Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 16:27:04 (4862)

1997-03-21 16:27:04# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[16:27]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri ekki lítið úr því sem þegar hefur verið gert. Ég styð ráðherrann í því að taka á málum og þegar henni tekst að gera vel. En ég læt ráðherrann ekki selja mér sömu hlutina tvisvar en það hættir ráðherranum til að gera varðandi barna- og unglingageðdeildina.

Hér var í umræðu um fíkniefnamál lofað fjármagni til geðdeildarinnar til þess að taka á brýnum vanda. Ég var undrandi á því að upplýsingamiðstöð fyrir foreldra ætti að fara inn á barna- og unglingageðdeild vegna þess að mér var kunnugt um vandann þar sem fyrir var til að sinna öðru eins og hér hefur komið fram, bæði með einhverfa og þá sem eru með geðræn vandamál. En þetta var valið og 12 millj. kr. veittar til þess.

Síðan hefur verið bent á það þegar talað er um vanda barna- og unglingageðdeildar varðandi aðra þætti að, eins og kom fram í fyrirspurn minni, veittar voru 12 millj. kr. og að þangað geti aðstandendur fíkniefnaneytenda hringt, en í raun og veru hefur ráðning starfsfólksins komið almennri starfsemi barna- og unglingageðdeildarinnar til góða. Það er gott mál en það er ekki hægt að nefna þetta hvort í sínu tilfellinu eins og aðgerð til að takast á við og koma til hjálpar í ólíkum þáttum. Þetta gagnrýni ég. Mér finnst gott að hafa sett peninga í deildina en það er ekki hægt að vingsa svona á milli atriða í því sem maður er að gjöra gott.