Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 20. mars 1997, kl. 11:59:32 (4716)

1997-03-20 11:59:32# 121. lþ. 95.1 fundur 445. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[11:59]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Samningur sá sem hér er til umfjöllunar hefur bæði kosti og galla í för með sér. Hæstv. iðnrh. hefur lýst þjóðhagslegum áhrifum á okkar efnahagslíf sem virðast samkvæmt áliti Þjóðhagsstofnunar í heildina tekið vera jákvæð. Það er talað um verulega auknar fjárfestingar með járnblendinu upp á 36 milljarða kr. Hagvöxtur aukist um 1% og varanleg heildaraukning landsframleiðslunnar verði um sem svarar rúmum 4 milljörðum kr. Allt er þetta jákvætt. En ég sakna eins í áliti Þjóðhagsstofnunar og spyr um það hjá hæstv. ráðherra hvaða áhrif þessi samningur muni hafa á kaupmátt sem ekki virðist vera lagt mat á í þessari úttekt Þjóðhagsstofnunar. Þetta hefur vissulega allt verulega þýðingu fyrir okkar efnahags- og atvinnulíf. Engu að síður hlýtur þessi samningur að kalla fram margar spurningar og full ástæða er til að hafa verulegar áhyggjur af mengunarþætti málsins sem hlýtur, virðulegi forseti, þó málið fari til hv. iðnn. að koma einnig frekar til kasta umhvn. en það hefur gert.

Ég tek eftir því að skýrslu um starfsleyfistillögur fyrir álver á Grundartanga hefur verið dreift á borð þingmanna nú í morgun og þar sem ég hef haft tækifæri til að lesa yfir ítarlegt álit minni hlutans sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson skipar og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, þá koma fram mjög alvarlegar athugasemdir bæði við vinnubrögð og málsmeðferð og áhrif þessara framkvæmda á umhverfisþáttinn. Ég tel að minni hlutinn hafi unnið þetta mál mjög vel og að þetta álit muni gagnast mjög vel í umfjöllun Alþingis og starfi nefnda og vil fagna því að minni hlutinn hefur lagt svo mikla vinnu í málið sem mun auðvelda alla umfjöllun og ákvarðanatöku.

Ég held að það sé alveg ljóst, virðulegi forseti, að sú uppbygging á álverum sem verið hefur og áformuð eru hlýtur að kalla á endurmat á ýmsum þáttum er lúta að umhverfismati og mengunarmálum tengdum stóriðju og áhrifum þess á náttúruna og aðra atvinnuvegi þjóðarinnar og leggja þarf ekki síður þjóðhagslegt mat á áhrifin með tilliti til mengunar og náttúruspjalla en efnahagslegan ávinning stóriðjuframkvæmdanna. Það er löngu orðið tímabært að marka stefnu inn í framtíðina fyrir stóriðju þar sem umhverfisþátturinn og ítarlegt mat á umhverfisáhrifum verður lagt þar til grundvallar og skipi veglegri sess í allri umfjöllun og ákvarðanatöku varðandi stóriðjumál.

Ég er sannfærð um það, virðulegi forseti, að það er krafa þjóðarinnar og nauðsynlegt út frá hagsmunum þjóðarinnar í bráð og lengd að við setjum ýtrustu kröfur varðandi umhverfisvernd og mengunarvarnir sem á skortir --- það hefur komið fram í umræðum og umfjöllun um þetta mál, bæði innan þings og utan --- og að við uppfyllum ýtrustu skyldur samkvæmt alþjóðasamningum í umhverfismálum og mengunarvörnum. Þetta er stór þáttur, virðulegi forseti, í lífskjörum þjóðarinnar inn í framtíðina og það er stór þáttur að við höldum með festu og framsýni á umhverfismálunum. Þetta hefur ekki bara þýðingu fyrir lífskjör þjóðarinnar heldur einnig ímynd þjóðarinnar út á við sem hefur verulega þýðingu fyrir okkar framleiðslu og útflutningsmöguleika. Þar mega ekki, varðandi umhverfismálin, stundarhagsmunir ráða ferðinni fram yfir þau miklu verðmæti sem fólgin eru í vernd umhverfis og hreinu landi sem eru þau miklu verðmæti sem komandi kynslóðir verða að treysta á að við varðveitum. Umhverfismálin verða að skipa stærri sess og verða meiri þungamiðja í allri ákvarðanatöku í atvinnuuppbyggingunni en verið hefur og því hlýtur að vera brýnt að ráðast í endurmat á umhverfisáhrifum og mengunarhættu, ekki bara með tilliti til þessa álvers heldur og ekki síður með tilliti til þess mikla áhuga sem útlendingar sýna með því að ráðast í stóriðjuframkvæmdir hér á landi. Efnahagslegur stundarábati á ekki bara að vera að vegvísir inn í framtíðina heldur verður umhverfisþátturinn að vega þar miklu þyngra en hann hefur gert til þessa og það er kannski fyrst og fremst það sem gagnrýnendur þessa máls halda á lofti og ég tel, virðulegi forseti, að þeir hafi mjög mikið til síns máls.

Það er vissulega ástæða til að gefa fullan gaum og taka til alvarlegrar skoðunar þau hörðu mótmæli og viðbrögð gegn staðsetningu álversins á Grundartanga sem komið hafa fram, einkum frá heimamönnum. Þar er ekki bara um að ræða nauðsynleg umhverfissjónarmið sem snúa að vernd náttúrunnar heldur er einnig í húfi uppbygging annarra atvinnugreina á svæðinu eins og ferðaþjónustu. Staðsetning mengandi stóriðju í miðju landbúnaðarhéraði hlýtur að hafa áhrif á þá matvælaframleiðslu og lífrænu ræktun sem við viljum halda á lofti og þar fer fram. Þetta eru mín áhyggjuefni varðandi þennan samning sem hljóta að vega mjög þungt í allri afgreiðslu málsins hér á hv. Alþingi.

Það sem vekur athygli í þessum samningi er að enn einu sinni á leynd að hvíla yfir rafmagnsverðinu eins og hér hefur verið drepið á í þessari umræðu og sem fara á með sem viðskiptaleyndarmál og Alþingi á enga vitneskju að fá um. Þessu vil ég mótmæla eins og ég og reyndar fleiri gerðum varðandi þá sömu leynd sem hvíldi yfir raforkuverðinu vegna stækkunar álbræðslunnar í Straumsvík. Þar var þó skýrt tekið fram að leyndin þá yfir orkuverðinu hefði ekki fordæmisgildi. En það virðist þó vera svo að áfram eigi að hvíla leynd yfir orkusamningum og kannski er það ætlunin að Alþingi verði að búa við þá óþolandi aðstöðu um ókomin ár. Það gefur auga leið, herra forseti, að erfitt er að átta sig á samningi þessum án þess að geta vegið og metið við umræðuna áhrifin af rafmagnsverðinu sem eru grundvallaratriði, raunar lykilatriði, ekki bara út frá hagsmunum Landsvirkjunar heldur líka vegna áhrifanna á rafmagnsverð til almenningsveitna og út frá þeirri arðsemi sem þjóðin sem heild getur haft af þessum samningi. Svona leynd, virðulegi forseti, leiðir ekki til neins annars en vekja upp tortryggni og gefa því byr undir báða vængi að hér sé verið að selja raforkuna á einhverju útsöluverði, og það ásamt lágum launum, e.t.v. slökum mengunarkröfum og sérstöku skattalegu hagræði, séu meginástæður þess að útlendingar séu í biðröðum að reyna að fjárfesta í stóriðjuframkvæmdum hér á landi.

Ég vænti þess að þó nefndin sem fjalla á um málið fái skýrt fram allar upplýsingar um raforkuþáttinn, rafmagnsverð og áhrif þess, þá er lágmark, virðulegi forseti, við þessa umræðu að hæstv. iðnrh. gefi a.m.k. svör við nokkrum spurningum sem þennan þátt varða og ég mun koma að núna í mínu máli.

Í fyrsta lagi hlýtur ráðherrann að geta svarað því hvort orkuverðið vegna þessa samnings sé svipað eða hagstæðara en við fengum vegna stækkunar álbræðslunnar í Straumsvík þannig að við höfum einhverja nálgun á málinu. Í annan stað: Hvaða áhrif hefur þessi samningur á rafmagnsverð til almenningsveitna? Breytir þessi samningur einhverju varðandi áformin sem uppi eru um 3% lækkun á verði til almenningsveitna á árunum 2001--2010? Hvaða áhrif hefur þessi samningur á gjaldskrárverð Landsvirkjunar, en það kemur fram í áliti Þjóðhagsstofnunar að til lengri tíma megi reikna með að erlendar vaxtatekjur og arðgreiðslur verði að jafnaði um tveir milljarðar kr. árlega? Hefur, og þá hvaða, ákvörðun verið tekin um ráðstöfun þessara fjármuna af hálfu Landsvirkjunar? Er ekki eðlilegt, og ég spyr hæstv. viðskrh. um það, að ábatinn af þessum samningi gangi til þess að lækka verð til almenningsveitna umfram það sem þegar hefur verið ákveðið? Er það kannski svo að áhrifin af þessum samningi voru komin inn í þau áform sem uppi eru hjá Landsvirkjun varðandi arðsemis- og gjaldskrármarkmið og við fjölluðum um á hv. Alþingi fyrir nokkrum vikum síðan? Og hvaða áhrif hefur þessi samningur á eigið fé og arðsemi Landsvirkjunar? Hæstv. ráðherra hefur komið nokkuð inn á þetta varðandi arðsemina og heldur því fram að við séum að tala um 1,3% meira en arðsemismarkmiðin varðandi Landsvirkjun gerðu ráð fyrir. Kannski erum við að tala um hagnað eða aukningu á eigin fé inn í Landsvirkjun um 3--4 milljarða kr. og er ekki eðlilegt, ég spyr hæstv. ráðherra að því, að nýta það fjármagn til þess að flýta því að lækka verð til almenningsveitna?

Ég spyr líka um það og ráðherra kemst varla hjá að svara því þó hann vilji ekki gefa neitt upp um orkuverðið: Undir hverju stendur orkuverðið? Við erum að tala um fjárfestingu upp á 30 milljarða, 36 milljarða með járnblendinu. Stendur orkuverðið, ef við miðum við meðalsöluverð raforku undir framleiðslukostnaðinum og hver er þá arðsemi framkvæmdanna? Það hefur að nokkru leyti komið fram, m.a. orkuverðið eftir að framkvæmdakostnaður hefur verið greiddur. Hver er kostnaðurinn vegna orkuöflunaraðgerða annars vegar og annarra framkvæmda eins og byggingar álversins hins vegar? Ég fékk ekki séð í greinargerð með frv. að það væri neitt skilgreint. (Iðnrh.: Það var í framsögunni.) Var það í framsögunni? Þá hefur það farið fram hjá mér, herra forseti. Þarf Landsvirkjun að taka lán á framkvæmdartímanum? Hver er kostnaðurinn við þær lántökur og munu þær lántökur hafa áhrif á erlendar skuldir þjóðarinnar?

Ég spyr líka, eins og við ræddum á hv. þingi varðandi stækkun álbræðslunnar í Straumsvík: Munu þessar framkvæmdir --- við erum að tala um 36 milljarða --- hafa áhrif á áform varðandi aðrar fjárfestingar, vegaframkvæmdir o.s.frv.? Þarf að fresta öðrum opinberum framkvæmdum vegna þessara fjárfestinga á næstu þremur árum? Við erum að tala um að beina fjárfestingunni núna að verulegu leyti hér á suðvesturhorni landsins. Hvaða áhrif hefur það á fjárfestingar á næstu árum á landsbyggðinni?

Það er líka ástæða til að spyrja um eins og gert var varðandi stækkun álversins hvort og þá hvaða áhrif þessi samningur hefur á afgangsorkuna. Hér kemur orðrétt fram í fylgiskjali á bls. 29 að Landsvirkjun hafi rétt til að skerða afl og orku sem er í té látin á ótryggðum grundvelli með sambærilegum hætti og samkvæmt núgildandi samningum við Íslenska járnblendifélagið og Ísal. Hvaða áhrif hefur þetta á þá sem sérstaklega hafa nýtt sér ódýrara orkuverð gegnum afgangsorkuna? Og þá erum við að tala um t.d. garðyrkjubændur. Ég spyr hvort mat hafi verið lagt á það, hvort þetta þýði að verulega geti dregið úr eða jafnvel komið verði í veg fyrir að garðyrkjubændur geti nýtt sér ódýrari orku.

Varðandi skattalegu meðferðina sem nokkuð hefur verið hér til umræðu, þá velti ég því fyrir mér, herra forseti, hvaða áhrif þær skattalegu ívilnanir hafa sem hér eru boðaðar. Þær sýnast vera nokkuð aðrar en áður hefur verið samið um og ég mun leggja áherslu á að skattaleg áhrif þessa máls verði að fullu metin í nefndinni, þ.e. hvaða frávik hér eigi sér stað, bæði miðað við fyrri álsamninga og miðað við skattalegt umhverfi íslenskra atvinnufyrirtækja. En ég tel enga ástæðu til þess að gagnrýna það á þessari stundu að þar hafi verið haldið illa á málum. Mér sýnist af því sem ég hef haft tækifæri til að skoða að skattalega meðferðin sé ásættanleg en engu að síður þurfum við að skoða þann þátt málsins nánar.

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í mínu máli er mörgum spurningum ósvarað um þennan samning. Þó hefur í heildina, að því gefnu að orkuverðið sé hagstætt og ekki á útsölu, þessi samningur jákvæð áhrif á okkar efnahagsumhverfi. Þar vil ég þó aftur og enn undirstrika þær áhyggjur sem ég hef af umhverfisþættinum og læt í ljós miklar efasemdir um að nauðsynlegrar varfærni hafi verið gætt.

Ég vil í lokin, herra forseti, koma inn á einn þátt sem óbeint snertir þetta mál. Þegar við fjölluðum um stækkun álversins á sínum tíma, þá lagði ég mikla áherslu og reyndar meiri hluti nefndarinnar líka, á að þörf væri á því að iðnrn. athugaði sérstaklega hvernig auka mætti úrvinnsluiðnað í tengslum við álverið og þá þjónustu sem þar er í boði. En hjá Ísal höfðu komið fram upplýsingar um úrvinnsluna, m.a. að Ísal gæti afhent hér ál af þeim styrkleika sem þyrfti til ýmiss konar úrvinnslu í alls konar málm- og álvinnslu. Það kom fram hjá Ísal að efnagreining væri ódýr hjá þeim en mundi kosta mikið væri það gert annars staðar og minnist ég þess að nefnt var að athugandi væri að setja á stofn einhvers konar tímabundinn sjóð sem fengi ákveðið hlutfall af skattgreiðslum frá Ísal, jafnvel með framlagi þaðan á móti, til að styrkja úrvinnsluiðnað sem notfærði sér það sem Ísal býður upp á eins og efnagreiningu og afhendingu á fljótandi áli. Meiri hluti iðnn. lagði áherslu á að þessi kostur yrði skoðaður og hæstv. iðnrh. tók undir það að þarna væru möguleikar sem iðnrn. bæri að skoða af fullri alvöru. Nú vil ég enn ítreka þetta af því að ég hef mikinn áhuga á að það verði kannað gaumgæfilega hvernig við getum nýtt okkur þetta. Ég spyr hvort þessi skoðun hafi farið fram --- ég skildi ráðherra þegar um þetta var rætt á sínum tíma að þetta væri komið í gang --- og hvenær megi þá vænta niðurstöðu að því er þennan þátt varðar. Um þetta mun ég ítrekað halda áfram að spyrja þar til fyrir liggur endanleg niðurstaða.

Ég tel ekki ástæðu nú við 1. umr. að hafa fleiri orð um frv. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar og afgreiðslu og mun þar fjalla um þær athugasemdir sem ég hef hér gert. En ég ítreka þær spurningar sem ég hef lagt fyrir hæstv. ráðherra.