Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 10:36:09 (4701)

1997-03-20 10:36:09# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[10:36]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga sem heimili ríkisstjórninni og iðnaðarráðherra að semja við Columbia Ventures Corporation (Columbia) eða aðra aðila um nýtt álver á Grundartanga í Skilmannahreppi og Hvalfjarðarstrandarhreppi í samræmi við ákvæði frumvarpsins. Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er veitt heimild til að semja við aðila um stofnun hlutafélags hér á landi til að reisa og reka álver sem verði í upphafi byggt til framleiðslu á um það bil 60.000 tonnum af áli á ári. Kveðið er á um að hlutafélagið verði stofnsett og starfi samkvæmt ákvæðum íslenskra laga, þar með töldum ákvæðum frumvarpsins.

Í öðru lagi er kveðið á um heimildir ríkisstjórnarinnar til að tryggja efndir af hálfu hreppsnefndanna tveggja, Hvalfjarðarstrandarhrepps og Skilmannahrepps, og hafnarsjóðs Grundartangahafnar.

Í þriðja lagi er kveðið á um skattlagningu vegna reksturs álversins en hún verður í meginatriðum í samræmi við íslensk skattalög en með nokkrum sérákvæðum er helgast af sérstöðu fyrirtækisins.

Í fjórða lagi er kveðið á um lögsögu íslenskra dómstóla, en í sérstökum tilvikum um stað gerðardóms. Einnig að íslensk lög verði ráðandi um túlkun og skýringu samninga um nýtt álver.

Áður en ég geri nánari grein fyrir einstökum ákvæðum frv. vil ég fara yfir aðdraganda málsins. Á vegum íslenskra stjórnvalda hafa á síðustu rúmlega tveimur árum farið fram athuganir á aukinni álframleiðslu á Íslandi með því að reisa tiltölulega lítið álver sem nýtir tækni frá þýska álfyrirtækinu Vereinigte Aluminium Werke (VAW) í Töging í Þýskalandi til Íslands. Hagkvæmniathuganir bentu til að slíkt álver gæti orðið arðsamt, jafnframt því sem það gæti hentað vel íslenskum þjóðarbúskap og orkuöflun. Vorið og sumarið 1995 voru þessar hugmyndir kynntar nokkrum erlendum aðilum, m.a. Columbia Aluminium Corporation. Fyrirtækið ákvað að kanna þessa hugmynd nánar og síðari hluta árs 1995 bar það saman hagkvæmni þess að reisa slíkt álver á nokkrum stöðum, einkum þó í Venesúela og á Íslandi. Fulltrúar Columbia komu til Íslands í september og aftur í október 1995 og kynntu sér aðstæður. Farið var yfir ýmsa staði sem talið var að gætu komið til greina, m.a. Grundartanga, enda lágu fyrir óskir heimamanna um að erlendum aðilum yrði kynnt það svæði. Niðurstaða fyrirtækisins varð sú að Grundartangi hentaði best áformum þess og réð góð hafnaraðstaða þar miklu.

Í framhaldi af könnunarviðræðum ákvað Columbia í byrjun september á sl. ári að hefja viðræður um að reisa álverið hér landi. Ákvörðun Columbia byggðist m.a. á eftirfarandi:

1. Í fyrsta lagi lá fyrir svæðisskipulag (aðalskipulag) fyrir sveitarfélögin sunnan Skarðsheiðar sem samþykkt hafði verið af umhverfisráðherra 26. apríl 1994. Í skipulaginu er gert ráð fyrir auknum orkufrekum iðnaði á Grundartanga.

2. Góð hafnaraðstaða er á Grundartanga.

3. Það yrði fallist á byggingu álvers á Grundartanga með tilteknum skilyrðum.

4. Vinna við gerð starfsleyfistillagna var hafin.

5. Ríkissjóður hafði keypt hluta af landi jarðarinnar Vestra-Kataness sem fyrirhugað álver mun nýta.

6. Fyrir lá hvernig mætti mæta orkuþörf álversins.

Ég vil nú gera nokkra grein fyrir fyrirtækinu Columbia Ventures Corporation. Fyrirtækið var stofnað sem eignarhaldsfélag árið 1988 af Columbia Aluminium Corporation sem nú er í eigu Kenneths Petersons. Columbia hefur reist fimm úrvinnslufyrirtæki auk tveggja endurvinnslna. Auk þess á Columbia markaðs- og sölufyrirtæki. Samtals er framleiðslugeta þessara fyrirtækja rúmlega 50 þús. tonn af álvörum á ári. Fyrirtækin hafa sérhæft sig í höndlun og sölu áls, lökkun og ýmiss konar úrvinnslu og þess háttar. Fyrirtæki Columbia geta samtals endurunnið um 90 þús. tonn af áli á ári.

Þar sem Columbia er hlutafélag í einkaeign og ekki skráð á hlutabréfamarkaði er bókhald fyrirtækisins ekki opinbert, en upplýst hefur verið að eigið fé, sem að verulegu leyti er yfir veltufjármuni, sé vel á annað hundrað milljónir dollara og eiginfjárhlutfall yfir 90%. Fyrirtækið á því að vera vel í stakk búið til að ráðast í byggingu álvers á Grundartanga. Sala fyrirtækisins er áætluð um 12 milljarðar á ári. Starfsmenn eru 750.

Ég vil nú gera nokkra grein fyrir álveri því sem fyrirhugað er að reist verði á rúmlega 80 hektara svæði af landi úr jörðunum Klafastöðum í Skilmannahreppi og Katanesi í Hvalfjarðarstrandarhreppi. Það verður, eins og þegar er komið fram, búið rafgreiningartækni frá þýska álfyrirtækinu VAW og er gert ráð fyrir að það muni framleiða um 60 þús. tonn af hrááli á ári í upphafi. Unnt er að auka framleiðslu álversins síðar og er í því mati á umhverfisáhrifum og starfsleyfistillögum miðað við 180 þús. tonna framleiðslu á ári. Columbia hefur gert samning við þýska fyrirtækið varðandi ráðgjöf í tæknilegum málum sem tryggir að þýska fyrirtækið muni veita álverinu þjónustu bæði við uppsetningu á búnaði, sem keyptur var frá því fyrirtæki, sem og við gangsetningu.

Fjárfestingarkostnaður við að reisa 60 þús. tonna álver er áætlaður rúmlega 11 milljarðar kr. Árlegt útflutningsverðmæti er um 100 millj. Bandaríkjadala sem jafngildir um 7 milljörðum kr. miðað við gengi í febrúar 1997 og álverð miðað við 1.650 dollara á tonn. Gert er ráð fyrir að 110--135 starfsmenn muni starfa við álverið í upphafi en líklegt er að þeim muni fjölga í um 150 innan fárra missira. Þessir starfsmenn munu fá greidd hærri laun en gengur og gerist á vinnumarkaðnum eins og glöggt hefur komið fram í gögnum og könnunum kjararannsóknarnefndar.

Columbia hefur tryggt sér aðföng vegna framleiðslunnar, sem og sölu á hrááli sem framleitt verður í álverinu með samkomulagi við traust fyrirtæki. Þrátt fyrir að álverið muni einungis framleiða um 60 þús. tonn af áli í upphafi sýna útreikningar að það muni geta staðið sig mjög vel í samkeppni við nýleg álver. Þar ræður miklu að stofnkostnaður er um 25% lægri en að meðaltali í álverum sem reist hafa verið á síðustu tíu árum. Jafnframt eru samningar við birgja hagkvæmir. Rekstrargrundvöllur álversins er því tryggður.

Ég mun nú fjalla stuttlega um umhverfismál en vísa að öðru leyti til ítarlegrar umfjöllunar í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum. Miklar breytingar hafa verið gerðar á löggjöf á sviði umhverfismála á síðustu árum. M.a. hafa verið sett lög um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál og lög um mat á umhverfisáhrifum. Með þessum breytingum hefur almenningi verður veittur greiðari aðgangur að upplýsingum um umhverfismál. Jafnframt er almenningi gefinn kostur á að kynna sér framkvæmdir og gera athugasemdir áður en ákvarðanir eru teknar um framkvæmdir sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.

Undirbúningur álvers á Grundartanga hefur farið fram í samræmi við gildandi löggjöf og hefur almenningur átt þess kost að hafa áhrif á undirbúningsstigi.

Eftir að fulltrúar Columbia höfðu komist að þeirri niðurstöðu að þeir mundu óska eftir að reisa álverið á Grundartanga, ef ákveðið yrði að það yrði byggt á Íslandi, var málið kynnt fyrir fulltrúum sveitarfélaga sunnan Skarðsheiðar á fundi sem Markaðsskrifstofa iðnrn. og Landsvirkjunar boðaði til og haldinn var á Akranesi 5. október 1995. Í framhaldi af þessum fundi var ákveðið að vinna að frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs álvers í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum og reglugerð. Lögformlegum umsagnaraðilum voru send bréf og þeim gefið tækifæri til að gera athugasemdir þegar í upphafi við vinnu að matinu. Jafnframt var haldinn fundur með fulltrúum aðliggjandi sveitarfélaga þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir voru kynntar. Þær voru enn fremur kynntar á borgarafundi áður en tilkynning um fyrirhugað álver var send skipulagsstjóra ríkisins 14. des. 1995 ásamt skýrslu um mat á umhverfisáhrifum.

[10:45]

Skipulagsstjóri kvað upp úrskurð 19. feb. 1996 þar sem fallist var á byggingu álvers á Grundartanga með tilteknum skilyrðum. Úrskurður skipulagsstjóra var kærður til umhvrh. sem kvað upp úrskurð 20. júní 1996 þar sem úrskurður skipulagsstjóra ríkisins var staðfestur með nokkrum breytingum.

Í lok árs 1995 var sótt um starfsleyfi til Hollustuverndar ríkisins fyrir álver á Grundartanga miðað við 180 þús. tonna framleiðslu á ári. Starfsmenn Hollustuverndar unnu að gerð starfsleyfistillagna í samræmi við ákvæði mengunarvarnareglugerðar. Auglýsing um starfsleyfistillögurnar var birt 6. nóv. 1996 og áttu tillögurnar upphaflega að liggja frammi til kynningar til 23. des. 1996, en frestur til að skila skriflegum athugasemdum var síðan framlengdur til 13. janúar á þessu ári.

Hinn 9. janúar 1997 hélt heilbrigðisnefnd Akranessvæðisins opinn fund í Heiðarborg í Leirár- og Melahreppi um starfsleyfistillögurnar. Alls bárust Hollustuvernd ríkisins 54 athugasemdir (margar þeirra samhljóða) við tillögurnar. Starfsmenn stofnunarinnar unnu úr athugasemdum og stjórn Hollustuverndar samþykkti á fundi 21. feb. 1997 starfsleyfistillögu sem send hefur verið til umhverfisráðherra sem gefur út starfsleyfi fyrir fyrirtæki af þeirri stærð sem hér um ræðir. Jafnframt hefur stofnunin gert þeim sem sendu inn athugasemdir grein fyrir niðurstöðu sinni.

Vil ég nú víkja að samningum þeim sem gerðir hafa verið vegna álvers.

Samkomulag við Columbia og hlutafélag þess, Norðurál hf., um álbræðslu á Grundartanga felur í sér fjóra samninga, þ.e. fjárfestingarsamning, lóðarsamning, hafnarsamning og rafmagnssamning. Samningar þessir munu að stofni til byggja á sömu grundvallaratriðum en í hafnarsamningi eru nokkur ákvæði með öðrum hætti en í hinum samningunum. Samningarnir eru í upphafi miðaðir við 20 ára rekstur, en gert er ráð fyrir framlengingu þeirra og er kveðið á um að aðilar skuli áður en um þrjú ár eru eftir af samningstímanum hafa lokið viðræðum um framlengingu í ekki minna en 10 ár. Ákvæði í lóðarsamningi tryggir þó hlutafélaginu einhliða rétt til að framlengja samninginn.

Ég mun nú lýsa þessum samningum í örstuttu máli en nánari lýsingu á þeim er að finna í fylgiskjölum með frv.

Í fyrsta lagi verður gerður fjárfestingarsamningur milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og Columbia og hlutafélags, sem það hefur stofnað hér á landi, Norðuráls hf., hins vegar. Í samningnum er m.a. að finna ákvæði um skattamál félagsins. Ólíkt fyrri samningnum um álframleiðslu og aðra stóriðju hér á landi er nú ekki samið um heildstæða sérmeðferð á sköttum félagsins heldur eru íslensk skattalög lögð til grundvallar og gilda um starfsemi félagsins með tilteknum frávikum sem nauðsynlegt var að gera. Þessi staðreynd er staðfesting á að ákvæði íslenskra skattalaga hafa verið að breytast í átt til samræmis við það sem almennt gerist í nálægum löndum.

Ástæðurnar fyrir því að taka þurfti ákvæði um skatta í samninga vegna þess félags sem hér um ræðir eru tvíþættar. Annars vegar var nauðsynlegt að tryggja hagsmuni íslenska ríkisins vegna sérstaks ákvæðis í íslenskum skattalögum um frádrátt arðs frá skattskyldum tekjum og hins vegar eiga ákvæði um smágjöld og markaða tekjustofna, svo og fasteignagjöld, illa við um stórfyrirtæki sem njóta takmarkaðrar þjónustu. Í athugasemdum við greinar frv. er gerð nánari grein fyrir skattlagningu fyrirtækisins og því að hvaða leyti hún víkur frá almennum ákvæðum skattalaga.

Í samningnum er gengið út frá því að farið verði að íslenskum lögum við uppbyggingu, túlkun og framkvæmd samninga sem gerðir verða innan ramma laganna. Heimild til að vísa ágreiningi til gerðardóms er víðtækari en tíðkast hefur í sambærilegum samningum. Er það í samræmi við þá þróun sem orðið hefur í viðskiptum og samningagerð við erlenda aðila.

Í öðru lagi verður gerður lóðarsamningur milli ríkissjóðs og Norðuráls hf. Samkvæmt samningnum leigir ríkissjóður hlutafélaginu rúmlega 80 hektara landspildu úr landi jarðanna Klafastaða og Kataness undir bræðsluna.

Í þriðja lagi verði gerður hafnarsamningur milli hafnarsjóðs Grundartangahafnar og Norðuráls hf. Samningurinn kveður m.a. á um rétt hlutafélagsins til að nota höfnina, hafnarlandið og hafnarmannvirki, og um greiðslur fyrir þessi not.

Í fjórða lagi rafmagnssamningur milli Landsvirkjunar og Norðuráls hf. Gert er ráð fyrir að raforkuþörf álversins verði 930 GWh á ári. Í samningnum mun hlutafélagið skuldbinda sig til þess að greiða Landsvirkjun fyrir stærstan hluta þessarar orku óháð því hvort fyrirtækið nýtir orkuna eða ekki. Miðað við að einum ofni verði bætt við hjá Íslenska járnblendifélaginu, svo og til að fullnægja hinni árlegu aukningu í raforkueftirspurn hins almenna markaðar, er gert ráð fyrir eftirtöldum framkvæmdum vegna orkuöflunar og orkuflutnings á vegum Landsvirkjunar: Stækkun Kröfluvirkjunar, aflaukningu í Búrfellsvirkjun, gerð Hágöngumiðlunar, byggingu Sultartangavirkjunar, Sultartangalínu 1 (Sultartangi -- Búrfell) og Búrfellslínu 3A (Búrfell -- Sandskeið).

Auk þessara framkvæmda mun Hitaveita Reykjavíkur reisa Nesjavallavirkjun og leggja háspennulínu frá Nesjavöllum að Korpu. Samtals er gert ráð fyrir að fjárfesting í orkumannvirkjum nemi um 22 milljörðum króna án vaxta á framkvæmdatíma.

Umsögn forstjóra og aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar varðandi fyrirhugaðan rafmagnssamning er í fylgiskjali með frv. Í henni kemur fram að áætlað er að núvirtur hagnaður af orkusölunni geti verið um 1.300 milljónir króna miðað við grundvallarforsendur en það svarar til um 6,8% innri vaxta að raungildi af nauðsynlegri fjárfestingu. Áætlað er að núvirtur hagnaður af orkusölunni til Norðuráls og járnblendifélagsins miðað við stækkun í einn ofn verði tæplga 1.800 millj. kr. sem svarar til 6,7% innri vaxta.

Herra forseti. Ég vil nú víkja nokkrum orðum að þjóðhagslegum áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda. Í athugasemdum með frv. er gerð grein fyrir mati Þjóðhagsstofnunar af áhrifum fyrirhugaðs álvers og virkjana, bæði á framkvæmdatíma og eftir að rekstur hefst. Þjóðhagsstofnun hefur jafnframt metið þjóðhagsleg áhrif byggingar álvers á Grundartanga með 60 þús. tonna framleiðslugetu á ári og aukningu á framleiðslugetu Íslenska járnblendifélagsins um 40 þúsund tonn á ári ásamt tengdum orkuframkvæmdum. Ég mun nú gera nokkra grein fyrir helstu forsendum við mat stofnunarinnar á þessum áhrifum.

Stofnunin ber saman tvö tilvik, þ.e. með og án þessara framkvæmda Helstu niðurstöður eru eftirfarandi: Gert er ráð fyrir að framkvæmdir standi yfir árin 1997--2000 og nái hámarki árið 1998. Alls er gert ráð fyrir að fjárfesting án vaxta á byggingartíma verði um 36 milljarðar kr. 11,6 milljarðar á þessu ári, 18,6 milljarðar á næsta og 5,8 milljarðar árið 1999. Til samanburðar var fjárfesting hér á landi árið 1996 um 91 milljarður kr.

Gert er ráð fyrir að ársverk við framkvæmdirnar verði alls um 1.600. Búist er við að þar verði að mestu um innlent vinnuafl að ræða. Um 530 ársverk falla til á þessu ári og 760 á því næsta. Eftir að rekstur er hafinn er gert ráð fyrir tæplega 180 ársverkum samanlagt í iðjuverunum og orkufyrirtækjunum eða um 0,13% af áætluðum heildarmannafla. Auk þess koma til afleidd störf.

Gert er ráð fyrir að iðjuverin verði bæði rekin á fullum afköstum árið 2000 og útflutningur þeirra nemi þá um 8,5 milljörðum kr. á ári eða 4,5% af heildarútflutningi vöru og þjónustu. Heildarútflutningur stóriðjuafurða áætlast þá vera um 15% af útflutningi í stað 11% nú.

Áhrifin á hagsveifluna á næstu 3--4 árum verða töluvert mikil ef af þessum verkefnum verður. Þannig aukast fjárfestingar í heild um 14% meira en ella á þessu ári og allt að 24% árið 1998. Hagvöxtur 1997 verður tæp 4% í stað rúmlega 2,5% eða 1,2% meira en ella. Áhrif fjárfestinganna fjara út árin 1999 og 2000. Þjóðhagsstofnun telur að varanleg heildaraukning landsframleiðslunnar vegna þessara framkvæmda verði um 1,1% eða sem svarar um það bil 5,5 milljörðum kr. á ári.

Vegna erlendra vaxta og arðgreiðslna verði áhrifin á þjóðarframleiðsluna minni en á landsframleiðsluna en með traustri hagstjórn á framkvæmdarskeiðinu telur stofnunin að varlega áætluð heildaraukning þjóðarframleiðslunnar geti orðið 0,7%.

Herra forseti. Samningar um nýtt álver á Grundartanga eru afar mikilvægir fyrir íslenskt atvinnulíf og þjóðarbúskap. Ég fullyrði að samningarnir um stækkun Ísals hafa rofið kyrrstöðuna sem ríkti fram á miðjan þennan áratug. Það er mikilvægt að áfram verði haldið og að erlend fjárfesting verði eðlilegur þáttur í efnahagslífinu. Stóriðja sem byggir á nýtingu orkulinda okkar er og á að vera ein af undirstöðum velmegunar í landinu. Ítarleg skoðanakönnun sem gerð var um miðjan sl. mánuð þegar raddir andstöðu við væntanlegar framkvæmdir risu hvað hæst sýnir ótvírætt að mikill meiri hluti þjóðarinnar er þessarar skoðunar.

Verkalýðsforinginn fyrrverandi, Guðmundur J. Guðmundsson, fjallaði um síðustu helgi um atvinnuleysi, virkjanir og náttúruvernd í ágætri grein í Morgunblaðinu. Í niðurlagi greinar sinnar segir Guðmundur, með leyfi forseta:

,,Við skulum ekki afskrifa náttúruvernd og við skulum taka mikið tillit til þeirra sjónarmiða en við verðum að nýta orkuna sem býr í fallvötnum landsins. Ef ekki er gengið rösklega til verks verður atvinnuleysi hlutskipti margra Íslendinga, það ömurlega hlutskipti verðum við að forðast.``

Ég tek undir þessi orð fyrrv. verkalýðsforingja sem oft hefur skynjað hjartslátt þjóðarsálarinnar betur en aðrir. Ég vil bæta við að reynsla okkar er að hærri laun eru greidd hjá stóriðjufyrirtækjum en gengur og gerist á markaðnum.

Herra forseti. Ég legg til að eftir 1. umr. verði frv. vísað til hv. iðnn. Þar munu öll nauðsynleg gögn sem hv. iðnn. óskar eftir verða lögð fyrir og þau gögn sem ekki fylgja með þessu frv.