Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 12:36:51 (4933)

1997-04-03 12:36:51# 121. lþ. 98.6 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[12:36]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér koma dálítið á óvart orð hv. 2. þm. Vesturl. að hann þekkti ekki aðstæður Hollustuverndar ríkisins til að hafa eftirlit með höndum. Hann er varaformaður fjárlaganefndar og við síðustu fjárlagagerð og raunar þar áður voru aðstæður Hollustuverndar ríkisins mikið til umræðu og að hún hefði fengið á undanförnum árum slík ókjör verkefna, m.a. vegna tengingar okkar við Evrópska efnahagssvæðið, að hún gæti á engan hátt annað öllum þeim verkefnum með þeim mannafla sem hún hefði og fjármagni til reksturs síns. Talið er samkvæmt faglegri úttekt að Hollustuvernd þurfi að lágmarki á að halda 20 manns, ef ég man töluna nákvæmlega, til að hún geti gegnt lágmarksverkefnum eða verkefnum þeim sem henni hafa verið falin svo að sæmilega sé að málum staðið.