1997-03-18 15:57:57# 121. lþ. 92.95 fundur 258#B áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á lífeyriskerfinu og kaup Landsbankans á 50% hlut í Vátryggingafélagi Íslands hf.# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:57]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Þessi umræða fer fram við mjög sérkennilegar og athyglisverðar aðstæður undir alsjáandi auga framkvæmdastjóra Sjálfstfl. hér á pöllunum sem fylgist með því hvernig vinnumenn hans hér í salnum standa sig í þessum umræðum. Það er eðlilegt vegna þess að framkvæmdastjóri Sjálfstfl. er höfundur þessa máls.

Í framhaldi af þeim umræðum sem hér hafa þegar farið fram er hins vegar ástæða til að spyrja hæstv. fjmrh. tveggja spurninga varðandi lífeyrissjóðina. Í fyrsta lagi: Hvernig mun fjmrh. bregðast við kröfum verkalýðsheyfingarinnar sem eru settar fram í dag um yfirlýsingu varðandi löggjöf um lífeyrissjóðina? Hvað mun fjmrh. ganga langt í þeim efnum? En í orðum sínum áðan þá fannst mér að hann væri í rauninni að segja að ríkisstjórnin ætlaði þrátt fyrir kröfur verkalýðshreyfingarinnar að halda sínu striki, með öðrum orðum að hafa kröfur verkalýðshreyfingarinnar að engu. Þetta spyr ég um í fyrsta lagi.

Í öðru lagi, herra forseti. Fyrir örfáum mánuðum eða vikum ræddum við hér um lífeyrismál opinberra starfsmanna og ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig hugsar hann sér að sú niðurstaða rími við hugmyndir ríkisstjórnarinnar um allsherjarbreytingar á lífeyrissjóðalöggjöfinni sem greinilegt er að ríkisstjórnin ætlar að knýja fram á vordögum?

Ég hef margra spurninga að spyrja hæstv. ráðherra, varðandi hitt málið, þ.e. Brunabótafélagsmálið og Landsbankamálið. Ég hef ekki tíma til að fara yfir þær en ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga:

Telur hann hugsanlegt að Búnaðarbankinn muni í framhaldi af þessari niðurstöðu efna til samvinnu við önnur tryggingafélög um lífeyrissjóði eða lífeyristryggingar af einhverju tagi og þar með sé staðan í raun og veru orðin sú að samkeppnin á Íslandi sé ekki á milli einkaaðila heldur tveggja tiltölulega mjög sterkra ríkisfyrirtækja? (Forseti hringir.)

Og að lokum, herra forseti, telur hæstv. fjmrh. líklegt að Brunabótafélagið, forríkt félag eftir skamma stund, muni nota auðæfi sín til að kaupa hlutabréf í Landsbankanum?