Úthlutunarreglur dreifbýlisstyrkja

Miðvikudaginn 19. mars 1997, kl. 16:08:28 (4689)

1997-03-19 16:08:28# 121. lþ. 93.11 fundur 430. mál: #A úthlutunarreglur dreifbýlisstyrkja# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[16:08]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurt er: Hve miklum peningum hefur verið varið árlega í dreifbýlisstyrki fyrir framhaldsskólanemendur á síðustu tíu árum?

Fjárveitingar til jöfnunar námskostnaðar nema alls liðlega 900 millj. kr. á árabilinu 1988--1997. Þar er annars vegar um styrk til einstaklinga að ræða vegna námskostnaðar og hins vegar um skólaakstursstyrk til þess að stunda skólaakstur.

Þessar fjárhæðir hafa hækkað jafnt og þétt frá árinu 1990, en mest verður hækkunin milli áranna 1996 og 1997, þ.e. fjárlagaársins í fyrra, þegar fjárhæðin var 111 millj. 500 þús. kr. og hækkar í ár upp í 136 millj. 600 þús. kr. eða um 25 millj. kr. Það er mesta einstaka hækkunin milli ára frá því að þessi tilhögun kom til sögunnar árið 1988.

Spurt er eftir hvaða úthlutunarreglum sé farið.

Í 2. gr. laga frá 1989, um jöfnun námskostnaðar, koma fram grundvallarreglur um hverjir teljist styrkhæfir. Og 2. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Réttar til námsstyrkja samkvæmt lögum þessum njóta íslenskir nemendur sem stunda reglubundið framhaldsnám hér á landi og verða að vista sig utan lögheimilis og fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins, enda sé ekki unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili eða öðrum dvalarstað sem námsstyrkjanefnd metur jafngildan. Eigi skulu þeir njóta styrks er eiga rétt til láns úr Lánasjóði íslenskra námsmanna eða njóta hliðstæðrar fyrirgreiðslu.``

Í 3. gr. laganna er fjallað um hvaða styrkir skuli veittir, þ.e. reglubundnir styrkir eru fæðisstyrkir, sem ganga til allra styrkhæfra nemenda, húsnæðisstyrkir sem veittir eru nemendum sem ekki eiga kost á heimavist, og ferðastyrkir, en þeir eru veittir nemendum sem verulegan ferðakostnað bera vegna búsetu sinnar.

Menntamálaráðherra skipar fimm manna nefnd til að úthluta til styrkhæfra nemenda. Auk þess að ákveða upphæð styrkja ár hvert verður námstyrkjanefnd að meta hvað telst sambærilegt nám á grundvelli 2. gr. laganna og hliðstæð álitamál sem upp koma.

Í þriðja lagi er spurt: Njóta nemendur, sem búa í mestri fjarlægð frá framhaldsskólum, sérstöðu þegar til úthlutunar kemur?

Samkvæmt 3. gr. laganna skal veita ferðastyrki til þeirra nemenda sem verulegan ferðakostnað bera vegna búsetu sinnar. Veittur er ferðastyrkur til þess skóla sem næstur er lögheimili styrkþega og telst bjóða sambærilegt nám. Eðli málsins samkvæmt njóta þeir hæstu ferðastyrkja sem lengst þurfa að fara frá lögheimili sínu til að geta lagt stund á viðkomandi nám. Fjarlægð frá heimili hefur hins vegar hvorki áhrif á upphæð fæðisstyrks né húsnæðisstyrks. Hún hefur áhrif á ferðastyrkinn.

Í fjórða lagi er spurt: Er á döfinni að breyta úthlutunarreglunum? Ef svo er, þá hvernig? Það eru ekki uppi nein áform í ráðuneytinu um grundvallarbreytingu á lögunum um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði en þau þurfa náttúrlega eins og önnur löggjöf að vera í sífelldri endurskoðun og til athugunar. Það hafa m.a. komið fram ábendingar um ákveðna skörun milli úthlutunarreglna Lánasjóðs ísl. námsmanna og þess fortakslausa ákvæðis sem nú er í 2. gr. laganna um námskostnað og verða þau mál tekin til sérstakrar athugunar. En í stuttu máli er ekki á döfinni að gjörbreyta þessu kerfi enda held ég í sjálfu sér að menn gagnrýni ekki kerfið sem slíkt heldur telji að fjárveitingar séu of naumt skammtaðar til þess að koma til móts við nemendur. En eins og ég sagði þá hefur hækkunin milli ára aldrei verið meiri en nú frá síðasta ári og þessu, um 25 millj. kr. En á hitt ber líka að líta að við höfum verið að byggja upp framhaldsskólakerfið mjög rösklega um land allt og nú eru starfandi framhaldsskólar í öllum kjördæmum og fleiri en einn í sumum þannig að að því leyti hefur aðstaða einnig breyst. Ég tel að þetta styrkjamál sé réttlætismál sem beri að hafa í huga og lagði þess vegna áherslu á það við afgreiðslu fjárlaga að þessar fjárhæðir hækkuðu sem Alþingi samþykkti og ber að þakka það. En eflaust má betur gera á þessu sviði eins og öðrum því hér er um mikilvægt mál fyrir hinar dreifðu byggðir að ræða eins og fram kom í máli hv. þm.