Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 12:30:33 (4930)

1997-04-03 12:30:33# 121. lþ. 98.6 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[12:30]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Fram kom í ræðu hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur að mengunarmál og mengunarvarnir í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga væru í ólestri. Ég vil mótmæla slíkri fullyrðingu vegna þess að í því fyrirtæki hefur einmitt verið lögð mjög mikil áhersla á að ná sem bestum og mestum árangri í því að verksmiðjan væri sem best hvað þetta varðar, þ.e. að frá henni væri sem allra minnst mengun. Fram kom hjá hæstv. iðnrh. að það sem kallað er mengun frá verksmiðjunni er fyrst og fremst sjónmengun. Það eru vatnsgufur sem á stundum ganga upp frá verksmiðjunni auk þess sem útblástur er að sjálfsögðu frá henni en það er alls ekki talið skaðlegt.

Ég vil gera athugasemd við ræðu hv. þm. Ég vil að það komi fram í þessari umræðu að stjórnendur verksmiðjunnar hafa haft mikinn metnað einmitt hvað það varðar að bæta úr búnaði. Það hafa verið stundaðar rannsóknir af hálfu starfsmanna verksmiðjunnar. Samstarf hefur verið við háskólastofnanir um þau efni. Meðal annars kostaði járnblendiverksmiðjan á tímabili prófessorsstöðu við Háskóla Íslands til að eiga samstarf við starfsmenn og vísindamenn verksmiðjunnar sem hafa lagt metnað sinn í að hún verði sem best búin hvað mengunarvarnir snertir. Á síðasta ári og á þessu ári eru settar mörg hundruð milljónir í endurbætur á búnaði verksmiðjunnar og á reykhreinsivirkjum. Þannig leggur verksmiðjan á allan hátt áherslu á að hún sé sem best búin.