Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 15:53:43 (4855)

1997-03-21 15:53:43# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[15:53]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa skýrslu sem hæstv. heilbrrh. hefur lagt hér fram að beiðni hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og annarra þingmanna jafnaðarmanna.

Það er vissulega alvarlegt ástand í málefnum biðlistanna hér á landi. Það segja a.m.k. þær upplýsingar sem gefnar eru í þessari skýrslu. Það er einnig greinilegt að sá samdráttur eða niðurskurður sem hefur verið á sjúkrahúsunum hefur haft þarna veruleg áhrif. Það kemur fram í skýrslunni að á biðlistum séu á fjórða þúsund manns og þeim hafi fjölgað um 800 frá árinu 1993 eða um 30%. Ég tel þetta vera mjög alvarlegar upplýsingar. Það að bíða eftir aðgerð og lenda á biðlista hefur veruleg útgjöld í för með sér, ekki aðeins útgjöld hjá ríki heldur einnig hjá sveitarfélögum og síðast en ekki síst á heimilum þeirra sem lenda í því að þurfa að bíða eftir aðgerðum. Þetta hefur áhrif á velferð allrar fjölskyldu þeirra sem lenda í þessu. Það ríkir óöryggi og óvissa um framtíðina og auðvitað um afkomu heimilanna.

Ég vil minna á að það eru ekki allir sem eiga rétt á því að fá greiðslur frá vinnuveitanda allan þann tíma sem þeir bíða og þær greiðslur sem velferðarkerfið býður upp á til þeirra sem bíða eftir aðgerðum og eiga ekki rétt á launum eru smánarlega lágar. Sjúkradagpeningar á mánuði eru rúmar 17 þús. kr. og það getur hver sagt sér það sjálfur að menn framfleyta ekki fjölskyldu á þeim upphæðum þó svo menn fái 158 kr. á dag fyrir hvert barn sem er í fjölskyldunni þannig að þeir sem lenda í því að þurfa að framfleyta sér á sjúkradagpeningum neyðast yfirleitt til þess að snúa sér til sveitarfélaganna, snúa sér til félagsmálastofnana til þess að fá viðbótarframfærslu þar.

Ég vil einnig minnast á annað sem reyndar þeir sem töluðu á undan mér hafa komið inn á og það er hinn mikli kostnaður sem lendir á fjölskyldunum og þar vil ég nefna lyfjakostnaðinn. Þeir sem bíða á biðlistum eru margir hverjir kvaldir og illa haldnir og þurfa á verkjalyfjum, svefnlyfjum og öðrum lyfjum að halda á meðan þeir bíða. Eins og lyfjareglur eru í almannatryggingunum í dag, þá eru þau lyf sem þetta fólk þarf að taka á meðan það bíður, lyf sem heimilin eða einstaklingurinn bera yfirleitt kostnað af að fullu, verkjalyf, svefnlyf og önnur slík lyf. Þetta eru lyf sem menn bera kostnað af að fullu. Ég þekki persónulega dæmi þess að menn hafa þurft að borga á mánuði 50--100 þús. kr. í lyfjakostnað meðan þeir biðu á biðlista og það sér hver maður að maður á sjúkradagpeningum, 17.500 kr. á mánuði, borgar ekki mikið þann lyfjareikning.

Vegna þeirra upplýsinga sem komu fram í máli hæstv. ráðherra hér á undan þegar hann mælti fyrir skýrslunni, þá kom þar fram að það ætti að ráða bót á málefnum lýtalækningadeildar Landspítalans. Ég bar fram fyrirspurn sl. vor til hæstv. heilbrrh. vegna hins alvarlega ástands sem ríkti í málefnum brunasjúklinga á Landspítalnum og brunasjúklinga almennt á landinu því að eina aðstaðan til að sinna þeim er á Landspítalanum. Í svari hæstv. ráðherra, sem var að mig minnir í maí sl., sagði hæstv. ráðherra að hann mundi verða búinn að ráða bót á þessu fyrir áramót. Nú eru liðnir næstum þrír mánuðir frá áramótunum og því óska ég eftir því að fá upplýsingar um það hvað ráðherra hyggst gera í málefnum brunasjúklinga og lýtalækningadeildar Landspítalans. Ég fagna því að það sé tekið á þessum málum því það hefur ríkt verulegt ófremdarástand í málefnum brunasjúklinga og lýtalækningadeildar Landspítalans þannig að það er orðið tímabært og liðnir þrír mánuðir frá því að hæstv. ráðherra ætlaði að standa við að koma þeim málum í lag.

Ég vil einnig koma að málefnum geðdeildanna. Hér kemur fram að á biðlista geðdeildar Landspítalans eru um 200 manns og á biðlista barnageðdeildar eru hátt í 100 börn. Þess má geta hér að komið hefur fram í máli yfirmanna barna- og unglingageðdeildarinnar að ekki öll börnin fara þarna á biðlistana þó að þau ættu e.t.v. að fara því reynt er að vísa á önnur úrræði og því miður eru þau úrræði mjög dýr. Ef barn sem þarf á aðstoð að halda vegna geðvandamála þarf að leita sér aðstoðar annars staðar, t.d. sálfræðiþjónustu, þá þurfa foreldrar að greiða það að fullu og það geta verið nokkur þúsund krónur í hvert einasta skipti sem þarf að fara með barnið í slíka þjónustu.

[16:00]

Ég vil einnig minna á það að hópur barna sem átti athvarf hjá barna- og unglingageðdeild, þ.e. átti rétt á þjónustu hjá barna- og unglingageðdeildinni, hefur ekki fengið þjónustu þar nú í heilt ár og það eru einhverf börn. Á annan tug barna hafa greinst einhverf frá því fyrir ári og þessi börn hafa ekki fengið neina þjónustu eftir að þau voru greind heldur hefur þeim verið vísað á Greiningarstöð ríkisins sem heyrir undir félmrn. Því miður hefur ekki verið boðið upp á sömu þjónustu og þau höfðu hjá barna- og unglingageðdeildinni. Nú talaði hæstv. félmrh. um að það ætti að koma einu stöðugildi upp til að sinna þessum börnum en samkvæmt mati sérfræðinga þarf a.m.k. fjóra, heilt fagteymi, til þess að sinna þessum börnum eins og gert var á barna- og unglingageðdeildinni meðan þeim var sinnt þar. Ég tel þetta mjög alvarlegt ástand sem ríkir og snýr að börnum með geðræn vandamál.

Það hefur einnig komið í ljós að okkar þjónusta er hlutfallslega mun minni heldur en á Norðurlöndunum, þ.e. hlutfallslega mun færri börn koma hér til lækninga, sem segir manni að það séu börn úti í samfélaginu sem ekki fá þjónustu.

Ég vil í lokin, þar sem ég sé að tími minn er senn á þrotum, minnast á öldrunarþjónustuna. Eins og kemur fram í skýrslu hæstv. heilbrrh., þarf enn að bæta við rúmum í öldrunarþjónustunni. Ég furða mig á því að leyfð skuli vera bygging á öldrunarheimilum í Hveragerði meðan enn vantar 15% rýma hér í Reykjavík. Samkvæmt þeim upplýsingum sem koma fram í skýrslunni eru 189 sem bíða í mjög brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum. Samkvæmt upplýsingum frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar bíða hátt í 400 manns eftir hjúkrunarrýmum hér og það er auðvitað óviðunandi. Yfirleitt er það svo að það fólk sem bíður eftir hjúkrunarrýmum kemst varla inn á þessar stofnanir nema þá sem bráðasjúklingar. Það er auðvitað afleitt fyrir utan það að það er mjög kostnaðarsamt að sinna þessum sjúklingum heima og þó svo að margir æski þess að vera heima þá er ekki hægt að sinna þeim þannig að viðunandi sé. Ég efast því um að sá sparnaður sem menn telja af því að draga saman í kostnaði við heilbrigðisþjónustuna skili sér nokkurs staðar því að ég er sannfærð um að útgjöldin vegna biðlistanna eru mun meiri heldur en sá sparnaður sem menn telja sig hafa af því að loka deildum og fækka rúmum eins og raunin er nú hér.