Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 16:25:13 (4861)

1997-03-21 16:25:13# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[16:25]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi endurhæfinguna, þá var lögð áhersla á að fullnýta Grensásdeildina áður en við gengjum lengra. En það er alveg ljóst að í framtíðinni þurfum við á Kópavogshæli að halda fyrir endurhæfingu. En Grensásdeildin gekk fyrir.

Hvað varðar fjármagnið, minni ég enn og aftur á að það eru sérstakar 100 millj. kr. í hagræðingarsjóði og það er sjúkrahúsanna sjálfra að forgangsraða sínum aðgerðum með því fjármagni.

Um barna- og unglingageðdeildina get ég vel tekið undir hvert einasta orð sem hv. þm. sagði. Þar er um stórt vandamál að ræða, en ástandið þar hefur verið bætt verulega. Sérfræðingum þar hefur á sl. ári verið fjölgað um fjóra og það breytir auðvitað ástandinu. Það má ekki gleyma því sem vel er gert en mér finnst þó stundum að í umræðunni vilji það gleymast að það er alltaf hægt að gera betur .

En varðandi það sem hv. þm. sagði áðan að um það hafi verið talað að barna- og unglingageðdeildin tæki upp nýja meðferð varðandi vímuefni, þá er það ekki rétt heldur er hún sá staður sem hægt er að hringja í. Þeir munu gefa þær upplýsingar til að einstaklingar geti síðan leitað annað. En þetta er sem sé eins og upplýsingamiðstöð vegna þess að þarna eru sérfræðingar mjög hæfir.