1997-03-20 13:50:39# 121. lþ. 95.95 fundur 262#B réttur alþingismanna til upplýsinga um fyrirtæki og stofnanir í ríkiseigu# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[13:50]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Vegna ummæla sem hér féllu áðan tel ég nauðsynlegt að fram komi þau sjónarmið sem stjórn Pósts og síma lagði til grundvallar þegar gengið var frá ráðningu háskólamenntaðra manna og yfirmanna hjá Pósti og síma.

Á sl. hausti voru gerðir einstaklingsbundnir ráðningarsamningar við nokkurn hóp starfsmanna, yfirmanna og sérfræðinga Pósts og síma, sem byggja á því að framvegis verði greidd föst mánaðarlaun í stað dagvinnu og yfirvinnu áður. Í skýrslu undirbúningsnefndar Pósts og síma kemur fram að við samningsgerðina var byggt á þeim launum sem menn höfðu haft, tekið var tillit til almennra launabreytinga auk þess sem horft var til starfsins sjálfs. Engar sérstakar breytingar voru gerðar á greiðslum fyrir akstur í þágu fyrirtækisins að öðru leyti en því að forstjórar og fimm framkvæmdastjórar hafa til ráðstöfunar fólksbifreið sem fyrirtækið á og rekur og greiða þeir skatta og skyldur af einkanotkun sinni eins og lög og reglur kveða á um. Það felst einnig í þessum einstaklingsbundnu samningum að ekki er um frekari greiðslur að ræða þótt einstakir menn séu kvaddir til stjórnarfunda eða til að sitja í nefndum er varða málefni fyrirtækisins eða sinna sérstökum verkefnum sem tengjast starfi þeirra hjá Pósti og síma hf. Engar breytingar voru gerðar á reglum um ferðakostnað og dagpeninga og ekki er greidd risna.

Þegar umræddir ráðningarsamningar voru gerðir var á það lögð áhersla bæði af hálfu fyrirtækisins og eins af hálfu margra þeirra einstaklinga sem samið var við að umræddir samningar yrðu trúnaðarmál. Liggja þar ýmis sjónarmið til grundvallar. Póstur og sími hf. getur því ekki veitt upplýsingar um laun einstakra starfsmanna sinna án þess að brjóta undirritaða samninga um gagnkvæman trúnað. Fjölmargir starfsmenn Pósts og síma sem falla undir þennan umrædda hóp eru eftirsóttir á almennum vinnumarkaði og búast má við að sú eftirspurn aukist á næstu árum eftir því sem samkeppni eykst á því sviði sem fyrirtækið starfar á. Það er því ekki heppilegt að keppinautar geti gengið að upplýsingum vísum um laun einstakra starfsmanna eða tiltekinn hóp starfsmanna. Þetta eru þau sjónarmið sem stjórn Pósts og síma hefur sett fram um þessi efni.