Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 11:50:49 (4712)

1997-03-20 11:50:49# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[11:50]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Við þann hluta ræðu hv. þm. sem sneri að raforkuverðinu vil ég gera örlitlar athugasemdir. Í fyrsta lagi er það ósk stjórnar fyrirtækisins að með raforkusamninginn verði farið sem trúnaðarmál og það er vegna samkeppnisástæðna sem það kemur til af hálfu stjórnar. Líkt og í samningnum um stækkun Ísals tel ég eðlilegt að iðnn. fjalli um það mál sérstaklega, sem ég býst fastlega við að verði gert. Varðandi þá fullyrðingu að verðið sé á mörkunum þá er ég ekki sammála því, herra forseti, og marka það af því að við höfum staðið í hörðum viðræðum og deilum um frv. til laga um breytingu á Landsvirkjun. Þar er sú krafa sett fram, og eignaraðilar fyrirtækisins náðu samkomulagi um hana, að arðsemi fyrirtækisins eigi að vera 5,5%. Það er það meginmarkmið sem menn stefndu að.

Það kom fram í ræðu minni áðan, og hefur áður komið fram í gögnum frá Landsvirkjun að samningarnir tveir um stækkun járnblendifélagsins við Columbia-fyrirtækið þýði að beinn arður Landsvirkjunar af þessum tveimur samningum er 6,8%. Með öðrum orðum: Arðurinn er 1,3% yfir því marki sem eignaraðilar fyrirtækisins settu sér og ef ég man rétt, það er nú ekki langt um liðið frá þeirri umræðu, töldu menn að þeir væru að gera býsna miklar kröfur um arðsemi til fyrirtækisins ef mönnum ætti að takast að lækka orkuverðið. Og út frá því göngum við hér nú, að þessir tveir samningar skapa fyrirtækinu meiri arð en við höfum þó ætlað að gera að meðaltali til fyrirtækisins í heild sinni.