Flugskóli Íslands hf.

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 16:53:07 (4544)

1997-03-17 16:53:07# 121. lþ. 91.6 fundur 152. mál: #A Flugskóli Íslands hf.# frv., Frsm. meiri hluta EKG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[16:53]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ekki ástæða til þess að orðlengja mjög þessa umræðu. Þetta mál hefur komið hér allnokkrum sinnum til umfjöllunar. Eins og ég gat um í máli mínu áðan var þetta mál lagt fram á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu þá en fékk þó að sjálfsögðu nokkra umræðu í þinginu. Sömuleiðis höfðu menn tækifæri til þess að fjalla almennt um málið við 1. umr. og hafa væntanlega gert það með einhverjum hætti.

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. spurði mig eftir því hver væri hinn almenni rökstuðningur fyrir því að færa námið út úr flugskóla Flugmálastjórnar og inn í þetta nýja rekstrarform sem hér er gert ráð fyrir. Ég vil í þessu sambandi í fyrsta lagi vekja athygli á þeim almenna rökstuðningi sem fram kemur í greinargerðinni eða athugasemdunum við lagafrv. sem ég vék lítillega að í máli mínu áðan. Það er í fyrsta lagi það að það eru fullgild rök í sjálfu sér að færa þessa starfsemi úr umsjón Flugmálastjórnar þar sem loftferðaeftirlit Flugmálastjórnar hefur eftirlit með flugskólum samkvæmt reglugerð. Þess vegna væri mjög óeðlilegt í sjálfu sér að viðhalda núverandi fyrirkomulagi við rekstur flugskólans þar sem eftirlitsaðilinn sjálfur sæi um rekstur skólans. Það er því augljóst að við svo búið má ekki standa. Við verðum þess vegna að gera þá breytingu sem nauðsynleg er til þess að skilja þarna á milli. Í rauninni er það þannig að löggjafinn hefur verið að stíga á öðrum sviðum flugrekstrarins skref í þessa átt. Ég nefni í því sambandi til að mynda lögin um flugslys sem við vorum að samþykkja á síðasta þingi sem fólu nákvæmlega þetta í sér, að gera skil þarna á milli. Og ég held að við hv. þm. hljótum að vera sammála um það að getur ekki gengið til frambúðar að eftirlitsaðilinn sjálfur annist rekstur skólans. Þess vegna er eðlilegt að höggva á þessi tengsl eins og segir líka í athugasemdum.

Jafnframt sagði hv. þm. að athugasemdir með frv. stönguðust á við nál. meiri hlutans. Það er alveg fráleitt. Það sem kemur fram í nál. meiri hlutans má segja að séu fremur viðbótarrök í þessu sambandi. Við vekjum athygli á því að flugnámið er í miklum vanda eins og það er nú. Það er alveg ljóst að ef menn ekki taka einhvern veginn á þessu máli þá stöndum við frammi fyrir þeirri hættu að flugnám hreinlega leggist niður eða flytjist úr landi. Þá má velta fyrir sér hvernig við getum nálgast þetta mál. Það er hægt að fara þá gömlu leið sem hv. þm. lagði hérna til áðan, þ.e. að hafa gömlu góðu aðferðina og stofna ríkisskóla eins og hv. þm. impraði á í máli sínu áðan. Það er auðvitað leið. Það er auðvitað aðferð. Það ber að viðurkenna það. En þá nýtum við hins vegar ekki þá kosti sem í því felast að tengja þetta nám þeim aðilum sem mestra hagsmuna hafa að gæta, hafa mikla þekkingu á þessu sviði og hafa áhuga á því að þetta nám sé starfrækt hér innan lands. Þá á ég m.a. við flugrekstraraðila eða aðra, t.d. þá sem eru að reka aðra flugskóla sem kynnu að hafa og hljóta að hafa mikla hagsmuni af því og áhuga á því að þetta nám sé starfrækt hér á landi þannig að sú nauðsynlega samfella skapist sem við þurfum að sjá í þessu námi. Þess vegna eru fullgild rök fyrir því að reyna einmitt þetta form, hlutafélagaformið, og laða að starfseminni og uppbyggingu skólans alla þá sem kynnu að hafa áhuga á því að hafa áhrif á þessa starfsemi og kynnu að vilja nýta fjármuni sína til þess að byggja upp þessa starfsemi hér í landinu og þess vegna er hlutafélagaformið langeðlilegast og nærtækast í þessu sambandi.

Virðulegi forseti. Ég er alveg ósammála því sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði áðan þegar hann leit svona þröngt á málið, leit þannig á að það væri ekki hægt að beita öðrum aðferðum en þeim að stofna bara til ríkisskólareksturs og það væri eini valkosturinn sem við ættum í þessu sambandi. Þarna held ég að hv. þm. hafi verið á algjörum villigötum vegna þess að sú aðferð sem hér er verið að leggja til tryggir að við getum haldið áfram flugskólanáminu á Íslandi. Ég held að allir hljóti að vera sammála um að mjög mikilvægt sé að við reynum að tryggja að þetta nám fari hér fram þannig að okkar unga fólk sem vill leggja fyrir sig nám á þessu sviði geti sótt það innan lands. Við vitum og það gefur auga leið, að nám á þessu sviði innan lands hefur allt annað og miklu meira gildi en ef menn sækja það eingöngu til útlanda. Hér eru aðstæður allt aðrar, aðstæður sem menn þurfa síðan að búa við, og þess vegna væri mikill löstur á þessu öllu saman ef flugskólanámið legðist af og færi eingöngu til útlanda. Þetta er því aðferð til að tryggja að flugskólanámið verði hérna og að við getum laðað að bæði krafta manna og fjármagn til þess að byggja undir þetta nám þannig að það verði hér áfram til frambúðar.

Hv. þm. spurði síðan í lokin hvort hæstv. menntmrh. hefði verið hafður með í ráðum. Ég hlýt að vekja athygli á því að meðal nefndarmanna í nefndinni sem samdi frv. í upphafi var fulltrúi menntmrn. þannig að það gefur auga leið að menntmrn. var haft með í ráðum auk þess sem þetta er stjfrv. og hæstv. menntmrh. stendur vitaskuld að því og þarf ekkert að hafa fleiri orð um það.

Virðulegi forseti. Ég tel að hérna hafi verið komist niður á leið sem sé í sjálfu sér skynsamleg til þess að tryggja að fugrekstrarnám fari fram hér á landi. Hér er búin til aðferð við það að laða að fleiri aðila sem geta byggt undir þennan rekstur og tryggt að hann eigi sér stað og þess vegna held ég, virðulegi forseti að hér sé verið að leggja til skynsamlega aðferð, þ.e. að stofna sérstakt hlutafélag um rekstur þessa flugskóla og tryggja að þetta nám geti farið fram innan lands.