Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 16:20:16 (4954)

1997-04-03 16:20:16# 121. lþ. 98.6 fundur 475. mál: #A járnblendiverksmiðja í Hvalfirði# (eignaraðild, stækkun) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[16:20]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vildi nú bara að lokum kvitta fyrir þessa umræðu af minni hálfu og þakka fyrir þær upplýsingar sem hafa komið fram. Það eru nokkur mikilvæg atriði sem er nauðsynlegt að herða aðeins á upp á framhaldsmeðferð málsins. Það fyrsta er að ég tel mikilvægt að fyrir liggi sá skilningur íslenskra stjórnvalda að Elkem geti ekki og hafi ekki heimildir til að taka neins konar þróunargjöld eða markaðsgjöld af fyrirtækinu eins og var hér í upphaflegu samningunum á sínum tíma. Það er mjög mikilvægt að þetta liggi fyrir og upphæðir í þeim efnum séu algjörlega takmarkaðar við þessar þrisvar sinnum fimm milljónir norskra króna sem kæmu til sögunnar vegna ofns III. Þetta tel ég líka mikilvægt í framhaldi af spurningu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar fyrr í dag.

Í öðru lagi tel ég að það sé mikilvægt sem hæstv. ráðherra sagði, að hann teldi ástæðu til að skoða frv. betur með hliðsjón af lögunum, hvort það væru önnur atriði --- þó að það væru ekki nema tæknilegar lagfæringar sem þyrfti að gera á lögunum í leiðinni. Og ég held að það eigi að gera það vegna þess að lögin miðast við að Íslendingar eigi meiri hluta í fyrirtækinu. Ef þetta verður að lögum eins og gerð er tillaga um hér þá eru sum ákvæði frv. og jafnvel orðalag óeðlileg og þess vegna hefði ég talið eðlilegt að skoða það betur í nefnd eins og ráðherrann tekur undir. Sömuleiðis finnst mér mikilvægt að hann lét það koma fram að hann teldi rétt að skoða skattamálin sérstaklega. En auðvitað er það svo að viðræður um þau mál hljóta að byggjast á samkomulagi við fyrirtækin, eignaraðilana, þannig hlýtur það að vera. Þá vil ég undirstrika það sem ég gleymdi nú í raun og veru í framsöguræðu minni í þessari umræðu, af hálfu okkar þingflokks, að ég tel að það sé mjög mikilvægt og bið ráðherrann að koma því á framfæri, vegna þess að hann er best til þess fallinn, að iðnn. fái beinan aðgang að fulltrúum Elkem og Sumitomo á einhverju stigi vinnslu málsins í nefnd. Ég met það mikils að fulltrúar ráðuneytisins og Landsvirkjunar komi á vettvang nefndarinnar eins og gengur en ég held að það sé mjög mikilvægt að fá fulltrúa Elkem á vettvang til þess að ræða málin, m.a. raforkumálin sem ég ætla aðeins að koma að hér á eftir.

Varðandi fjórða og fimmta ofninn --- hvort þar er um skuldbindingu að ræða eða ekki --- þá tel ég satt að segja að það þjóni nú best hagsmunum landsmanna allra að segja sem fæst um það á þessu stigi málsins. En ég tel að það liggi náttúrlega nokkuð í augum uppi að yfirlýsingin um fjórða og fimmta ofninn greiddi fyrir því að niðurstöður fengust í þessu máli, sem væntanlega þýðir þá það að þeir aðilar sem við vorum að ræða við töldu það einhvers virði af einhverjum ástæðum. Hversu mikil eða lítil skuldbinding fólst í því er svo annað mál sem ég tel í raun og veru ekki við hæfi af okkar hálfu að ræða hér mikið í þessum ræðustól á þessu stigi málsins.

Í fjórða lagi þótti mér það mikilvægt sem kom fram hjá ráðherranum að hann taldi að meirhlutaeignin hefði tryggt það að fyrirtækið lokaði ekki tvisvar sinnum. Það er veruleiki. Annars væri þetta fyrirtæki löngu lokað. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að fyrir liggi og að menn viðurkenni þar með að í raun og veru er meirihlutaeign Íslendinga í þessu fyrirtæki dýrmæt og hefur verið dýrmæt. Hvort hins vegar þarf að vera meirihlutaeign í fyrirtækinu um ókomna framtíð er svo aftur allt annað mál. En ég tel að það sé alveg óhjákvæmilegt að reynslan hafi sýnt að meirihlutaeignin var gagnleg. Hún var gagnleg á erfiðum tímum í atvinnusögu Íslendinga og ég er þess vegna ekki alveg sammála hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um það að meirihlutaeignin sem slík hafi verið hið slæma í þessum samningi. Ég tel að hið slæma í samningnum hafi verið raforkuverðið. Það var allt of lágt. Og sem betur fer er verið að stórhækka það í þessum samningsdrögum eins og þau liggja hér fyrir núna.

Herra forseti. Ég vil þá að síðustu fara aðeins yfir þetta með raforkuverðið og segja að það er náttúrlega alveg augljóst mál og ég þykist geta sagt það að frá sjónarmiði Landsvirkjunar er hér um að ræða allgóðan raforkusamning --- það er engin spurning. Það helgast hins vegar að nokkru leyti af því að Landsvirkjun er að selja inn í þetta dæmi orkukosti sem eru ódýrir. Þeir er hagkvæmir --- það er alveg á hreinu. Og það er líka rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan að næstu orkukostir í framtíðinni sem við þurfum að taka kunna að verða dýrari. Þess vegna er það þannig að þegar rætt var um fjórða og fimmta ofninn þá voru menn að tala um allmiklu hærri tölur í raforkuverði en menn gera núna. Þannig að menn gera sér grein fyrir því að raforkuverðið getur hækkað. Og það getur í raun og veru hækkað enn þá meira en liggur fyrir í dag vegna nýrra krafna í umhverfismálum. Það eru því hlutir sem við getum í raun og veru ekki sagt neitt um nákvæmlega á þessu stigi, hvað orkan kann að kosta hér árið 2010 eða eitthvað því um líkt úr þeim orkukostum sem við tökum þá. En ég bendi á að ef við tækjum þann orkukost sem nú er reiknað með í framtíðarmyndinni, þ.e. ákveðna 500 megavatta virkjun hér í landinu, þá er orkuverðið frá henni tiltölulega hagstætt jafnvel miðað við stöðuna í dag. Hins vegar spái ég því að menn muni sameinast um að koma í veg fyrir að sá orkukostur verði notaður af því menn telji að honum fylgi svo mikil umhverfisspjöll. En það er annað mál.

Varðandi umræðuna um málið hins vegar þá er hún dálítið óþægileg fyrir Landsvirkjun vegna þess að forustumenn Elkem hafa talað um orkuverðið hér á landi þannig að mér liggur við að segja að það sé niðurlægjandi fyrir okkur. Forstjóri Elkem í Noregi segir t.d. í ríkissjónvarpinu 13. mars sl. að orkuverð hér á landi sé mun hagstæðara en í Noregi. Síðan segir íslenska sjónvarpið að norska sjónvarpið fullyrði að það sé helmingi lægra. Og svo segir hér, með leyfi forseta: ,,Fréttamenn norska sjónvarpsins fullyrða að Elkem greiði helmingi lægra verð fyrir raforku hér á landi en í Noregi. Forstjórinn staðfestir að orkuverðið sé afar hagstætt á Íslandi.`` Og síðan segir hér orðrétt, haft eftir Ole Enger, forstjóra Elkem: ,,Orka er stór hluti útgjaldanna við framleiðslu okkar og þegar við fáum tilboð sem er mjög samkeppnishæft, og miklu betra en býðst í Noregi, er ekki erfitt að taka ákvörðun.`` Þannig að það er alveg greinilegt að forustumenn Elkem selja hluthöfum sínum, en Elkem er einkafyrirtæki eins og menn vita, samninginn á Grundartanga á þeim forsendum að orkuverðið sé alveg með afbrigðum lágt hér á landi og þó að það henti Landsvirkjun engu að síður á sama tíma þá þarf svo sem ekki að vera neitt óeðlilegt við það. En veruleikinn er samt sá að þetta er óþægilegt fyrir þá aðila sem eru orkuframleiðendur og orkuseljendur hér, sem eru Landsvirkjun og iðnrn. í þessu tilviki. Veruleikinn í Noregi er hins vegar sá að orkuverðið er að snarhækka og það hefur hækkað núna að undanförnu. Það stafar í fyrsta lagi af því að Norðmenn eru farnir að selja raforku um kapal út úr landinu í stórum stíl. Verðlag á rafmagni í Noregi lýtur að nokkru leyti markaðsákvörðunum á hverjum tíma. Og þegar hugmyndir eru uppi um að loka kjarnorkuverum á Norðurlöndum þá er bæði raunhækkun á raforkuverði í Noregi frá vatnsaflsvirkjunum og líka hækkun sem stafar af væntingum um auknar hækkanir á komandi árum og jafnvel áratug. Þess vegna er það alveg rétt, sem ég hygg að hæstv. iðnrh. og fleiri hafi sagt hér áðan, að það er hægt að segja að raforkuverð hafi ekki aðeins farið hækkandi í Noregi heldur hafi það farið stórhækkandi að undanförnu. Á sama tíma er það þannig að í Noregi eru gamlir samningar, t.d. samningar við Norsk Hydro, með ótrúlega lágu orkuverði. Þar eru menn að tala um orkuverð alveg niður í 5 mill á kwst. Þannig að menn sjá að hér erum við annars vegar kannski að tala um orkuverð sem er þetta lágt og hins vegar orkuverð til stóriðju sem er kannski sex, átta sinnum hærra heldur en þetta. Veruleikinn er því sá að hér er við samanburðarheim að glíma sem verkar þannig að hann gerir samninginn við Elkem og um járnblendiverksmiðjuna tortryggilegan og að mínu mati óþarflega tortryggilegan. Ég tel að ekki sé ástæða til að tortryggja hann eins og þessi ummæli frá Noregi gefa tilefni til að ætla að sé rétt. Og þá verð ég líka að segja, að ég tel að kynning bæði iðnrn. og Landsvirkjunar á þessum samningi sé óþarflega veik vegna þess að þegar dæmin eru sett þannig upp að þessi samningur, t.d. við Columbia Ventures, þýði 1.300 millj. kr. á 20 árum eða 65 millj. kr. á ári eins og menn reikna þetta þá er það einfaldlega bara röng uppsetning. Veruleikinn er sá að í sambandi við járnblendiverksmiðjuna eru menn að reikna út frá öðrum tölum og þurfa að gera sér grein fyrir því, og það þarf þingheimur að skilja, að hér eru upphæðirnar reiknaðar niður með afvöxtunarstuðli þannig að þær tölur sem talað er um eru miklu lægri en rauntölurnar sem upp úr þessum kössum koma þegar þær verða skoðaðar af íslenska ríkinu.