Áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum

Föstudaginn 21. mars 1997, kl. 17:18:30 (4876)

1997-03-21 17:18:30# 121. lþ. 96.8 fundur 102. mál: #A áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:18]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Aðeins vegna orða hæstv. ráðherra um áform hennar til að bæta öldrunarþjónustu, þjónustu við geðfatlaða og barna- og unglingageðdeild eins og hún taldi upp áðan í máli sínu. Það er hægt að skera svo mjög niður að ef menn bakka aðeins í niðurskurðinum, þá eru þeir náttúrlega að bæta aðeins. En það þýðir náttúrlega ekki að vera að berja sér á brjóst fyrir það, vera búinn að skera það mikið niður að ef maður bakkar aðeins, þá er maður að bæta, þó að það sé kannski aðeins úrbót.

Vegna lyfjakostnaðar þeirra sem eru á biðlistum, þá hef ég fengið upphringingar frá fólki sem hefur haft verulegan kostnað af lyfjum meðan þeir bíða eftir aðgerðum og hafa ekki vitað um endurgreiðslureglurnar. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er nógu vel staðið að því að kynna þann rétt sem fólk hefur til endurgreiðslu vegna lyfjakostnaðar? Og ég spyr hæstv. ráðherra: Er endurgreitt vegna lyfja sem menn borga að fullu? Ég minni á að endurgreiðslureglurnar sem gilda í dag eru tekjutengdar þannig að það er búið að snúa þessum reglum sem voru flóknar fyrir, það er búið að gera þær svo flóknar að menn þurfa að vera við hestaheilsu til þess að geta nýtt sér þær eins og ég hef oft sagt um þessar vitlausu endurgreiðslureglur sem hafa gilt um lyfjakostnað almannatrygginga. Þannig að ég stend við það að ég hef upplýsingar um að fólk hefur haft milli 50 til 100 þús. kr. kostnað af lyfjum meðan þeir voru á biðlistum og það tel ég algjörlega óviðunandi.