1997-03-20 14:03:51# 121. lþ. 95.95 fundur 262#B réttur alþingismanna til upplýsinga um fyrirtæki og stofnanir í ríkiseigu# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[14:03]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu og hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hann veitti sem voru ekki nema svör við broti af þeim spurningum sem ég varpaði hér fram.

Engu að síður kom það fram hjá hæstv. forsrh. að hann efast ekki um rétt þingmanna um upplýsingar um opinber málefni en hann hafði ákveðnar efasemdir um það hvað væru opinber málefni. Að sjálfsögðu eru það opinber málefni að fá upplýsingar um Póst og síma hf. því það er hlutafélag sem er að 100% hlut í eigu ríkisins þannig að það er án efa opinbert málefni.

Hæstv. forsrh. talaði einnig um að það væri skammur tími fyrir hæstv. samgrh. að afla þessara upplýsinga. Ekki veit ég betur en það sé búið að gera alla samninga við yfirmenn hjá Pósti og síma. A.m.k. hafa þær upplýsingar komið frá hæstv. ráðherra. En það sem er aðalmálið í þessari umræðu er að það verður að koma skýrt fram hvaða stefnu ríkisstjórnin ætlar að hafa í framtíðinni um upplýsingar af því tagi sem óskað var eftir hér um hlutafélög í eigu ríkisins. Það kom ekki fram hjá hæstv. forsrh. hvaða stefnu hann hygðist hafa. Mun hann svara upplýsingum sem kallað verður eftir hér á Alþingi um hlutafélög í framtíðinni? Við erum að fjalla um ýmis mál þar sem verið er að breyta ríkisfyrirtækjum í eigu allra landsmanna í hlutafélög og það verður að verða ljóst öllum, og það er skýlaus réttur okkar, hvor rétturinn er sterkari, réttur hluthafans eða réttur þingmannsins til að kalla hér eftir upplýsingum. Það verður að koma ljóst fram og það er rétt að hæstv. forsrh. hefur ekki upplýst okkur um það hvor hafi haft á réttu að standa hér, hæstv. viðskrh. í umræðunni um bankamálin eða samgrh. í svari mínu við skriflegri fyrirspurn um Póst og síma. Þeir eru greinilega á öndverðum meiði um málið en samkvæmt lögum ber að gefa þær upplýsingar sem óskað var eftir hjá hæstv. samgrh.