Flugskóli Íslands hf.

Mánudaginn 17. mars 1997, kl. 17:10:43 (4547)

1997-03-17 17:10:43# 121. lþ. 91.6 fundur 152. mál: #A Flugskóli Íslands hf.# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur

[17:10]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög athyglisvert. Nú kemur hv. þm. og sver það algerlega af sér að þetta eigi við um aðra skóla. Þá hlýtur niðurstaðan að vera sú að allar hinar almennu röksemdir sem svo fjálglega voru færðar fyrir kostum hlutafélagaformsins í þessu sambandi og þessi skoðun ráðuneytisins sé algerlega sértæk gagnvart þessu námi. Þetta eigi þá ekki við annars staðar. Reyndar held ég að það sé aðallega að hv. þm. varð auðvitað feiminn þegar hann fór að átta sig á því út í hvaða fen menn væru að fara hér, þessa hlutafélagaþvælu í sambandi við skólana. Ég virði það við hv. þm. að hann dregur þó í land hvað þetta snertir og þvær það af sér að þetta eigi við sem almenn röksemdafærsla fyrir því að það eigi yfirleitt að reka skóla í hlutafélögum.

Svo finnst mér hin röksemdin líka mjög kostuleg að það hafi verið óhjákvæmilegt að fara út í þetta hlutafélag til þess að halda náminu í landinu. Menn hafi staðið frammi fyrir þeim kostum að tapa því úr landi nema þeir stofnuðu hlutafélag um rekstur þessa skóla. Er hv. þm. virkilega að reyna að segja að hann sé þeirrar skoðunar að það hefði verið ofvaxið íslenska ríkinu að halda úti þessu námi nema stofna um það hlutafélag og fá einhverjar milljónir frá Flugleiðum til þess að stofna hlutafélög þegar ríkið á svo að borga skólann eftir sem áður, borga allan kostnaðinn? Þetta snýst þess vegna um einhverjar milljónir í upphafspunkti málsins sem hugsanlega verða lagðar inn sem hlutafé gagnvart námi sem ríkið á síðan að kosta hvort sem er eða a.m.k. í öllum aðalatriðum. Mér finnst þetta ekki halda, herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er þó að ég viðurkenni að vísu að mér finnst að breyttu breytanda skárra að hv. þm. er þó ekki að reyna að boða hér allsherjarhlutafélagavæðingu allra skóla í landinu.