrh. verið hafður eitthvað til ráðuneytis um þetta mál? Var það ekki þannig að hæstv. menntmrh. var að troða hér í gegn framhaldsskólalögum þar sem átti að byggja upp alveg sérstakt nýtt kerfi, þ.e. að einstakir skólar gætu sérhæft sig sem kjarnaskólar á viðkomandi sviðum? Var ekki verið að byggja heilan nýjan stóran framhaldsskóla sem ætlar að sérhæfa sig á tilteknum sviðum iðnnáms eða verknáms og verða kjarnaskóli? Af hverju er ekki einhver skóli látinn sérhæfa sig og verða kjarnaskóli fyrir flugnámið, bóklegt nám atvinnuflugmanna og jafnvel fleiri greinar, tengdar og skyldar greinar sem gætu nýst til að efla á einum stað nám fyrir þessi svið? Það er náttúrlega stutt yfir í mörg önnur fög sem tengjast fluginu eða eru skyld því. Við getum tekið þar flugumferðarstjórn og flugumsjón og jafnvel rafeindavirkjun á þessu sviði og ýmislegt fleira. Ég held að það væri alveg prýðilegt að stefna að því að það myndaðist einhver kjarnaskóli á þessu sviði, annað hvort einn af framhaldsskólunum hér eða að Tækniskólinn tæki þetta að sér. Ég varpa því nú frekar fram svona sem hugmyndum heldur en hitt að mér sé það eitthvað fast í hendi hvernig að þessu verði staðið. Eða þá, ef menn telja að þetta eigi að vera sérskóli, að þetta sé þá bara ríkisskóli. Það væri hugsanlega hægt að vista hann einhvers staðar í sambýli við annan, en hann gæti verið sjálfstæður sem slíkur, séreining, ef menn vilja frekar hafa það þannig. Það er ekkert vandamál. En þessi hlutafélagamanía sem hér er gengin aftur inn í þetta mál finnst mér ótrúleg. Og ég trúi því ekki satt best að segja að þingmenn hafi almennt áttað sig á því eða gert það upp við sig að fara að styðja þessi ósköp.

Herra forseti. Ég tel sjálfsagt mál, ef menn vilja knýja á um afgreiðslu málsins hér, að styðja þá tillögu um að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar þannig að það verði betur skoðað, en skynsamlegast væri nú að láta þetta bara alls ekki koma neitt til atkvæða, bara hætta þessu hér og nú.