Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 18. mars 1997, kl. 18:00:15 (4623)

1997-03-18 18:00:15# 121. lþ. 92.21 fundur 390. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# þál., Flm. PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[18:00]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um endurskoðun á ákvæðum laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996. Tillagan er á þskj. 684 og hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að skipa nefnd eða fá nefnd á vegum sjávarútvegsráðuneytisins, sem þegar hefur verið skipuð, til að endurskoða ákvæði laga um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996.

Sérstaklega verði skoðað ákvæði 3. gr. með það í huga hvort ekki sé rétt að skipstjóri geti ákveðið við löndun hve mikinn hluta afla skips skuli telja til kvóta þess og að allur annar afli skipsins teljist eign rannsóknastofnana sjávarútvegsins. Útgerðin sjái þá um að selja afla rannsóknastofnana og greiða þeim söluverðmætið að frádregnu gjaldi vegna kostnaðar við flutning í land, geymslu, löndun og sölumeðferð aflans.``

Herra forseti. Miklar umræður hafa átt sér stað um málefni sjávarútvegsins hér á Alþingi. Er það að vonum. Umræðan hefur snúist um tilhögun veiða, þó aðallega um eignarhald á kvóta. Með tilhögun veiða er hér átt við hvort nota skuli aflamark eða sóknarmark við takmörkun veiða. Hvort tveggja kerfið hefur kosti og galla og hvort tveggja kerfið veldur myndun fjármuna hvort sem þeir verða til sem verð fyrir að mega veiða í klukkutíma eða verð fyrir að mega veiða eitt kíló. Eignarhald á þessum fjármunum er meginástæða mikillar umræðu um kvótakerfið en það er ekki til umræðu hér og nú.

Galli sóknarmarkskerfisins er t.d. mikill og hættulegur sóknarþungi. Galli aflamarkskerfisins er m.a. brottkast afla. Þegar skipstjórnarmenn mega aðeins veiða ákveðið magn af fiski hljóta þeir að hafa tilhneigingu til að koma bara með verðmætasta fiskinn að landi. Henda legnum fiski, skemmdum fiski og smælki. Eins er mjög erfitt að gera ráð fyrir að skip eigi ætíð kvóta fyrir öllum mögulegum og ómögulegum meðafla sem getur komið upp með veiðarfærum.

Miklum sögum fer af brottkasti afla. En eðli málsins samkvæmt er ómögulegt að henda reiður á þeim sögum. Fólk hefur giskað á 50 þús. tonn og jafnvel 100 þús. tonn. Ég hygg þó að brottkast sé miklu minna. Ljóst er þó að um mikil verðmæti er að ræða og því er brýnt að setja reglur sem lágmarka tjón þjóðarinnar af þessum sökum.

Herra forseti. Reglur þurfa að vera þannig að skipstjórnarmenn og sjómenn hafi hvata til að koma með allan afla að landi og að hagsmunir þeirra og heildarinnar fari saman. Núna er sjómönnum skylt að koma með allan afla að landi en þeir verða að kaupa til þess kvóta sem er svo dýr að útgerðin tapar á því. Til þess að leysa þennan vanda kom ég á síðasta þingi eftirfarandi reglum til hv. sjútvn. og flutti hv. þm. Sighvatur Björgvinsson um þær tillögur á síðasta þingi en þær fengu ekki stuðning. Ég var þá á móti tillögum hv. þm., þ.e. mínum eigin tillögum, vegna þess að þær voru ekki ræddar af þeim aðilum sem gerst þekkja til.

Herra forseti. Tillögurnar eru eftirfarandi:

,,Lagt er til að tekið verði til sérstakrar skoðunar hvort ekki sé rétt að breyta lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996, með það að markmiði að sú regla verði tekin upp að skipstjóri ákvarði hve mikill hluti afla skips teljist til kvóta þess og að allur annar afli teljist eign rannsóknastofnana sjávarútvegsins. Þetta yrði þá í samræmi við ákvæði 1. mgr. 2. gr. laganna því að ekki er unnt að skylda sjómenn til þess að koma með allan afla að landi nema tekið sé á því hvað um þann afla verður.

Gera má ráð fyrir að útgerðinni verði greitt upp í kostnað við að flytja aflann, landa honum og sjá um sölu hans. Með þessu fyrirkomulagi yrðu minni líkur á að afla yrði hent. Flestum finnst slæmt að henda góðum fiski sem slæðist eðlilega með í mismiklu magni. Sá fiskur sem núna er veiddur og hent mun skila sér í land þar sem nú er beinlínis refsivert að koma með hann að landi. Ekki á að koma fólki í þá aðstöðu að verða að brjóta lög.

Gjaldið, sem útgerðin fær fyrir að flytja aflann, landa honum og sjá um sölu hans, gæti hugsanlega verið á bilinu 5--15% og mætti vera ákveðið af ráðuneytinu með hliðsjón af tegund afla, veiðum og framboði slíks afla. Mikilvægt er að gjaldið verði nægilega hátt til þess að hvetja sjómenn til þess að koma með aflann að landi en þó ekki svo hátt að sjómenn fari að gera út á þann afla.

Fernt mun hvetja sjómenn til þess að koma með utankvótaafla að landi. Í fyrsta lagi fara þeir með því að lögum [og það þykir flestum gott], í öðru lagi fá þeir nokkurt verð fyrir aflann [reyndar mjög lítið], í þriðja lagi þykir flestum leitt að henda verðmætum [það er sennilega það atriði sem vegur þyngst] og að síðustu rennur verðmæti aflans til rannsókna fyrir sjávarútveginn [þ.e. kemur sjómönnum óbeint til góða]. Þessi aðferð hefur kosti og galla. Búast má við að miklu meiri afli berist að landi. Bæði mun allur sá afli sem nú er hent berast að landi, sem að sjálfsögðu er mikill kostur því að þessi fiskur er deyddur hvort sem er, en jafnframt munu útgerðir ekki forðast, eins og núna, þau mið sem mest gefa af bönnuðum meðafla, t.d. af þorski. Þannig munu utankvótaveiðar aukast eitthvað. Að sjálfsögðu er það galli en á móti kemur að allur þessi afli kemur þjóðfélaginu í heild til góða. Auk þess verður vitað með meiri vissu hve mikið er veitt en það liggur ekki fyrir í dag [eins og hugleiðingar manna um brottkast segja til um]. Verðmæti utankvótaaflans mun auk þess verða lyftistöng fyrir sjávarrannsóknir og létta byrðum af ríkissjóði.

Einnig er rétt að skoða ákvæði 9. gr. um undirmálsfisk. Ákvæði gildandi laga um að undirmálsfiskur teljist aðeins að hluta með í aflamarki verður óþarft ef framangreind atriði verða tekin til skoðunar og samþykkt.``

Herra forseti. Að lokinni umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og sjútvn.