Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 11:28:48 (4710)

1997-03-20 11:28:48# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[11:28]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gagnrýni að sjálfsögðu ekki það að hv. þm. hafi skoðun sem er önnur en mín. Ég gagnrýni það ekki. En ég vil t.d. benda honum á að þegar núverandi skipulag sem gerir ráð fyrir svæði undir stóriðju við Hvalfjörð var undirbúið og aðilum sem hagsmuna áttu að gæta gafst kostur á að koma með athugasemdir, þá kom ekki ein einasta athugasemd um það mál, ekki ein einasta athugasemd. Og ég minni enn á það að fyrir liggur í iðnrn. mjög harðort erindi til að mótmæla því að iðnrh. hafi ekki beitt sér sérstaklega fyrir því að álver af þeirri stærðargráðu sem átti að reisa við Keilisnes yrði byggt á Grundartanga þannig að menn voru einfaldlega í góðri trú um að sátt væri í málinu þangað til nú fyrir nokkrum mánuðum. Menn voru í góðri trú um það. Auðvitað á að athuga og rannsaka og ganga úr skugga um að þær athugasemdir sem gerðar hafa verið hafi verið afgreiddar á eðlilegan hátt.

Ég verð engu að síður að segja að þetta er mín skoðun og ég hef fullt leyfi til að hafa hana eins og hv. þm. hefur fullt leyfi til að hafa gagnstæða skoðun. Ég er þeirrar skoðunar að íslenskum lögum hafi verið fylgt í málinu, en ég er líka þeirrar skoðunar að þessi lög séu gölluð og það þurfi að endurskoða þau. En hvort heldur eru ráðherrar eða aðrir almennir borgarar, þá er ekki hægt að fylgja öðrum lögum en þeim sem í gildi eru þó þau kunni að vera gölluð.