Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 11:24:52 (4708)

1997-03-20 11:24:52# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[11:24]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gef náttúrlega ekki yfirlýsingu fyrir hönd iðnrh. eða umhvrh., það er fjarri mér, enda minntist ég ekki á það í þessu sambandi. Ég sagði einfaldlega að ég sæi ekki betur og það er mín skoðun að farið hafi verið í einu og öllu að íslenskum lögum í umfjöllun um málið. Ég get gjarnan upplýst hv. þm. um að til eru bréf, t.d. í iðnrn. frá því á þeirri tíð þegar kom til umræðu að reisa álverið á Keilisnesi, þar sem ráðherra er sérstaklega átalinn fyrir það af forsvarsmönnum sveitarfélaga sunnan Skarðsheiðar að hafa ekki valið því álveri stað á Grundartanga og honum tilkynnt meira að segja að þar sem hann hafi nú ekki sýnt meiri áhuga á staðsetningu miklu stærra álvers en nú er verið að tala um þar, þá muni forsvarsmenn sveitarfélaganna taka það mál í sínar hendur og fylgja því fram með því að fara sjálfir á vettvang og leita að aðila sem vildi koma með álver í þeirra sveitarfélag þannig að frá þeim tíma, fyrir mörgum árum, liggur fyrir mjög harðort og afdráttarlaust erindi þeirra sveitarfélaga sem í hlut eiga. Ég vildi gjarnan upplýsa hv. þm. um þetta.

Það að halda því fram að ég sé að gefa einhverjar yfirlýsingar fyrir hönd ráðherranna er fráleitt, en ég tel sjálfur að farið hafi verið í einu og öllu að íslenskum lögum í þessum efnum. En ég tel hins vegar einnig sjálfur að nauðsynlegt sé að breyta þeim lögum.