Húsaleigubætur

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 14:07:39 (4639)

1997-03-19 14:07:39# 121. lþ. 93.1 fundur 375. mál: #A húsaleigubætur# fsp. (til munnl.) frá félmrh., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:07]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hæstv. félmrh. að húsaleigubæturnar hafa sannað gildi sitt og það er ljóst af framkvæmdinni að það hefur ekki gengið eftir sem sveitarfélögin settu þó fyrir sig varðandi það að taka upp húsaleigubætur, að hér væri um svo flókið og óskilvirkt kerfi að ræða að framkvæmdin mundi ekki ganga eftir. Það er staðfest í skýrslu frá félmrh. 1995, en þar kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Framkvæmdin hefur gengið vel og engin stórvægileg vandamál komið í ljós. Samstarf ríkis og þeirra sveitarfélaga sem hafa tekið þátt í þessu verkefni hefur verið með ágætum.``

Þetta eru líka þær bestu kjarabætur sem um hefur verið að ræða í langan tíma fyrir láglaunafólk.

Það er auðvitað óþolandi en því varð að sæta á sínum tíma að mismunandi er hvort sveitarfélögin greiða húsaleigubætur eða ekki. Þannig getur verið t.d. í Kópavoginum, þar sem ekki eru greiddar húsaleigubætur, að þeir sem eru á almenna markaðnum hafi 15 þús. kr. minna til ráðstöfunar en þeir sem eru í Reykjavík. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort við megum vænta þess að þetta frv. verði lagt fram núna þannig að hægt sé að afgreiða það á vorþinginu vegna þess að undirbúningurinn að framkvæmdinni sem á að taka gildi um næstu áramót tekur nokkurn tíma.