Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 16:39:36 (4864)

1997-03-21 16:39:36# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[16:39]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi ræða var afskaplega vel flutt en það er ýmislegt við innihaldið að athuga. Ég ætla aðeins að minna á viðskilnaðinn. Hvað biðu margir eftir hjartaaðgerð fyrir tveimur árum þegar þessi ríkisstjórn settist við völd? Það voru 270 manns sem biðu eftir hjartaaðgerð. Við höfum minnkað þessa biðlista. Það eru 40 nú sem bíða eftir þessum aðgerðum. Og við erum að bæta um betur vegna þess að við erum að opna nýja hjartarannsóknarstofu á Landspítalanum innan nokkurra vikna sem hreinsar burt þessa biðlista. Er þetta einskis virði, hv. þm.?

Hv. þm. talar um að það hafi fjölgað á biðlistum í beinaaðgerðir. Við skulum aðeins fara yfir það mál. Ef við lítum á það hverjir eru að bíða eftir stærstu beinaaðgerðum, þá eru þeir að bíða eftir beinaaðgerðum sem ekki voru gerðar fyrir þremur árum síðan á Íslandi. Þetta eru nýjar tegundir aðgerða og mér finnst leitt að vita til þess að hv. formaður heilbr.- og trn. viti það ekki. Við erum að gera þrisvar til fjórum sinnum fleiri slíkar aðgerðir heldur en nokkur nágrannaþjóð okkar þannig að við erum að vinna mjög gott starf og við erum að ná árangri.

Hv. þm. sagði að skýrslan væri með kontóristabrag. Veit hv. þm. ekki hvað liggur bak við þessa skýrslu? Það var talað við hvern einasta lækni sem er með sjúklinga á biðlista. Hv. þm. vill líka vita hvernig við ætlum að nýta sjúkrahúsin úti á landi betur og það er eðlilegt að hann vilji vita það. Hann þarf ekki annað en líta í fjárlögin til að sjá hvar við ætlum að stytta biðlistann í beinaaðgerðir. Við ætlum að gera það með því að fjölga aðgerðum á Akureyri og erum þegar byrjuð á því, á Akranesi og erum þegar byrjuð á því og á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði. Þessar stofnanir geta tekið við léttari beinaaðgerðum og létt þar með á sjúkrahúsunum í Reykjavík, en það eru áætlaðar 100 millj. kr. til sjúkrahúsanna á Reykjavíkursvæðinu til að stytta biðlistana. Finnst hv. formanni heilbr.- og trn. þetta einskis virði? Kann hann ekki að meta þetta? Finnst honum ekki vera neins virði að hafa náð t.d. utan um biðlistana í hjartaaðgerðum hér á landi?