Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 12:26:54 (4927)

1997-04-03 12:26:54# 121. lþ. 98.6 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[12:26]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram hjá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur að það væri metnaðarleysi sem stjórnvöld hefðu fyrir hönd fyrirtækisins um að ekki skyldi fara fram mat á umhverfisáhrifum áður en starfsleyfi yrði gefið út. Þar var ég fyrst og fremst að vitna til þeirrar heimildar sem fyrirtækið hefur og starfar á grundvelli laga sem sett voru áður en núverandi lög um mat á umhverfisáhrifum tóku gildi. Ég sagði jafnframt í ræðu minni, og það liggur fyrir, að fyrirtækið þarf eftir sem áður á starfsleyfi að halda. Og þar er hægt að gera þær kröfur sem gera þarf. En við í iðnrn. höfum rætt við stjórnendur fyrirtækisins um að fyrirtækið sjálft láti fara fram mat á umhverfisáhrifum með nákvæmlega sama hætti og mat á umhverfisáhrifum á að fara fram og á þeirri skýrslu og þeirri niðurstöðu sem þar fæst verður síðan hægt að byggja þær kröfur sem gerðar verða í starfsleyfi. Þarna er því ekki um neitt metnaðarleysi að ræða af okkar hálfu fyrir hönd þessa fyrirtækis. Fyrirtækið hefur gengið fram af miklum vilja til þess á undanförnum tveimur árum og lengur jafnvel að koma í veg fyrir þá sjónmengun sem verið hefur af því ryki sem er í útblæstrinum sem ekki er hættulegt. Það er fyrst og fremst ryk sem sker í augun en er á engan hátt hættulegt.