Rafræn eignarskráning verðbréfa

Fimmtudaginn 03. apríl 1997, kl. 16:35:43 (4957)

1997-04-03 16:35:43# 121. lþ. 98.7 fundur 474. mál: #A rafræn eignarskráning verðbréfa# frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[16:35]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 801 um rafræna eignaskráningu verðbréfa.

Viðskrn. hefur í nokkur ár kannað möguleika þess að taka upp pappírslaus viðskipti með verðbréf hér á landi líkt og þekkist á öllum þróuðum verðbréfamörkuðum. Rafræn skráning eignarhalds verðbréfa í svokallaðri verðbréfamiðstöð kæmi þá í stað pappírsverðbréfaviðskipta. Mikil samstaða er á verðbréfamarkaði um að brýn þörf sé á stofnun verðbréfamiðsvöðvar.

Rafræn skráning eignarhalds á verðbréfum mun leiða til öruggari og hagkvæmari verðbréfaviðskipta. Með slíkri stöðlun viðskipta er komið til móts við alþjóðleg tilmæli um uppgjör viðskipta með verðbréf. Í upphafi þessa áratugar var fyrst hugað að því að koma á fót rafrænni skráningu eignarhalds verðbréfa hér á landi. Í áliti nefndar um tölvuskráningu verðbréfa sem þá var komið á laggirnar kom fram að verulegt hagræði fælist í verðbréfamiðstöð. Í skýrslu Enskilda um hlutabréfamarkaðinn frá árinu 1991 kom fram að stofnun verðbréfamiðstöðvar væri mikilvæg til að viðskipti gengju greiðlega fyrir sig en einnig til þess að auðvelda erlendum fjárfestum samskipti við íslenska markaðinn. Málinu varð þó ekki þokað lengra að sinni, m.a. vegna þess að viðskipti á verðbréfamarkaði voru enn lítil á þeim tíma. Næsta skref var að semja frv. um verðbréfamiðstöð og var það kynnt árið 1993. Í stað þess að leggja frv. fyrir Alþingi var ákveðið að ýta úr vör athugun á hagkvæmni þess að koma á fót verðbréfamiðstöð. Niðurstaða þeirrar athugunar leiddi í ljós að mjög hagkvæmt væri að setja á laggirnar verðbréfamiðstöð. Í framhaldi var skipuð undirbúningsnefnd til að afla tilboða í hugbúnað og huga að undirbúningi félags um starfsemina. Við hönnun kerfis fyrir verðbréfamiðstöð hefur einkum verið litið til Norðurlandanna, sér í lagi til Danmerkur og Noregs. Þar hafa í 10--15 ár verið starfandi verðbréfamiðstöðvar sem gegnt hafa mjög víðtæku hlutverki á verðbréfamarkaði.

Í verðbréfamiðstöð fer fram stofnun verðbréfa og skráning réttinda yfir þeim, varsla þeirra á rafrænu formi, uppgjör viðskipta á milli þeirra stofnana sem hafa milligöngu um viðskipti og útgreiðsla arðs af hlutabréfum og afborganir af skuldabréfum fyrir útgefendur verðbréfa. Skráning í verðbréfamiðstöð er eina lögformlega skráningin á eignarhaldi þeirra verðbréfa sem þar eru skráð og kemur þannig í stað verðbréfanna sjálfra.

Þau fyrirtæki sem hafa milligöngu um viðskipti með verðbréf, þ.e. viðskiptabankar og sparisjóðir og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu, hafa heimild til fjárvörslu. Lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir og Seðlabanki Íslands tengjast verðbréfamiðstöðinni og tilkynna henni með tölvuskeyti um öll viðskipti. Verðbréfamiðstöðin raðar saman tilkynningum frá þeim sem hefur milligöngu um kaup verðbréfs og þeim sem hefur milligöngu um sölu. Þegar þessar tilkynningar stemma færist eignarhald á verðbréfum frá seljanda til kaupanda. Á sama tíma lætur verðbréfamiðstöðin peningagreiðslur fyrir verðbréf færast á milli bankareikninga viðkomandi stofnana sem hafa milligöngu um viðskipti.

Lagafrv. um rafræna skráningu verðbréfa var samið með hliðsjón af kerfislýsingu og lögum um þetta efni í nágrannalöndunum. Leitað var helst í smiðju þeirra nágrannalanda okkar sem hafa lengsta reynslu af starfsemi verðbréfamiðstöðva, sérstaklega Danmerkur. Lög um rafræna skráningu verðbréfa voru sett í Danmörku árið 1981 og á síðasta ári var öllum ákvæðum er varða verðbréfaviðskipti safnað saman í einn lagabálk þar í landi. Í Noregi voru sett lög um verðbréfamiðstöðvar árið 1985 og í Svíþjóð árið 1989.

Í frv. er ekki gert ráð fyrir að veittur sé einkaréttur á starfseminni heldur er gerð tillaga um að sett verði almenn lög um rafræna skráningu verðbréfa.

Skilyrði til útgáfu leyfis eru að starfsemin sé rekin af hlutafélagi, hlutafé sé að lágmarki 65 millj. kr. og að fyrir liggi fullnægjandi rekstraráætlun svo og öryggis- og skipulagslýsing. Enn fremur þarf verðbréfamiðstöð að hlíta ákvæðum um ábyrgðarsjóð. Viðskrh. veitir verðbréfamiðstöðvum starfsleyfi.

Einungis reikningsstofnanir geta stundað eignaskráningu í verðbréfamiðstöðvum. Reikningsstofnanirnar eru: Seðlabanki Íslands, viðskiptabankar og sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu sem hafa heimildir til fjárvörslu og lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir. Reikningsstofnanirnar verða að gera aðildarsamning við verðbréfamiðstöð þar sem nánar er kveðið á um réttindi og skyldur vegna aðildar að eignarskráningu í verðbréfamiðstöð. Gert er ráð fyrir að bankaeftirlit Seðlabankans hafi eftirlit með starfsemi verðbréfamiðstöðva og geti svipt aðila rétti til eignaskráningar í verðbréfamiðstöð ef viðkomandi hefur brotið ítrekað gegn ákvæðum laganna eða ef háttsemi viðkomandi er ekki að öðru leyti eðlileg, traust eða heilbrigð. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um starfsemina þar sem m.a. sé heimilt að ákveða nánari reglur um grundvöll og framkvæmd eignaskráningar.

Í frv. er gert ráð fyrir að þagnarskylda hvíli á verðbréfamiðstöð um þá starfsemi sem þar fer fram.

Í frv. er kveðið á um skaðabótaskyldu verðbréfamiðstöðva. Verðbréfamiðstöð er skaðabótaskyld fyrir tjóni sem rakið verður til mistaka af hennar hálfu í tengslum við tilkynningar um skráningu, breytingar eða afmáningu réttinda á reikningi í miðstöðinni þrátt fyrir að orsök tjónsins verði rakin til óhappaatvika. Verðbréfamiðstöð er þó hvorki skaðabótaskyld vegna glataðra viðskiptatækifæra hlutaðeigandi aðila né vegna óviðráðanlegra ytri atvika. Sé unnt að rekja tjón til mistaka reikningsstofnunar fer um bótaskyldu hennar að almennum reglum.

Í frv. er gert ráð fyrir að komið verði á fót ábyrgðarsjóði sem nemi aldrei lægri fjárhæð en 650 millj. kr. Samanlagðar skaðabætur fyrir bótaskylt tjón sem rakið er til sömu mistaka geta ekki numið hærri fjárhæð en sem nemur helmingi ábyrgðarsjóðs eða 325 millj. kr. Ekki er sett ákvæði í frumvarpsdrög um fyrirkomulag ábyrgðarsjóðsins en aðilum gefinn kostur á að leysa það mál á sem hagkvæmastan hátt án þess að vikið sé frá þeirri lágmarksfjárhæð sem gerð er krafa um. Þannig getur ábyrgðarsjóðurinn verið í formi ábyrgðaryfirlýsinga eigenda, verðbréfamiðstöðva, eða í öðru formi, t.d. starfsábyrgðatrygginga eða að stofnaður verði sérstakur sjóður.

Viðskrn. hefur unnið að þessu máli með fjmrn., Seðlabanka Íslands, Verðbréfaþingi Íslands, Húsnæðisstofnun, viðskiptabönkum og sparisjóðum, verðbréfafyrirtækjum og lífeyrissjóðum. Stefnt er að stofnun hlutafélags í eigu ríkissjóðs, viðskiptabanka, sparisjóða, verðbréfafyrirtækja, annarra lánastofnana, lífeyrissjóða og hlutafélaga á Verðbréfaþingi. Gert er ráð fyrir að viðskiptabankar, sparisjóðir, verðbréfafyrirtæki og aðrar lánastofnanir eignist fjóra hluti af sjö í félaginu um verðbréfamiðstöð en ríkissjóður, lífeyrissjóðir og hlutafélög einn hlut hver. Fjmrh. mun fara með hlut ríkisins.

Heimild er í 6. gr. fjárlaga að taka þátt í stofnun verðbréfamiðstöðar. Miðað hefur verið við að verðbréfamiðstöð komist í gagnið í árslok 1998.

Eins og fram kom hér á undan er ekki gert ráð fyrir að starfsemi af þessu tagi njóti einkaréttar að lögum. Samt sem áður er ekki búist við samkeppni á þessu sviði innan lands. Ekki er þó loku fyrir það skotið að með örri tækniþróun og vaxandi viðskiptum sjái erlend fyrirtæki sér hag í því að hasla sér völl á þessu sviði hérlendis. Engin ástæða þykir því til að veita einkarétt á þessari starfsemi. Á hinn bóginn er mikilvægt að í almennri rammalöggjöf um þessa starfsemi séu lagðar víðtækar skyldur á þá aðila sem sinna þessari mikilvægu þjónustu.

Engin tilskipun frá Evrópusambandinu liggur að baki þessu frv. en búist er við frekari stöðlum á þessu sviði í framtíðinni.

Herra forseti. Mál þetta hefur átt sér langan aðdraganda. Margar nefndir sérfræðinga á verðbréfamarkaði hafa unnið að málinu. Kynnisferðir hafa verið farnar í erlendar verðbréfamiðstöðvar og hagkvæmnisathuganir og kerfislýsingar unnar. Nú hillir loks undir að þetta framfaraspor á íslenskum verðbréfamarkaði verði stigið. Rafræn skráning eignarhalds á verðbréfum er forsenda fyrir því að íslenskur verðbréfamarkaður sé samkeppnisfær og geti tekið þátt í hinni hröðu uppbyggingu alþjóðlegs markaðar með verðbréf. Einsýnt er að tilkoma verðbréfamiðstöðvar mun spara ríkissjóði og öðrum aðilum á verðbréfamarkaði stórfé. Gert er ráð fyrir að stofnkostnaður verðbréfamiðstöðvar verði um 80 millj. kr. og árlegur rekstrarkostnaður 34 millj. kr. Kostnaður í dag við umsýslu með pappírsverðbréf svo sem launakostnaður, prentunarkostnaður, sendingarkostnaður og kostnaður vegna ógildingarmála nemur mörg hundruð millj. kr. á ári.

Herra forseti. Að lokinni þessar umræðu óska ég þess að frv. verði vísað til efh.- og viðskn.