1997-03-18 16:10:39# 121. lþ. 92.95 fundur 258#B áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á lífeyriskerfinu og kaup Landsbankans á 50% hlut í Vátryggingafélagi Íslands hf.# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:10]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það er ljóst af svörum hæstv. fjmrh. fyrir hönd forsrh. að vinnubrögðum varðandi lífeyrismál er mjög ábótavant. Að menn skuli ætla sér að setja hér upp nýtt kerfi í sambandi við lífeyrismál án þess að ræða það á réttum vettvangi, það er ósvinna. Hins vegar bendi ég á varðandi málið í heild að ríkisvaldið hér á landi er stærsti aðilinn á fjármagnsmarkaði, stærstur í Vestur-Evrópu, var stærstur og verður enn stærri. Það er verið að auka ríkisreksturinn á fjármagnsmarkaði en ráðherra sagði ekkert um hvort það yrðu stefnubreytingar í frumvörpunum sem lægju frammi. Hann boðaði engar breytingar í kjölfar þessara atburða helgarinnar. Hann sagði að auðvitað gæti þetta tekið breytingum í meðförum þingsins þar sem ekki á að draga úr því ferli sem kveðið er á um í frv. um að selja 35% hlut í Landsbanka og Búnaðarbanka án tryggingar á dreifðri eignaraðild.

Ég vil vekja athygli á þeirri hugmynd okkar jafnaðarmanna sem við vörpuðum fram hvort ekki ætti að reyna að fá erlenda eignaraðila í annan ríkisviðskiptabankann, dreifa síðan hlutabréfum ríkisins milli fjárráða Íslendinga. Þá fengi fólkið bæði dreifða eignaraðild og fólkið fengi sjálft eign sína en hún væri ekki reyrð í fjötra helmingaskiptakerfis stjórnarflokkanna. Ég held að þessa hugmynd ætti að ræða ítarlega. Ég vil hins vegar benda á, herra forseti, gagnrýnin ummæli bæði Árna Mathiesens og Einars Kristins Guðfinnssonar og ég tek undir tillögu hans að Ríkisendurskoðun verði falið að skoða útreikningana á eiginfjárhlutfallinu. Hér eru mjög skrýtnir útreikningar og rökstuðningur á ferðinni þó að vægt sé að orðið kveðið og það mál verður vafalítið tekið upp í hv. efh.- og viðskn. Það eru deilur um eignarhald á Brunabótafélagi Íslands og það er eins gott að menn undirbúi sig þá undir þá umræðu sem hlýtur að fara í gang varðandi þann þátt. Hver á Brunabótafélagið? Hver á að stýra því og ef á að greiða út þennan eignarhluta, þá til hvaða aðila? (Forseti hringir.) En ég vil spyrja hæstv. ráðherra að lokum, hann sagðist hafa vitað af þessu máli. Vissu ráðherrar Framsfl. af þessu máli áður en kaupin voru gerð?