Búnaðargjald

Föstudaginn 04. apríl 1997, kl. 10:48:09 (4985)

1997-04-04 10:48:09# 121. lþ. 99.9 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[10:48]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (and\-svar):

Hæstv. forseti. Ég skil mjög vel hugsunina að baki þessari fyrirspurn hv. þm. og ég held að ég hafi líka sagt frá því viðhorfi mínu og get þá endurtekið það hér að ég álít að þetta sé skref á þeirri braut sem landbúnaðurinn þarf að þróast eftir. Spurningin er hvað við stígum þau skref hratt og hvað við höfum þau stór. Ég ímynda mér að á einhverju árabili haldi það áfram að þróast í þá átt. Það gerist með ýmsum öðrum breytingum í landbúnaðinum. Landbúnaðurinn þarf nú að takast á við innflutning í auknum mæli, samkeppni í öðru formi heldur en verið hefur. Hann þarf að takast á við þetta svokallaða markaðskerfi öðruvísi en hann hefur gert á undanförnum árum eða áratugum þannig að miklar breytingar eru fram undan hvað þetta varðar og vafalaust munu þær einnig hafa áhrif á útlánastefnu og þessa millifærslu sem vissulega á sér stað með sjóðagjöldum sem tekin eru til þess að greiða niður vexti.

Ég minni aftur á að við erum ekki að leggja nýjar kvaðir á landbúnaðinn heldur að draga úr þeim. Við erum að draga umtalsvert úr þeim og lækkum sjóðagjöldin til Stofnlánadeildarinnar úr rúmlega 2% í 1,1% og hækkum vextina tvímælalaust um leið þannig að hér er verið að stíga skref í þá átt sem hv. þm. er að velta fyrir sér. En mín skoðun er sú, ég endurtek það sem ég hef áður sagt um þetta mál, að það yrði of mikið högg og of mikil breyting fyrir landbúnaðinn ef við felldum þessa niðurgreiðslu á vöxtum eða hvað við viljum kalla þetta, niður í einu skrefi, þ.e. að hækka vextina úr 2% eins og þeir eru almennt nú í kannski, ég veit ekki hvað, 5%, 6%, 7% eða þaðan af meira. En með þessu frv. og með frv. um Lánasjóð landbúnaðarins er verið að stíga skref í þessa átt.