Húsaleigubætur

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 13:58:49 (4637)

1997-03-19 13:58:49# 121. lþ. 93.1 fundur 375. mál: #A húsaleigubætur# fsp. (til munnl.) frá félmrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[13:58]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn til félmrh. um húsaleigubætur frá Svanfríði Jónasdóttur. Fyrirspurnin hljóðar svo:

1. Hvað líður endurskoðun laga um húsaleigubætur og er endurskoðunin í anda þeirra hugmynda sem ráðherra hefur lýst, þ.e. að húsaleigubætur verði verkefni sveitarfélaga, það verði skylda allra sveitarfélaga að bjóða upp á húsaleigubætur og húsaleigubætur gangi ,,út yfir allt leiguhúsnæði og líka leiguhúsnæði í eigu sveitarfélaganna``?

2. Hefur náðst samkomulag við sveitarfélögin um hvaða verkefni ríkið yfirtekur á móti ef húsaleigubætur verða verkefni sveitarfélaganna einna?

Virðulegi forseti. Lögin um húsaleigubætur voru sett árið 1994 og tóku gildi 1. janúar 1995, en í þeim var ákvæði um endurskoðun innan tveggja ára. Nefnd sem skipuð var í ársbyrjun 1995 skilaði af sér í lok nóvember það ár og það er fróðlegt að skoða hvað nefndin segir um reynsluna af húsaleigubótakerfinu, með leyfi forseta:

,,Húsaleigubætur hafa sannarlega verið tekjulágum leigjendum til hagsbóta``, segir í nefndarálitinu ,,og haft áhrif til framfara á leigumarkaði. Um 70% bótaþega eru undir skattleysismörkum og 86% íbúða eru þriggja herbergja og minni. Flest bendir til að greiðsla húsaleigubóta sé skilvirk aðferð við að aðstoða tekjulága leigjendur og hafi í mörgum tilvikum kosti fram yfir þá leið sveitarfélaganna að leigja út íbúðir gegn leigugjaldi langt undir kostnaðarverði.`` --- En við þekkjum öll að slíkt hefur verið það almenna í leigustuðningi sveitarfélaganna frá því að húsaleigubætur voru teknar upp. --- ,,Nefndin telur grundvallaratriði að allir landsmenn eigi sama rétt til húsaleigubóta óháð því hvar í sveit þeir búa. Það sama á við um leigjendur hjá sveitarfélagi og ríki. Öll þau sveitarfélög sem ákváðu að greiða húsaleigubætur á árinu 1995 og fengu umsóknir um bætur hafa tekið ákvörðun um að halda áfram greiðslu bóta á árinu 1996.``

Þetta er sagt í árslok 1995. Flestir telja að lögin séu bæði skýr og auðveld í framkvæmd og samstarf ríkis og sveitarfélaga um framkvæmdina hefur gengið vel og án vandamála. Í samantekt nefndarinnar um áhrif laganna kemur fram að sveitarfélögin telja að dregið hafi úr eftirspurn eftir félagslegum íbúðum og krafa um þinglýsingu hafi bæði girt fyrir misnotkun á kerfinu og rennt traustari stoðum undir samskipti leigjenda og leigusala.

Ráðherrann hefur sagt á Alþingi í umræðu um húsnæðismál að nú verði lögum samkvæmt að endurskoða lögin um húsaleigubætur og segir, með leyfi forseta:

,,Ég hef haft áhuga á því að koma þeim yfir á sveitarfélögin. Ég veit ekki hvort það gengur upp. Í öllu falli getum við ekki haft húsaleigubótakerfið eins og það er, þ.e. mér finnst það ekki geta verið valfrelsi sveitarfélaganna hvort þau taki það upp. Annaðhvort verður það að vera alls staðar eða ekki. Í öðru lagi finnst mér að það ætti að ganga út yfir allt leiguhúsnæði, líka leiguhúsnæði í eigu sveitarfélaganna.`` Og nú spyr ég ráðherrann hvað hann hyggist gera í þessum málum og hvort hann standi við þessi orð.