Stimpilgjald

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 17:17:49 (4614)

1997-03-18 17:17:49# 121. lþ. 92.15 fundur 386. mál: #A stimpilgjald# (kaupskip) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[17:17]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er mjög áhugavert mál sem hér er til umræðu. Það sjóslys sem varð hér við land fyrir skömmu vakti okkur enn einu sinni til umhugsunar um þessi mál. Á því skipi voru margir erlendir sjómenn, sem reyndar náðist ekki einu sinni að ræða við, og umræða hófst enn á ný í þjóðfélaginu um það hvers vegna skip, sem menn telja að séu á vegum okkar eigin skipaútgerða, séu í raun og veru undir öðrum fánum.

Hér flytur þingmaðurinn sín rök fyrir því að breytingar á lögum um stimpilgjald, og þar með heimildir til að fella niður stimpilgjöld af kaupsamningum, veðböndum og afsölum, séu veigamikill þáttur í því að afstýra því að menn séu með skipin undir öðrum fána. Þess vegna langar mig að spyrja þingmanninn að því hvort það sé rangt hjá mér að ég hef talið, miðað við málflutning manna um þessi skip og það sem við höfum kynnst þegar tekin eru viðtöl við þá sem á þessum skipum starfa, að þetta er fólk af erlendi bergi brotið og oft gefið til kynna að það starfi á skipum við allt önnur kjör heldur en þekkist hjá okkur. Ég hef af einhverjum orsökum fengið það á tilfinninguna að mesti vandi okkar þarna sé vandi sem reyndar á eftir að ógna okkur í enn ríkari mæli, að mínu mati, en það er ,,samkeppni`` af hálfu þeirra sem ráða sig til starfa eða starfa að framleiðslu á svo lágum launum að fyrir okkur væri það óhugsandi. Við vitum að í sumum heimshlutum eru mánaðarlaunin kannski 100 dollarar og það er oft gefið til kynna að fólk sem ráðið er á þau skip sem eru í rekstri undir erlendum fánum sé á allt öðrum kjörum heldur en það mundi vera ef skip væri gert út héðan, undir okkar fána, með okkar reglum og fólk væri með þau laun sem við teljum eðlileg og sjálfsögð.

Ég missti af hluta af ræðu þingmannsins þannig að nú má vel vera að hann hafi einmitt komið inn á launamálin, og hverjir það eru sem ráða sig á slík skip. En mér finnst mjög mikilvægt að heyra hvað hann hefur að segja um þennan þátt, hvort launamálin séu ekki a.m.k. einhver meðvirkandi þáttur þess hvort skip eru skráð undir íslenskum fána eða erlendum og sú krafa okkar að borguð séu mannsæmandi laun á Íslandi.